13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

15. mál, strandferðaskip

Jón Þorláksson:

Það eru aðeins örfáar athugasemdir við þessa löngu ræðu hæstv. dómsmrh.

Jeg vil þá fyrst minna á það, að hinn árlegi tekjuhalli á Esju nemur álíka miklu og viðhaldskostnaður allra þjóðvega og flutningabrauta, sem þegar er búið að gera í landinu. Mjer sýnist, að samanburður á þessu tvennu ætti að vera nóg til þess að færa hverjum manni heim sanninn um það, að skynsamlegra er að leggja allmikið í vegina, þótt viðhaldskostnaður á þeim hækki þá eitthvað, heldur en að tvöfalda í einu spori þann halla, sem nú þegar er á strandferðunum. Það er auðvitað rjett hjá hæstv. dómsmrh., að öllum þeim sömu verður ekki fullnægt með auknum vegum, sem gagn hafa af auknum strandferðum. Má þar auðvitað benda á Hornafjörð, og að einhverju leyti kannske Breiðafjörð til dæmis. En úr því að ekki er hægt að hjálpa þessum hjeruðum með auknum vegum, þá vaknar spurningin: Er það þá rjett vegna þessara, hjeraða eingöngu að ráðast í byggingu nýs strandferðaskips? Jeg verð að segja það, að mjer sýnist, að með því að ráðast í byggingu þessa nýja skips, og þótt það verði rekið með allri þeirri tilhögun, sem hæstv. dómsmrh. lýsti, sje verið að ráðast í stórfeld mistök.

Það er óhjákvæmilegt, og það verður svo um öll okkar strandferðaskip, að flutningar þeirra verða langmestir til og frá Rvík. Það er ávalt tiltölulega lítill flutningur, sem fer með þeim milli annara hafna en endastöðvarinnar og einhverrar millihafnar. En þegar gert er ráð fyrir því, að þetta fyrirhugaða nýja strandferðaskip verði svo lítið, að það verði sjerstaklega hæft til þess að annast flutninga til smáhafnanna, þá er með því verið að endurtaka höfuðgallana, sem eru á gerð Esju. Því að það er álit allra þeirra, sem til þekkja best, að höfuðgallinn á henni sje sá, að lestarrúm hennar fyrir vörur sje of lítið. Getur hver hv. þm., sem vill, leitað álits útgerðarstjóra og skipstjóra hennar um þetta, og hygg jeg, að þeir mundu fá sama svar. Jeg hefi það eftir skipstjóranum, að sú stækkun á lestarrúmi skipsins, sem til þyrfti, mundi ekki gera merkjanlegan mismun á rekstrarkostnaði þess, en mundi hafa afarmikla þýðingu fyrir fjárhagsútkomu þess. Hann sagði, að það hefði oft og tíðum komið fyrir, að skipið hefði ekki getað tekið á móti öllum vörum, sem að bárust í Reykjavík, en hefði svo orðið að skrölta hálftómt kringum landið. Þetta hljóta menn að reka sig á, ef bygt er minna skip en Esja og því er ætlað að annast vöruflutningana kringum landið.

Það má auðvitað draga nokkuð úr rekstrarkostnaði skipsins með því að hafa í því litla vjel, en það getur fyrst og fremst verið hættulegt, þar sem skipið er ætlað til vetrarferða, og ennfremur sje jeg ekki annað en að það geri skipið mun óheppilegra til þess að flytja nýmeti frá höfnum úti um land til Reykjavíkur, því að til þess þarf áreiðanlega hraðskreitt skip, ef vel á að vera. En þetta taldi hæstv. dómsmrh. einn höfuðtilgang skipsins.

Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að afleiðingin af þessari framkvæmd, byggingu nýs strandferðaskips, mun verða stórkostleg fjárhagsleg vonbrigði og að flestir þeir, sem mesta þörf höfðu á auknum samgöngum á sjó, munu verða fyrir miklum vonbrigðum.

Hvað Hornafjörð snertir, þá er enginn vafi á því, að hægt er að bæta úr þörf manna þar með því að fara þá leið að auka skipaferðir á næstu hafnir. Það er áreiðanlega hægt að haga viðkomum millilandaskipa, sem koma á Austfirði, svo, að smærri skip, sem til þess eru hæf, geti fullkomlega annast flutningana til og frá Hornafirði svo að vel sje. Þetta er ódýrari úrlausn og betri fyrir þá staði, sem hlut eiga að máli, því að tíðari ferðir eru hjá því skipi, sem ekki er ætlaður nema lítill hluti af strandlengjunni, heldur en hjá því skipi, sem ætlað er að sigla kringum alt land.

En um fyrirkomulag strandferðanna eigum við að læra af reynslunni, og hvenær sem við byggjum strandferðaskip, þá á það að vera stærra en Esja, eða að minsta kosti að hafa meira flutningsrúm. Og þegar akvegur verður kominn milli Akureyrar og Reykjavíkur, þá verða fólksflutningarnir mestmegnis landleiðina.

Jeg skal ekki þreyta hv. deild með því að fara út í fleira, sem hæstv. ráðh. sagði. Þetta mál hefir lengi verið hugsjón hans og hann hefir tekið ástfóstri við það. En skoðun hans í þessu efni styðst ekki við reynsluna, því að hún bendir í alt aðra átt.

Hvað þá upphæð snertir, sem hjer er um að ræða, þá er henni áreiðanlega betur varið til þess að bæta vegi og til þess að styrkja smáskipaferðir á afskektar hafnir, sem vegabætur geta ekki náð til.