16.03.1928
Efri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2780 í B-deild Alþingistíðinda. (2553)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það hefir orðið nokkur dráttur á því, að mentmn., sem haft hefir þetta mál til meðferðar, hafi skilað áliti sínu. Málið kom fyrir nefndina snemma á þinginu, og að það kemur ekki frá henni fyr en nú, er ekki af því, að nefndin hafi viljað liggja á málinu, heldur af því, að henni fanst málið þess vert að kynna sjer það vel, svo að hún gæti gert þær till., sem heppilegastar væru. Það olli og meðal annars drættinum, að nefndinni var kunnugt um, að frv. var í Nd. um svipað efni, samskóla Reykjavíkur, og fanst nefndinni rjett að eiga samstarf við mentmn. þeirrar deildar. Eftir að hafa ráðfært sig við mentmn. Nd., og sjerstaklega form. þeirrar nefndar, fræðslumálastjórann, og auk þess leitað þeirra upplýsinga, sem nauðsynlegar þóttu, hefir nefndin að nokkru leyti orðið sammála, og sjest árangurinn af starfi hennar í nál. 475. Nefndin er sammála um það, að þörf er á skóla hjer í Reykjavík, sem hafi það markmið að veita ungum mönnum og konum fræðslu, er barnaskólunum sleppir. Því vill nefndin beina þessu frv. áfram með þeim umbótum, sem hún sjálf og þingdeildin kynnu að vilja gera. Nefndin var líka sammála um, að slík sanngirni væri í að stofna ungmennaskóla í Reykjavík, að ekki yrði til lengdar staðið á móti þeirri sanngirniskröfu. Með þetta fyrir augum hefir nefndin hallast að því að láta frv. ganga áfram með einni brtt., sem nefndin er sammála um, en auk þess flytur einn nefndarmannanna sjerstaka brtt. á þskj. 486, sem hann mun gera grein fyrir. Það mun varla þörf á að víkja hjer að efni frv., deildarmönnum er það að sjálfsögðu kunnugt, en í stórum dráttum er það þetta: Stofna á skóla í Reykjavík, og noti hann fyrst hús, sem leigt verður handa honum. Eftir frv. á að starfa við hann einn fastamaður, en eftir brtt. nefndarinnar tveir. Skólann á að sníða eftir alþýðuskólum úti um land í starfsháttum og námsgreinavali, þar til tíminn hefir leitt í ljós, hvað honum best hentar í þessu efni. Eins og brtt. 486 ber með sjer, er nokkur meiningamunur í nefndinni. Sú brtt. gengur lengra en till. nefndarinnar. Jeg finn ekki ástæðu til að víkja að þessari brtt. nú. Þegar flm. hennar hefir gert grein fyrir henni, mun jeg gera mínar athugasemdir, ef mjer líst þess þörf.