31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

1. mál, fjárlög 1929

Björn Kristjánsson:

Jeg á enga brtt. sjálfur, en eina brtt. flyt jeg með tveimur öðrum hv. þm. Jeg þarf því ekki að vera margorður. Þó verð jeg að segja nokkur orð um till. á þskj. 615, þar sem lagt er til, að framlag til Kjalarnesvegar sje lækkað úr 20 þús. kr. niður í 10 þús. kr. Það er rjett, sem hv. frsm. tók fram, að þetta komst inn í Nd. við 3. umr. Honum þótti undarlegt, að þetta skyldi hafa komist inn fyrst þá, en nú skal jeg skýra frá, hvernig á því stóð.

Eins og kunnugt er, er þessi vegur þjóðvegur. Kjósarsýsla leggur þó fram kostnaðar við veginn, en það er ekki venja í þessu landi. Jeg veit ekki til, að fram að þessu hafi nokkur sýsla lagt fram fje til þjóðvegar, nema Gullbringusýsla, og var þó ekki beint um þjóðveg að ræða. En Kjósarsýsla vildi leggja þessa fjárveitingu á sig, af því að vegurinn var svo bráðnauðsynlegur. Síðasta þing veitti 20 þús. kr. til vegarins, en nú lagði vegamálastjóri það til við stjórnina, að veittar yrðu 22 þús. kr. Þessi vegur hefir afarmikla þýðingu fyrir það bygðarlag, og enda fyrir Reykjavík líka. Að því leyti er ekki hægt að bera hann saman við Þelamerkurveginn og Hróarstunguveginn. Þessi vegur ætti að vera nr. 1, en hinir sitja á hakanum. Það hefir líka hv. Nd. sjeð, að ekki var sanngjarnt að skilja hann eftir.

Þegar jeg nú hefi upplýst þetta, vona jeg, að hv. fjvn. taki þetta til nýrrar yfirvegunar, sýni þessari fjárveiting sem mesta sanngirni og felli hana að minsta kosti ekki við þessa umræðu, en athugi kringumstæðurnar eins og þær eru.

Einstöku till. kann jeg illa við að ganga framhjá án þess að minnast á þær. Svo er t. d. um þá brtt., er fer fram á að skerða laun Jóhannesar L. L. Jóhannssonar. Það hefir verið margsagt frá því, hvernig á því stóð, að sjera Jóhannes kom hingað til bæjarins og yfirgaf sitt embætti úti á landi. Hann væri efalaust prestur enn í góðu brauði, ef hv. Alþingi hefði ekki gefið honum átyllu til þess að segja af sjer og taka við nýju starfi. Hann er enn með fullum starfskröftum og vinnur enn ósleitilega að hugðarefni sínu. Meðan hann er vinnufær og meira en það, er hart, að hann njóti ekki þeirra kjara, sem hann var ráðinn upp á upphaflega. Það er blátt áfram brigðmælgi, sem sæmir alls ekki Alþingi Íslendinga. Þess vegna get jeg ekki fallist á till. hv. fjvn., þótt hún sje miðlunartill.; hún er ósanngjörn þrátt fyrir það. Enda breytti hv. Nd. þessari fjárveiting og sýndi með því, að hún vill standa við orð Alþingis.

Þótt jeg sje nú að finna að sumum aðgerðum hv. nefndar, verð jeg að þakka sumt annað; meðal annars það, að hún hefir hækkað styrkinn til dr. Helga Pjeturss upp í 6 þús. kr. Það er mikill mannsbragur að hví, að hv. fjvn. skuli hafa gert þetta, og mjer finst drenglyndi felast í því. Jeg er viss um, að fjöldi Íslendinga um alt land, lærðir jafnt sem leikir, gleðjast yfir því, að vel sje farið með þennan ágæta mann. Þótt hann hafi hingað til haft nokkurn styrk, þá hefir hann verið svo smánarlega lítill, að hann hefir rjett getað kvalið fram lífið og vart getað notið sín við störf sín. Hann er heilsuveill og þyrfti hressingar við. Hann þyrfti að geta farið utan og dvelja þar svo sem 6 mánaða tíma á hæli. Hann hefði þurft að gera það fyrir mörgum árum, en hefir ekki getað fjárskorts vegna. Jeg vona því, að hv. deild sjái sóma sinn í að samþ. þennan styrk.

Þá er einn lítilfjörlegur styrkur, sem jeg verð að mæla með. Það er 10. till. á þskj. 642, frá hv. 5. landsk. (JBald), um að veita Ólafi Sveinssyni vitaverði 800 kr. til þess að fullgera akveg að Reykjanesvita. Þessi styrkur er svo lítilfjörlegur, að jeg held, að þingið geti vart annað en samþykt hann. Vitavörðurinn hefir unnið mikið að því sjálfur að koma á bifreiðavegi úr Grindavík til Reykjaness, svo að nú er fært á bíl mestan hluta leiðarinnar. Nú er þeirri vegagerð komið svo langt, að 800 kr. ættu að nægja til þess að fullgera þann kafla, sem eftir er. Jeg ætla ekki að endurtaka það, sem hv. flm. (JBald) mælti fyrir till., en jeg vil aðeins undirskrifa það og vænti þess, að hv. deild samþykki að veita þessa litlu upphæð.

Till. hv. 5. landsk. um að fella niður skólagjöld við ríkisskólana í Reykjavík kemur mjer ekki sjerstaklega við að öðru leyti en því, að það væri mjög bagalegt, ef Flensborgarskólinn misti það fje, sem hann fær inn með skólagjöldum af innanbæjarnemendum í Hafnarfirði. En það hefir verið sett sem skilyrði fyrir ríkisstyrk til skólans, að bæjarnemendur greiddu skólagjöld eftir sömu reglum og við ríkisskólana í Reykjavík, og renni þau í skólasjóð. Ríkisstyrkurinn er ekki hærri en svo, að skólinn yrði að biðja um meira fje, ef hann er sviftur þessum tekjustofni.

Jeg segi þetta ekki af því, að jeg sje í sjálfu sjer á móti því, að skólagjöld falli niður. Mjer er illa við þau. En skólar, sem þeirra njóta, eins og Flensborgarskólinn, mega illa án þeirra vera uppbótarlaust. Jeg mundi greiða atkvæði með því, að skólagjöld fjellu burt, ef jeg ætti það víst, að styrkur fengist þeim mun hærri.

Jeg tek undir það, sem háttv. 6. landsk. (JKr) sagði, að sjer þætti ekki sanngjarnt, ef Jóhannes Sigfússon fengi ekki þennan styrk, sem honum er ætlaður.

Jeg man ekki, hvort jeg þarf að taka fleira fram, en helst vildi jeg vera sem stuttorðastur. Jeg mun yfirleitt greiða þeim till. atkvæði, er miða að einhverju leyti í verklega átt, til vega, hafnarbóta og þesskonar, hvaðan sem þær koma. Annars mun það sýna sig við atkvgr., hvernig mitt atkv. fellur um einstakar brtt.