16.04.1928
Efri deild: 72. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2809 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

32. mál, ungmennafræðsla í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Jeg tel, að frv. þetta hafi breytst til hins lakara fyrir aðgerðir hv. Nd. Jeg vil því, áður en frv. þetta verður afgreitt hjeðan sem lög, geta þess, að hvað fyrirsögn frv. snertir, þá var jeg ánægður með það, að upp var tekið gagnfræðaskólanafn, eins og var í frv. hæstv. stjórnar. Og jeg gat einmitt fallist á þá skýringu hæstv. dómsmrh., að nafnið ætti að benda til þess, að í skólanum bæri að kenna þau fræði, er verða mundu til nytsemdar. Og þótt jeg væri ekki ánægður með það, hvað byrjunin á þessum skóla átti að verða rýr, þá áleit jeg þó, að nafnið gæfi fyrirheit um fullkomnari skóla síðar. En það má nú reyndar líka segja um nafn það, er hv. Nd. hefir valið frv.; þar sem talið er, að þetta sje bráðabirgðaráðstöfun, þá gefur það einnig fyrirheit um betri skóla síðar. Jeg tel einnig, að vonast megi stuðnings þeirra hv. þm. í Nd., er nú hafa valið frv. þetta nýja, lítilfjörlega nafn.

Jeg er því sammála hv. 2. landsk. um þetta, en þar sem nú er komið að þinglokum, þá verð jeg að taka undir með hæstv. ráðh., að jeg þori ekki að greiða brtt. á þskj. 782 atkv., vegna þess, að jeg tel þá hættu á, að málið dagi uppi. Jeg er ekki svo viss um, að hv. þm. í Nd. sje þetta frv. svo mikið áhugamál, að þeir mundu leggja sig neitt fram um það að láta það fá fullnaðarafgreiðslu, ef það verður sent þangað aftur. En þótt jeg greiði atkvæði gegn þeim nú, þá geri jeg það í fullu trausti þess, að hægt verði með viðaukalöggjafar ákvæði að koma þessu ákvæði inn í lögin, áður en að því er komið, að tekin verði próf við þennan skóla.