28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2830 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hv. 3. landsk. verður ekki annað sjeð en að fyrir honum vaki undarlegur tvískinnungur á verslunarrekstri, eins og hann álíti, að hjer í Reykjavík eigi að gilda aðrar reglur en annarsstaðar á landinu, og verður svo hissa yfir því, að hv. 1. þm. G.-K. skuli ekki mega vaða hjer uppi með óhroða orð um menn og málefni. Hann heldur kannske að það sje samkvæmt þingsköpum að kalla menn „Skratta“, eins og hv. 1. þm. G.-K. gerði. (JÞ: Hann gerði það alls ekki. — BK: Jeg viðhafði engin slík orð!). Það er ekki nema eftir þm. að vilja ekki standa við orð sín. En það er venja mín að senda andstæðingunum spjótin til baka, og venjulega með nokkru meira afli en þau koma. Mun svo enn fara, hvort sem íhaldsmönnum líkar betur eða ver.

Annars kann jeg því illa, að hv. 3. landsk. sje með vandlætingarræður á þingi, þar sem vitanlegt er, að í kjölfar hans inn á þing hefir siglt strákur, sem nú er grófyrtasti maður á þingi og sem fyrir fáum dögum ljet sjer sæma niðri í hv. Nd. að hafa yfir þennan vísupart yfir manni úr þessari hv. deild, sem átti þar þó málfrelsi: „Enginn bað þig orð til hneigja, illur þræll, þú máttir þegja“. Jeg ætla mjer því ekki að sitja undir siðferðisprjedikunum slíkra manna án þess að svara þeim fullum rómi.

Maður skyldi nú ætla, að hv. 3. landsk., sem einn fávís samherji hefir nefnt „heila heilanna“, væri læs, en sje hann það, þá hlýtur skilningi hans að vera eitthvað ábótavant, ef dæma á eftir því, hvernig hann skilur frv. þetta. Jeg ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp 1. gr. frv.; hún hljóðar svo:

„Hlutafjelög, samlagsfjelög, samvinnufjelög og önnur atvinnufyrirtæki, þar með talin þau, er rekin eru af hálfu hins opinbera, skulu njóta sömu lagaverndar sem einstakir menn gegn órjettmætum prentuðum ummælum, sem fallin eru til þess að hnekkja atvinnurekstri þeirra“.

Það, sem hjer er farið fram á, er því ekkert annað en jafnrjetti. Og það, sem kemur þessum tveimur hv. þm. til þess að grípa sverð og skjöld, er ekki annað en það, að þeir vilja berjast fyrir því, að fyrirtæki samvinnumanna og landsfyrirtæki sjeu rjettlægri í þessu efni en einstaklingarnir. Með öðrum orðum, það er verið að lögleiða, að það megi ekki fremur hafa órjettmæt ummæli um Kaupfjelag Eyfirðinga heldur en um sementsverslun hv. 3. landsk.

Er það þá ekki spaugilegt, að þessir menn skuli berjast með hnúum og hnefum á móti því, að menn megi flytja á prenti órjettmæt ummæli um fjelagsrekstur eða önnur sameiginleg fyrirtæki?

Það er hvergi bannað að flytja rjettmæt ummæli, ekkert annað gert en að banna þau órjettmæt ummæli, sem ætla má, að sjeu til spillingar fjelagsskapnum.

Á þessum grundvelli verður málið háð, og það er ekki til neins fyrir hv. 3. landsk. að reyna að halda því fram, að grundvöllurinn sje ekki nægilega skýr. Öll mótstaða þeirra manna, sem ekki vilja þessa gr. frv. staðfesta, gengur í þá átt að búa til smugu fyrir órjettmæta gagnrýni gagnvart samvinnufjelögum og landsverslun.

Auðvitað á að mega tala um atvinnufyrirtæki, kaupmenn sem kaupfjelög, að svo miklu leyti sem það eru almenn ummæli, sem ekki baka fyrirtækinu tjón. Ef t. d. væru viðhöfð þau skaðabótaskyldu ummæli, segjum t. d. um sementsverslun Jóns Þorlákssonar & Co., að það firma seldi dýrara sement en aðrir, þá gæti það firma fengið sjer dæmdar skaðabætur. En aftur á móti, ef sömu ummæli væru viðhöfð t. d. um Kaupfjelag Borgfirðinga eða Kaupfjelag Stykkishólms, þá geta þau ekki rekið rjettar síns, og verða slíkar rjettarreglur að teljast harla undarlegar. Þetta á að laga. Það á að brjóta á bak aftur þennan rangláta hugsunarhátt hv. 3. landsk. og annara þeirra, er þannig álykta, að þeim eigi að vera heimilt að fara með ranglát ummæli um atvinnufyrirtæki, einungis af því að þau sjeu stofnanir samvinnufjelaga eða landsins.

Eftir þessari skoðun háttv. 3. landsk. ætti t. d. að mega viðhafa röng ummæli um Landsbankann, en ekki Íslandsbanka, af því að Landsbankinn er sameiginleg eign allra landsmanna, en Íslandsbanki, eins og kunnugt er, að einhverju leyti eign útlendra manna. Gagnrýni á hendur bönkunum yrði því aðeins hættuleg í öðru tilfellinu, þótt órjettmæt væri í báðum tilfellum. Það er því alveg fjarstæða hjá hv. 3. landsk. að vilja halda því fram, að þetta frv., ef það yrði að lögum, útilokaði almennar umræður um atvinnufyrirtæki, heldur leggur það þann grundvöll, að segja beri satt og rjett frá, jafnt um allskonar atvinnufyrirtæki.

Hv. 3. landsk. vildi halda því fram, að samábyrgð kaupfjelaganna sje aðeins bráðabirgðafyrirkomulag. Það kann að vera, að einhver merkur samvinnumaður hjer á landi hafi einhverntíma látið þau orð falla. En jeg vil geta þess hjer, að sá maður, Severin Jörgensen, sem einna best og viturlegast og af mestri reynslu hefir ritað um samvinnumál í Danmörku, og verið hefir fyrir dönsku kaupfjelögin slíkur maður sem Jón Sigurðsson fyrir íslenskt sjálfstæði, segir eftir 40 ára reynslu, að samábyrgðin sje æskileg og eigi að haldast, ekki einungis vegna efnahagsins, heldur einnig vegna hinna siðbætandi áhrifa, er hún hefir. (BK: Hvernig er ábyrgðin í Danmörku, hve stór er hún og hve víðtæk?). Hún er ótakmörkuð þar eins og hjer. (BK: Jeg get sannað, að svo er ekki). Mjer þætti gaman að sjá þau falsskjöl, því að annað gæti það ekki verið. (BK: Jeg býst við, að lög fjelaganna nægi til þess að sýna það). Jeg get líka lagt fram önnur gögn, er sanna það gagnstæða. Annars er það álitamál, hvort það eiga að vera rjettindi fávísrar elli að segja ósatt og fara með fásinnu, án þess að það sje hrakið.

Að lokum vil jeg geta þess, ef hv. 3. landsk. þykist móðgaður fyrir hönd hv. 1. þm. G.-K., að það má gera ráð fyrir því, að það eigi fyrir hv. 1. þm. G.-K. að liggja að hverfa á burtu úr þessum heimi, eins og aðrir dauðlegir menn. Og til þess að hv. 1. þm. G.-K. geti haldið áfram lífsstarfi sínu, því, að fjandskapast við kaupfjelög, þá er honum nauðsynlegt, að þar sjeu einnig kaupfjelög, og finst mjer það vöntun á trúarlegum áhuga hjá hv. 3. landsk., að vilja ekki leyfa, að gert sje ráð fyrir ódauðleika kaupfjelaganna í sambandi við þennan fjandmann samvinnustefnunnar.