31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

1. mál, fjárlög 1929

Jónas Kristjánsson:

Jeg á örfáar brtt. á þskj. 642. Jeg legg til, að styrkur verði veittur tveim fátækum stúdentum, sem nú dvelja í Kaupmannahöfn. Þeir eru báðir mjög góðir námsmenn. Jón Blöndal frá Stafholtsey er mjög góður námsmaður og hefir fengið hin bestu meðmæli hjá kennurum sínum. Móðir hans er fátæk ekkja og hefir af mjög litlu að miðla. Honum er því ekki unt að stunda nám áfram, nema ríkið hlaupi undir bagga með honum. Sama er að segja um Agnar Norðfjörð. Hann tók stúdentspróf 1927 og er hinn efnilegasti piltur, en foreldrar hans eru mjög fátæk. Jeg býst við, að ýmsum hv. dm. sje ekki kunnugt um, hve ömurleg eru kjör fátækra stúdenta í Kaupmannahöfn. Þeir verða að fara margs á mis, og oft er skorturinn svo mikill, að heilsu þeirra er hætta búin. Jeg vona fastlega, að hv. dm. sjái sjer fært að samþykkja styrk til þessara tveggja stúdenta, sem jeg ber hjer fyrir brjósti.

Næsta brtt. mín er á sama þskj. (642) og er þess efnis að veita viðbótarstyrk fátækri læknisekkju, sem á mörg börn. Börn hennar eru 4 innan fermingar og 3 eldri. Hún varð ekkja 1923. Bú hennar var þá þrotabú. Maður hennar hafði verið heilsulítill í mörg ár. Hann var búinn að slíta sjer út í útkjálkahjeraði, þar sem hann þurfti að hafa á hendi mjög erfið ferðalög. Eignirnar hurfu í þrotabúið, svo að konan fjekk jafnvel ekki lífsábyrgðarupphæð manns síns, sem henni var þó ánöfnuð. Eftir dauða hans hafði hún ekkert skjól fyrir norðan og fluttist til Reykjavíkur. Hjer hefir hún síðan barist áfram í mestu fátækt. Af þrem eldri börnunum gengur stúlka í verslunarskólann, jafnframt því sem hún hjálpar móður sinni við heimilisstörf; einn piltur 15 ára stundar nám við mentaskólann, en annar hefir verið atvinnulaus í vetur. Eins og gefur að skilja, er mjög erfitt fyrir eina konu að vinna fyrir svona stóru heimili. Allir þekkja, hvað húsaleigan er há. Hún nemur oftast miklum hluta af tekjum fólks, sem þó þarf að hafa nóg eftir til fæðis og klæðis. Það er 500 kr. hækkun, sem jeg fer fram á, og vona jeg, að hv. dm. vilji sinna því. Jeg ber líka fram varatill., en sannarlega veitir ekki af, að samþykt sje aðalupphæðin.

Þá á jeg enn tillögu á þskj. 642, XXXII., en hana tek jeg aftur í bili, en hefi hugsað mjer að flytja hana aftur í öðru formi við 3. umr.

Jeg vil nota þetta tækifæri til þess að minnast á brtt. á þskj. 615, 31. Í fjárlagafrumvarpinu er farið fram á, að Jóni Ófeigssyni verði greiddar 2000 kr. upp í vinnu hans við orðabók Sigfúsar Blöndals. Hann hefir lagt mikið og vel unnið starf í þá bók, en ekki fengið nema tiltölulega mjög litla borgun. Fjvn. hefir lagt til, að þessi liður falli niður. Jeg vildi óska, að sú fjárveiting yrði tekin upp aftur, en brtt. hv. fjvn. feld. Jón Ófeigsson hefir eytt afskaplega miklum tíma í þetta starf, og þó að hann hafi fengið nokkuð áður, er það tiltölulega mjög lítið.

Jeg vil líka minnast á brtt. á þskj. 615, 51. Þar er um að ræða Friðrik Jónsson póst. Hann hefir sótt um styrk áður, vegna heilsubilunar, sem hann varð fyrir í póstferð, en hefir ekki fengið hann. Nú hefir starf hans verið lagt niður og póstgöngum breytt svo, að hann hefir ekki lengur neitt póststarf með höndum. Það sýnist því ástæða til, að hann hefði fengið að halda þeim styrk, sem hv. Nd. ætlaði honum, en hann hefir samt verið færður niður í 300 kr. úr 450. Jeg vona, að hann verði látinn fá þessar 450 kr. Það munar ekki ríkissjóð miklu, en fátækan mann og heilsulítinn munar það nokkru. Hann hefir að nokkru leyti mist heilsuna í þágu þess starfs, er hann hefir unnið fyrir þjóðina. Nú er það starf lagt niður, en hann er ófær til annara verka.