13.04.1928
Efri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2771 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

15. mál, strandferðaskip

Frsm. meiri hl. (Páll Hermannsson):

Það, sem fyrir mjer vakir í þessu máli, er tvent. Í fyrsta lagi að bæta úr þörf þeirra, sem beinlínis vantar samgöngur á sjó, og í öðru lagi að taka af erlendum skipafjelögum þá flutninga, sem þau hafa hjer við land.

Hv. frsm. minni hl. mintist á nál. okkar og taldi, að ummæli okkar í því nál. væru fjarstæða. Þar er talað um, að erlend gróðafjelög haldi hjer uppi strandferðum og raki saman fje. Þetta er staðreynd, svo að um það tjáir ekki að deila. Það hefir ekkert verið sagt um, hvernig rekstrarreikningar þessara fjelaga standa, en hitt þori jeg að fullyrða, að erlend fjelög fá of fjár hjá landsmönnum. Jeg veit, að öllum hv. dm. er ljóst, að erlend fjelög fleyta rjómann ofan af fólksflutningum hjer, af því að þau koma aðeins á bestu hafnirnar.

Þó að jeg sje ekki mjög kunnugur á þessu sviði, er langt síðan mjer skildist, að eini vegurinn til þess, að skipaútvegur geti borið sig hjer við land, er sá, að jafnframt því, sem skipin koma á minstu hafnirnar, komi þau líka á þær stærstu og fólksflestu. Landsmenn mega ekki horfa þegjandi á, að erlend skipafjelög græði stórfje á fólksflutningum hjer.

Við erum að ýmsu leyti sammála, hv. 6. landsk. og jeg, af því að báðir berum við fyrir brjósti samgöngur á landi. En hv. 6. landsk. lítur svo á, að þetta mál verði að bíða, af því að landsmenn eigi að leggja svo mikla áherslu á veg milli Reykjavíkur og Akureyrar. Jeg býst nú við, að nákvæmlega jafnmikil áhersla verði lögð á þann veg, hvort sem nýtt strandferðaskip verður bygt eða ekki. Jeg hugsa, að með því að hafa tvö skip mundi vinnast það, að rekstrarhalli yrði tiltölulega miklu minni en hann er nú. En um veginn milli Reykjavíkur og Norðurlands hefi jeg þá skoðun, að hann sje ekki eins þýðingarmikill og bættar strandferðir og vegir upp frá höfnunum. Jeg efast um, að ferðalög milli Reykjavíkur og Akureyrar yrðu ódýrari á landi en á sjó. Hinsvegar skal jeg viðurkenna það, að í alveg sjerstökum tilfellum, eins og t. d. í hafístilfellum, er mjög gott að hafa veg milli Norður- og Suðurlands.

Jeg sje ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það er þegar búið að ræða það mikið, bæði á þessu þingi og áður, og jeg býst við, að langar umr. breyti engu um atkvgr. hv. dm.