28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Eins og hv. þdm. muna, lá fyrir þinginu í fyrra frv. um samskóla Reykjavíkur, og var þar farið fram á miklu víðtækari og fullkomnari umbót á mentamálum höfuðstaðarins en hjer er um að ræða. Þó að nú svo færi sem fór í fyrra, að frv. um samskólann dagaði uppi, mest fyrir andstöðu hæstv. dómsmrh., þá er þó allrar viðurkenningarverð þessi viðleitni hans til að bæta að nokkru úr því nú, að hann á síðasta þingi beitti sjer gegn þeirri aukning á alþýðumentun, sem þá var um að ræða. Þetta er auðvitað ekki nema gleðilegur vottur um það, að sú ábyrgðarmikla staða, sem hann nú er kominn í, hefir haft betrandi áhrif á hugarfar hans í þessu efni. Og þó að þessu frv. sje að ýmsu leyti ábótavant, þá skal jeg fyrir mitt leyti taka því vel og athuga það gaumgæfilega, hvort hægt sje að einhverju leyti að leggja það til grundvallar fyrir framkvæmdum í þessu máli.

Með samskólafrv. var ráðgert að sameina 3 kenslustofnanir, sem nú eru til, og eina, sem ekki er til ennþá, en þetta frv. fer nú fram á að stofna hana. Frv. er mjög ábótavant, en jafnvel gallar þess benda ótvírætt á nauðsyn þeirrar sameiningar, sem samskólafrv. gerði ráð fyrir.

Ein af þessum kenslustofnunum, sem nú er til, þó að hún sje orðin of ófullkomin fyrir kröfur tímans, og átti að renna inn í samskólann, er iðnskólinn. Þann skóla sækja ungir menn í bænum, sem læra einhverja handiðn. Nú er stungið upp á því í þessu frv., að kend verði þar steinsmíði, trjesmíði, járnsmíði o. fl., sem vitanlega á ekki frekar heima í neinum öðrum skóla en iðnskólanum, og þetta er, þótt það ef til vill hafi ekki verið ætlun þess, er flytur frv., góð bending um það, hve mikils virði er að sameina í eina stofnun þá bóklegu kenslu, sem þar er nefnd, og svo þá verklegu kenslu, að því leyti sem hún verður í skólum kend.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta frv. að sinni, en vil aðeins segja hæstv. dómsmrh. það, að jeg vildi gjarnan leggja mína litlu krafta til þess, að aðgengileg úrslit fengjust í þessu máli.