28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2814 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg álít það að mörgu leyti vel við eigandi, að hv. 1. þm. G.-K. sagði nokkur orð um þetta frv., með því að eitt af þeim málum, sem mjög hefir verið talað um í þessu sambandi, er mál, sem sá hv. þm. var nokkuð við riðinn. En það er ekki nema eitt af þeim málum, sem hafa gert það óhjákvæmilegt að festa rjettarvenju. (BK: Hún er föst). Það getur verið, að jeg láti það bíða þangað til síðar að skýra frá dæmum, enda býst jeg við, að háttv. deild sjeu þau kunnug. Hv. þm. sagði, að margir þeir menn, sem atvinnu rækju, hefðu enga sjerstaka rjettarvernd. Það ætti að vera misskilningur hjá hv. þm. Ef einhver maður rekur atvinnu og annar talar eða skrifar á þann veg, að atvinnurekandinn getur leitt rök að því fyrir dómstólunum, að hann hafi beðið skaða, eða jafnvel að hann gæti beðið skaða af því, þá myndi hann geta fengið sjer dæmdar skaðabætur. En þetta er ekki hægt eftir þeim rjettar-„praksis“, sem nú er, þegar um samvinnufjelög er að ræða. Langmikilvægasta tilraun í þessu efni er sú, sem hv. þm. sjálfur gerði til þess að liða í sundur samvinnufjelögin og samband þeirra, með þeirri aðferð, sem þá var beitt, með því að senda sjerstakan bækling inn á hvert einasta heimili, fullan af ósannindum, blekkingum og níði um fjelögin og leiðtoga þeirra. Bæði undirrjettur og hæstirjettur komust að þeirri niðurstöðu, að þetta væri ekki skaðabótaskylt, meðal annars af því, að fjelögin lifðu þrátt fyrir þessa árás, og þess vegna ekki hægt að sanna það, að tilræðið hefði haft sín tilætluðu áhrif. En aftur á móti fjekk einn atvinnurekandi hjer í bæ mann dæmdan fyrir nokkrar greinar út af verslunarmálum, sem upphaflega voru sprottnar af dýraverndunaratriði, nefnilega hvort rjett væri að reka hesta landsfjórðunga á milli yfir heiðar, eftir að frost og snjór væri kominn. Undirrjettur komst að þeirri niðurstöðu, að maðurinn ætti að fá geysilegar skaðabætur. Hæstirjettur komst að þeirri niðurstöðu, að skaðabæturnar ættu að vera miklu minni, en þó nokkrar, og ekki sannaðist þó fyrir rjettinum, að atvinnurekandinn hefði beðið nokkurn skaða á hrossaverslun sinni, og meira að segja, ef verslunin hefði minkað þetta ár, þá hefði það verið honum til góðs, af því að árið var svo slæmt að því er snerti sölu til útlanda.

Jeg tek þessi tvö dæmi til þess að hv. 1. þm. G.-K. sje það ljóst, að slík rjettaróvissa sem þessi getur ekki dugað til lengdar. Það er ekki hægt að dæma eitt árið í sekt fyrir „kritik“, sem hefði getað orðið hlutaðeiganda til miska, og hitt árið fríkenna fyrir samskonar atferli, sem hafði skipulagsbundinn tilgang, en gat ekki á unnið, ekki vegna viljaleysis þeirra, er það höfðu í frammi, heldur af öðrum ástæðum.

Það getur vel verið, að þessa vernd verði að skerpa betur en gert er hjer í þessu frv. En hvað snertir víðvarp, þá hygg jeg, að á því sviði liggi engin hætta. Jeg býst ekki við víðvarpi nema undir ströngu eftirliti, og því myndi engin útvarpsstjórn leyfa sjer að nota það í „propaganda“-skyni eða til að ófrægja vissa aðilja í atvinnurekstri. Rjettaróvissan á þessu sviði er þess eðlis, að ekki verður hætt fyr en bót verður á ráðin. Það verður ekki þolað þegjandi, að sumir menn og sum fyrirtæki í landinu standi í skjóli laganna, en önnur svo á bersvæði, óvarin armi laganna, að hinar ferlegustu árásir á þau teljist leyfilegar og beri að þolast bótalaust. Þetta vonast jeg til, að hv. þm. verði ljóst við nánari athugun. Ef hann þykist hafa borið sigur úr býtum á þeirri torsóttu braut; sem hann hefir lagt út á, að reyna að eyðileggja með níðskrifum íslensk samvinnufjelög, að honum hefir haldist uppi að bera þau óhróðri án þess að sæta sektum, svo heitið gæti, þá býst jeg við, að hann geti skoðað það sem aflokið mál, eins og þátt, sem ekki verður leikinn aftur.