31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1135 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

1. mál, fjárlög 1929

Ingvar Pálmason:

* Jeg á 3 litlar brtt. á þskj. 642. Mjer þykir hlýða, þótt ekki sjeu þær stórar, að fara um þær nokkrum orðum.

Brtt. XV. er þess efnis, að veittur verði Þórarni Jónssyni tónlistarnema í Berlín 1000 kr. styrkur til fullkomnunar í list sinni. Þessi maður er kunnur hv. Alþingi frá fyrri árum. Í síðustu fjárlögum naut hann samskonar styrks og jeg nú fer fram á.

Jeg get upplýst fram yfir það, sem áður hefir komið fram, að þessi efnilegi listamaður hefir getið sjer frama fyrir tónsmíðar, sem hann hefir bætt við frá því síðast. Þar á meðal má jeg fullyrða, að hann hefir sent til Páls Ísólfssonar verk, sem hann telur mjög mikils virði og merkilegt, og verður Páll að teljast dómbær í þeim sökum. Mun hann við tækifæri gefa Reykjavíkurbúum kost á að heyra þessa tónsmíð Þórarins. Án þess hægt sje um það að segja nokkuð ákveðið, þá fer þó að styttast sá tími, er hann þarf til námsins. Hann er stórskuldugur orðinn og óvíst, þótt hann fái þennan styrk, að hann geti lokið námi. En jeg þorði ekki að fara hærra í fjárbón fyrir hann en þetta, 1000 kr. Svipaðir styrkir þessum hafa á þessu ári yfirleitt verið ákveðnir þessi upphæð. Jeg þarf ekki að lýsa þessum manni frekara. Hv. deildarmönnum er kunnugt, hvernig högum hans er háttað, og það er ljóst, að hjer er um sjerstaklega efnilegan mann að ræða.

Næsta brtt. mín á sama þskj. er merkt XXVII. Þar er farið fram á 2500 kr. styrk til sjóvarnargarðs á Neseyri í Norðfirði, þriðjung kostnaðar. Þetta mál er svo vaxið, að svonefnd Neseyri hlífir að nokkru höfninni á Norðfirði og ver bryggjur kaupstaðarins fyrir ölduróti. Norðfjörður er mjög stuttur, svo að hafaldan nær inn í fjörðinn og er þar oft ókyrt við bryggjur, þótt örugt sje að öðru leyti fyrir skip að liggja þar. Þessi eyri hefir til forna gengið miklu lengra út í sjó en nú og skýlt betur. Sjórinn hefir smátt og smátt brotið framan af henni án þess að hafi verið gert. Þess hafði verið farið á leit við vitamálastjóra, að hann ljeti verkfræðing skoða aðstöðu og líkur til þess að geta komið í veg fyrir eyðing eyrarinnar. Úr því varð ekki neitt fyr en í vetur, er jeg kom hingað suður til Reykjavíkur. Fór jeg þá til vitamálastjóra og ámálgaði þessa beiðni við hann, og árangurinn varð sá, að verkfræðingur var sendur austur. Var hann viku fyrir austan og mældi alla aðstöðu og sendi vitamálastjóra skýrslu um mælingar sínar. Vitamálaskrifstofan hefir síðan unnið úr þessari skýrslu, og fyrir viku var mjer sendur þaðan uppdráttur af sjóvarnargarði, sem á að hindra, að eyrin eyðist meira en orðið er. Telur vitamálastjóri orsök til eyðingarinnar aðallega þá, að báran færi mölina meira og meira vestur á bóginn. Ef garður væri hlaðinn út af eyraroddanum, mundi það varna því, að mölin flyttist burtu; mundi hún hlaðast að garðinum og eyrin við það lengjast. Telur vitamálastjóri, að með þessu mundi vera hægt að lengja eyrina svo langt fram sem hún hefir nokkurntíma náð. Það mun óhætt að treysta því, að þetta mannvirki geti komið að fullu liði. Áætlun um kostnað við þennan sjóvarnargarð hljóðar upp á rúmlega 6000 kr. En jeg get upplýst, að efni verður að flytja að langar leiðir, svo að kostnaður við verkið hlýtur að verða meiri en áætlunin segir. Jeg geri ráð fyrir 7–8 þús. kr. Till. fer fram á 2500 kr., alt að 1/3 kostnaðar. Það er hliðstætt því, sem gert er annarsstaðar, þar sem um lík mannvirki er að ræða. Auk þess skal jeg taka það fram, að landið er að 1/3 eign ríkissjóðs, og virðist þá ekki minni ástæða til hluttöku af hálfu ríkissjóðs.

Þá er örlítil brtt., XXXI. á sama þskj., 300 kr. eftirlaun til Hildar Jónsdóttur ljósmóður. Það hefir verið tekinn upp sá siður, sem jeg verð að telja góðan, að sinna styrkbeiðnum frá öldruðum ljósmæðrum og veita þeim nokkur eftirlaun. Jeg hygg það vera rjett hjá mjer, að í hv. Nd. hafi verið bætt við 2 öldruðum ljósmæðrum á eftirlaunalistann, og mjer skilst á brtt. hv. fjvn. þessarar deildar, að hún leggi til að bæta einni við. Jeg þykist því mega vænta þess, að till. mín muni ná fylgi hv. deildar. Jeg skal geta þess, að þessi ljósmóðir er orðin öldruð kona, komin á sjötugsaldur. En þó er það ekki aðallega aldurinn, sem orsakar þessa eftirlaunabeiðni, heldur hitt, að hún á heilsulausan mann, sem misti heilsuna fyrir 10 árum. Hefir hann verið til lækninga hjer í Reykjavík í vetur. Hann hefir jafnan verið heilsulinur síðan í Spönsku veikinni 1918. Það orsakaði, að kona hans varð að segja af sjer ljósmóðurstörfum, af því að hún varð að sjá fyrir heimilinu með því að ganga að fiskvinnu og annari erfiðisvinnu. Hún taldi sjer ekki fært að gegna ljósmóðurstörfum í fjölmennu kauptúni, sem var umdæmi hennar, er hún þurfti að ganga í hvaða vinnu sem var, því að ljósmóðurstörfin gáfu henni ekki nógu miklar tekjur til þess að sjá fyrir heimili sínu. Heilsa hennar sjálfrar var sæmileg og ljósmóðurlaunin nægðu ekki til þess að geta lifað, og henni var arðsamara að vinna aðra vinnu. Jeg vænti þess, að hv. deild kannist við rjettmæti þessarar hóflegu brtt. minnar og sjái sjer fært að veita henni fylgi sitt.

Um einstakar brtt. hv. fjvn. og einstakra þingmanna ætla jeg ekki að tala, en læt nægja að sýna afstöðu mína við atkvgr.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.