19.03.1928
Efri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2796 í B-deild Alþingistíðinda. (2562)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 2. landsk. hefir beint til mín nokkrum fyrirspurnum.

Um húsnæðismálið talaði jeg hjer við 2. umr. málsins, en það má vel vera, að hv. þm. hafi þá verið fjarverandi. Jeg get svarað því sama nú og þá, að jeg tel það auðvitað æskilegast, að skólinn hefði sitt eigið hús, og mundi auðvitað fylgja því fram, ef jeg sæi nokkur skynsamleg ráð til þess, að það mætti verða. Hinsvegar tel jeg, að hægt sje að byrja án þess að sjerstakt hús sje bygt fyrir skólann, og veit jeg, að hv. 2. landsk. skilur það fullvel, þar sem hún stýrir 50 ára gömlum skóla, sem enn á ekki sjálfur þak yfir höfuðið, en fer þó stöðugt stækkandi, með vaxandi aðsókn. Auðvitað veit jeg, að hv. þm. þekkir manna best þau óþægindi, sem þessu fylgja. Ástæðan til þess, að ekki hefir enn verið bygt yfir kvennaskólann, er auðvitað sú, að ekki hefir þótt fært að ráðast í þann kostnað, sem af því mundi leiða, og sama ástæðan er því valdandi nú, að jeg tel ekki fært að gera ráð fyrir því, að bygt verði yfir þennan væntanlega skóla nú þegar. Jeg skal nefna annan skóla, sem meiri ástæða væri til að ætla, að hefði getað komið sjer upp húsi en kvennaskólinn, og það er sá skóli, sem haldið er uppi af kaupmannastjett landsins. En það er nú svo enn, að þessi skóli, sem er líka mjög stór, er í leiguhúsi og býr við þau óþægindi, sem því fylgja. — Húsnæðismálið er fjárhagsatriði, sem bærinn og landið hljóta einhverntíma að leysa, þó að það verði ekki nú. Eins og jeg gat um við 2. umr., ætlast jeg til, að hlutfallið á milli bæjarframlags og ríkisframlags verði aðeins 2:3, af því að hjer er ekki gert ráð fyrir heimavist.

Eins og nú standa sakir er Reykjavíkurbær með fangið fult, þar sem er barnaskólinn nýi, og jeg býst ekki við, að bærinn sjái sjer fært að ráðast í nýja skólabyggingu á næstunni. Jeg er heldur ekki mjög óánægður með það, þó að 2–3 ár líði, þangað til hægt sje að hugsa til að byggja húsið, Jeg hygg, að áhugamenn og stj., hver sem hún verður, eigi þá hægra með að ákveða, hvernig skólahúsið eigi að vera. Sú byrjun, sem hjer er farið fram á, er ekki annað en tilraun, sem ætlast er til, að fari fram áður en ákvörðun er tekin um framtíðarskipum þessa máls.

Jeg hefi nú, síðan 2. umr. fór fram um þetta mál, átt tal við borgarstjóra um það, hvar hann teldi slíkan skóla best settan, og hefir hann bent á stað Í austurbænum, sem hann telur heppilegan, einkum að því leyti að hægt sje að auka við bygginguna.

Um nafnið get jeg sagt það að jeg er þar að miklu leyti sammála hv. 2. landsk. um það, að okkur vantar nafn, sem lýsi tilgangi skólans vel. Sjera Sigtryggur á Núpi nefnir sinn skóla ungmennaskóla, svo eru unglingaskólar og loks hjeraðsskólar. Hið síðasta er að ýmsu leyti best en getur ekki átt við hjer. Jeg valdi því þetta nafn, en legg dálítið annað í það en venja hefir verið, þar sem gagnfræðanám hefir verið 3 ára bóklegt nám og ekki annað. Jeg skal játa, að nafnið er líka tilraun, og má lagfæra það um leið og þetta mál verður tekið til athugunar á ný, eftir nokkur missiri. En það verður eflaust gert, hvort sem þetta frv. nær fram að ganga eða ekki.