19.03.1928
Efri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2793 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Ingibjörg H. Bjarnason:

Þar eð jeg hafði ekki tækifæri til að taka þátt í 2. umr., leyfi jeg mjer að segja hjer örfá orð vegna einstakra atriða, sem mig langar til að fá skýringar á.

Frumvarpið, eins og það nú liggur fyrir, er að mestu óbreytt frá því, sem stjfrv. var. Tel jeg, að brtt. í 4. gr. sje til stórbóta og í rauninni óhjákvæmileg. Það er óhugsandi annað en hafa verði að minsta kosti einn fastan kennara við skólann auk skólastjóra, því að gert er ráð fyrir, að kensla fari ekki fram undir einu þaki, heldur jafnvel tveimur eða fleirum, meðan ekkert fast húsnæði er til fyrir skólann. Þess er ekki að dyljast, að vandaverk mundi reynast að fá einn mann, er leysti skólastjórnina sómasamlega af hendi aðstoðarlaust, enda þótt kensla færi öll fram á einum stað.

Jeg hefi átt tal um þetta mál við hæstv. dóms- og kenslumálaráðherra, bæði innan mentamálanefndar, meðan við áttum þar sæti saman, og eins utan nefndar síðan. Og núv. kenslumálaráðherra hefir fundist þetta eina framkvæmanlega leiðin, til þess að geta byrjað nú þegar að bæta úr hinni miklu þörf, sem er á gagnfræðaskóla, þrátt fyrir hinn mikla agnúa, húsnæðisleysið. Skólahald og skólavist koma svo best að notum, að skólalífið og skólaaginn sje í góðu lagi. En það er hæpið, að þetta hvorttveggja verði sem ákjósanlegast í skóla, sem hefir engan fastan samastað og starfar kannske í mörgu lagi. Því vil jeg fyrir mitt leyti leggja mikið upp úr till. háttv. 3. landsk. við 2. umr. þessa máls. Það er ekkert meira áríðandi fyrir þennan skóla en að fá svo fljótt sem auðið er hús yfir höfuð sjer. Því að fyrir hvern skóla er skólahúsleysi svo mikið böl, að vart getur annað verra, og því meira böl er það, því fjölsóttari sem skólinn er, að búa í leiguhúsi eða þurfa jafnvel að flækjast á milli 2–3 staða. Jeg tel það hið mesta nauðsynjamál fyrir skólann að eignast sitt eigið hús, og álít það eitt aðalskilyrði þess, að skólinn komi að tilætluðum notum.

Hæstv. ráðh, hefir giskað á, að kostnaður við skólahaldið yrði ekki meiri en sem svaraði 3000 krónum á hverja 20 nemendur, sem skipa skulu hverja deild skólans. Þetta fer auðvitað eftir því, hve margar kenslustundir verða daglega, hvort þær verða 6 eða 5 eða jafnvel færri. Ef þær eiga að vera 6, hygg jeg, að kostnaðurinn nálgist frekar 4 þús. kr. en 3 þús. Um leið og jeg slæ þessu fram til athugunar, vil jeg leyfa mjer að spyrja hæstv. ráðherra, hvað ætlast sje til, að kent verði margar stundir á dag. Jeg veit að vísu, að ákvæði um slíkt eiga ekki heima í lögum, heldur er það reglugerðaratriði. En um leið og það er reglugerðaratriði er rjett, að það komi fram í umræðum, hvað hæstv. stjórn ætlast fyrir í þessu efni.

Þá er það nafnið sjálft, sem mjer finst ekki heppilega valið. Hvers vegna má ekki eins kalla þennan skóla unglingaskóla eða framhaldsskóla, eða þá gagnfræðaskólann í Reykjavík, í staðinn fyrir gagnfræðaskóla Reykjavíkur? Því jeg býst ekki við, að hann sje eingöngu ætlaður þessum bæ, eða að fólki utan af landi verði meinað að komast í hann til náms. Jeg get t. d. bent á, að nú dettur engum í hug að tala um kvennaskóla Reykjavíkur, heldur kvennaskólann í Reykjavík.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Þetta frv. er nú svo langt komið á leið sinni gegnum þessa hv. deild, að það tekur varla verulegum breytingum hjer eftir. Að svo mæltu vil jeg aðeins óska málinu alls góðs gengis, en vænti svars við spurningum mínum og athugasemdum þeim, sem jeg hefi komið fram með.