28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2778 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Það var svo um samskólafrv., að eftir því var opinn vegur fyrir hvern nemanda í hverri deild skólans, að hann tæki þátt í kenslu í hinum skólunum eftir því sem hann vildi. Að því leyti var fyrirkomulagið allfrjálslegt, þótt það gangi kannske ekki alveg eins langt eins og í þessu frv., þar sem nemendurnir ákveða það algerlega sjálfir, í hvaða námsgreinum þeir taka þátt, og auk þess var umgerðin um kensluna svo rúm, að hægt var að auka við eftir því sem vildi, svo að jeg held, að það frv. standist allan samanburð við þetta frumvarp.

Jeg er öldungis sammála hæstv. dómsmrh. um þýðingu hinnar verklegu mentunar fyrir uppeldi ungra karla og kvenna, og jeg tel það sjerstaklega viðeigandi og sjerstaklega heppilegt, að slík kensla geti náð sem mestri fótfestu hjá þeim skólum, sem eiga að menta æskulýð bændastjettarinnar. Auðvitað er það gott líka fyrir þann æskulýð, sem ætlar að búa við sjóinn, en hinu, má ekki gleyma, að eins og sveitirnar gera kröfur til hvers manns um alhliða verklega mentun, eins gerir lífið í bæjunum harðar kröfur til allra manna um góða sjermentun. Þetta hefir nú, eins og hæstv. dómsmrh. talaði um, fengið fast form í löggjöfinni, þar sem vinna við handiðn í kaupstöðunum er nú nær eingöngu áskilin þeim mönnum, sem hafa tekið verklegt próf í handiðn, teikningu o. s. frv. Alveg sama er að segja um nær alt annað, t. d. vjelgæslu á skipum. Atvinnulíf bæjanna gerir alstaðar harðar kröfur til sjermentunar, og samskólafrv. var einmitt bygt á því að sameina það tvent, að veita mönnum almenna mentun og gera þeim ennfremur fært að afla sjer þeirrar sjermentunar, sem lífskröfurnar í þessum bæ gera. Að þessu leyti gengur þetta frv. svo miklu skemra en samskólafrv., en alt fyrir það stendur það, sem jeg sagði, að jeg vil gjarnan taka þetta frv. til athugunar undir væntanlegan grundvöll í þessari sjerlöggjöf.