13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

15. mál, strandferðaskip

Jón Þorláksson:

Jeg gaf ekki tilefni til þess, að farið væri að ræða um byggingu Esju. En það er rjett, að hæstv. dómsmrh. lagði þá áherslu á, að skipið væri að mestöllu leyti miðað við farþegaflutning og aðeins örlítið pláss ætlað til vöruflutninga. Skipið var bygt með þessu sniði, — og hver er svo reynslan? Reikningur ársins 1926 sýnir, að farþegagjöld hafa numið 120 þús. kr., eða ¼ af rekstrarkostnaði, en vöruflutningarnir í þessu litla lestarrúmi, sem einhvernveginn varð afgangs farþegarúmunum við byggingu skipsins, gáfu af sjer 142 þús. kr. í tekjur.

Það er auðvitað ágætt að hafa augu opin fyrir því, að vel fari um farþega á skipum þessum, en sú skoðun þarf að samrýmast hæfilegri hagsýni, svo að ekki leiði af henni taumlausan fjáraustur úr ríkissjóði. Það er nú viðurkent, að hægt hefði verið að bæta rekstrarafkomu Esju, ef ekki hefði verið lögð jafneinstrengingsleg áhersla á farþegaflutninginn og gert var, heldur hugsað meir um rúm fyrir vöruflutninga.

Svo er og um byggingu þessa nýja skips, að gott er að hafa þörf landsins fyrir augum, en einnig sjálfsagt að láta gerðir sínar í því máli stjórnast af fullri hagsýni. Nú hefir komið fram, að megn ágreiningur er um það á meðal meðmælenda frv., hvernig skip þetta eigi að vera. Flokksmenn stjórnarinnar í Nd. vilja hafa það á borð við Esju og auka þannig samskonar ferðir og hún annast nú. Hæstv. dómsmrh. hefir gert hjer grein fyrir alt annari hugmynd. Þessi ágreiningur sýnir, að ekki er búið að hugsa til þrautar, hver sje hin rjetta niðurstaða, þegar bæta á við einu skipi. Jeg held því, að ekki sje tímabært ennþá að fá stjórninni þessa heimild. Jeg álít, að athuga þurfi, hvort ekki sje unt að bæta úr þörfinni með flóa- eða millifjarðabátum, t. d. fyrir Austurlandi. Jeg mun því greiða atkvæði á móti frv. þessu með góðri samvisku, en þar með er ekki sagt, að jeg muni um aldur og æfi verða á móti byggingu nýs strandferðaskips.