16.03.1928
Efri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2784 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ástæðu til að þakka hv. nefnd fyrir það, hve vel hún hefir unnið að þessu máli. Jeg vona, að enda þótt orðið sje áliðið þings, þurfi það ekki að verða þessu máli að fjörtjóni.

Brtt. hv. meiri hl. nefndarinnar tel jeg vera til bóta, og kostnaður vegna þeirra er ekki svo mikill, að ekki megi hans vegna samþykkja þær. En út af ræðu hv. 3. landsk. vil jeg geta þess, sem raunar kom ljóslega fram hjá honum, að þær tvær leiðir, sem um er að ræða, samskólinn og þessi skóli, stefna báðar að sama lokatakmarki. Ef það frv., sem hjer liggur fyrir, verður samþ., er það besta lausnin, líka fyrir þá, sem vilja meiri framkvæmdir en það gerir ráð fyrir. Stærsti þröskuldur á vegi samskólans er sá, að hann gerir of miklar kröfur nú þegar. Þó að hægt væri að samþykkja slíkt frv., hljóta altaf að líða, nokkur ár, áður en það getur komið til framkvæmda. Jeg held, að þeir, sem vilja hlynna að ungmennafræðslu hjer, verði að viðurkenna, að það er spor í rjetta átt að fullnægja að nokkru leyti þörfinni, þó að ekki sje hægt að gera það strax á fullkomnasta hátt. Það er auðsjáanlega ekkert smáræði, sem þyrfti til þess að byggja yfir fjóra skóla, ekki síst þegar það er athugað, að nú er verið að byggja í Reykjavík stórhýsi fyrir barnaskóla, en jafnvel sú mikla úrlausn er ekki nema til bráðabirgða, ef bærinn heldur áfram að vaxa. Segir skólastjórinn, að þröngin verði svo mikil, að það þurfi að tvísetja í báða skólana. Jeg er alveg samdóma hv. 3. landsk. um, að það væri ánægjulegast að geta sjeð skólanum fyrir fullkomnu húsnæði strax í byrjun, og jeg skal fúslega viðurkenna, að erfiðleikar verða á að koma skólanum fyrir án byggingar. Mjer hafa samt dottið í hug ýms úrræði. Fyrst um sinn mætti nota þau skólahús, sem ekki eru fullnotuð. Til dæmis er ekki notuð nema ein stofa af þremur í stýrimannaskólanum. Þar mætti því hafa 40–50 nemendur. Ennfremur vona jeg, þó að jeg hafi engar ráðstafanir gert til þess, að hægt verði að fá stofu í iðnskólanum, einkum ef aðstreymi að mentaskólanum minkaði, því að hann hefir orðið að leigja þar stofu undanfarandi ár. Jeg er alveg samdóma hv. 3. landsk. um það, að erfiðleikar muni verða á að sjá fyrir húsnæðinu, er stundir líða. En þrátt fyrir besta vilja get jeg ekki sjeð, að líkur sjeu til þess, að það mál verði leyst að fullu á næstu árum. En með því að byrja kensluna í fullri alvöru með dugandi kenslukröftum, er mest ýtt á eftir þessu áhugaefni hv. 3. landsk. Þá verður þörfin á byggingu enn ljósari en áður. Jeg vil benda á, að nú eru í fjárlögum veittar 20 þús. kr. til ungmennaskóla í sveit. Meðan öllum sveitum landsins er ætlað að komast af með þessa litlu fjárhæð, er ekki hægt að búast við, að meira sje gert fyrir Reykjavíkurbæ en gert er. Í Reykjavík eru þó margir skólar. Þeir fullnægja að vísu ekki þörfinni, en þó eru úrræði, að minsta kosti fyrir þá áhugasömustu. Jeg vil benda hv. 3. landsk. á það, hve dýrt verður að fullnægja þörf Reykjavíkur. Hús, sem bygt er yfir 4 skóla, hlýtur að kosta hundruð þúsunda. 20 þús. kr. eiga að nægja í nokkur ár fyrir allar sveitir landsins, og þó hefir sú litla fjárveiting sætt mótspyrnu. Mjer finst því ekki ástæða til að samþykkja neitt um byggingu nú þegar, þar sem það er vitanlegt, að skólinn gæti vel starfað í nokkur ár, áður en bygt er yfir hann. Jeg skal játa, að af sparnaðarástæðum og mörgum öðrum ástæðum sje jeg ekki, að nauðsyn beri til, að gerð sje nú fyrirfram áætlun fyrir marga mannsaldra. Enn er ekki búið að finna fastan grundvöll undir ungmennafræðsluna hjer. Hv. þm. benti rjettilega á það, að við Ísafjarðarskólann ætti námstíminn að vera 3 ár. Sumir vilja hafa hann 2 ár og aðrir jafnvel ekki nema 1 ár. Þetta er af því, að menn eru að feta sig áfram. Jeg hefi áður skýrt frá því, hvers vegna jeg er á móti þriggja ára skóla. Jeg óttast, að þriggja ára skóli verði til þess að fjarlægja menn vinnunni. Jeg skal játa, að margir hafa gott af því að læra í þrjú ár, og sumir lengur, en mín reynsla sem kennari er sú, að hvert skólaár, sem bætist við, fjarlægi menn meir og meir vinnunni.

Um till. hv. 3. landsk. vil jeg geta þess, að fyrsta till. færir til betra máls það, sem hún á við. Til samkomulags við hv. 3. landsk. get jeg sagt, að jeg mun greiða henni atkv., þó að í henni felist engin efnisbót. En hinar 2 till. eru í ósamræmi við anda frv. Jeg tel ekki, að málið sje undirbúið, þó að samþ. hafi verið á einum bæjarstjórnarfundi að setja á stofn unglingaskóla og þó að einn maður, sem hefir fengist við alt aðra kenslu en hjer ræðir um, hafi gert um það frv. En að safna fje með frjálsum samskotum meðal bæjarbúa eða á annan hátt að reyna að fá almenning til að leggja á sig nokkra byrði málsins vegna, hefir ekki verið gert. Jeg hefi það á móti fyrri lið brtt. hv. 3. landsk., að enn er málið ekki komið á það stig, að ákvæði till. komi til greina. Reykvíkingar eru ekki búnir að leggja neitt á sig málsins vegna. En jeg er alveg samdóma hv. 3. landsk. um það, að þegar komið sje að byggingu skólans, sje mjög hæfilegt það hlutfall, sem hann vill hafa um framlag ríkissjóðs, í kaupstöðuln 2/5, en í sveitunum ½, því að í sveitunum þarf að hafa heimavistir fyrir nemendur. Um síðari lið till., að kostnaður greiðist úr ríkissjóði að 2/5 hlutum, en hitt úr bæjarsjóði Reykjavíkur og með skólagjöldum, verð jeg að segja það, að mjer finst Reykjavík sleppa of vel.

Jeg skal í fáum orðum skýra það, sem fyrir mjer vakti með 7. gr. frv. Jeg hefi þar ekki tekið tillit til skólagjaldanna. Jeg býst við, að með ítrustu sparsemi sje hugsanlegt að halda uppi 20 manna bekk með 3000 kr. Fyrir það má fá húsrúm, ræstingu og kenslu. En nú vantar ýms skólaáhöld, bókasafn og margskonar hluti, sem nauðsynlegir eru í skólum. Það var einmitt sett í frv. eftir till. fræðslumálastjóra, að skólanefnd hefði frjálsar hendur um úthlutun skólagjalda. Þegar maður ber útgjöldin til þessarar skólastofnunar saman við það; sem landsskólarnir kosta nú, sjest, að þau eru mjög lítil. Jeg hefi stefnt að því með undirbúningi frv. að gæta svo mikils sparnaðar sem frekast er unt. Það er hægra að fá samþykki Alþingis og bæjarstjórnar, ef sýnt er, að gætt sje ítrustu sparsemi. Jeg álít, að eins og málið horfir nú við, sje ekki ástæða til að samþykkja 2. brtt. hv. 3. landsk. Það væri að stofna málinu í hættu, því að menn óttast mikil útgjöld. En jeg vil ekki neita því, að till. hv. 3. landsk. geti orðið gagnlegar á sínum tíma, þegar farið er að taka föstum tökum á þessu máli.