03.03.1928
Efri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv. Meiri hl. nefndarinnar vill samþ. frv. óbreytt, en minni hl. fella það.

Allshn. leitaði umsagnar og álits lagadeildar háskólans um þetta mál, og fylgir það prentað með áliti minni hlutans. En þó að álit lagaprófessoranna sje það, að þetta frv. sje óþarft, þá áleit meiri hl. allshn. rjett, að frv. þetta gengi áfram. Í vitund almennings er því svo háttað, að hann telur, að ýms fjelög og opinber fyrirtæki njóti ekki sömu lagaverndar og einstakir menn. Og jeg er viss um, að ef þetta verður samþ., þá verður, hvað sem áliti prófessoranna líður, litið öðruvísi en áður á þetta. Ein ástæða stjórnarinnar fyrir frv. er sú, að svo hafi virst, sem sumir dómarar litu á samvinnukaupfjelögin sem opinberar stofnanir, er stæðu undir almennri „kritik“ og hefðu því ekki sömu lögvernd og einstakir menn.

Viðvíkjandi formi frv. taldi nefndin ekki neitt að athuga. Þar sem talað er um prentað mál í frv., þá taldi nefndin, að það gilti og um vjelritað mál. Að minsta kosti er ekki gerður greinarmunur á þessu tvennu hjer á Alþingi, því í þingsköpunum stendur, að dagskrárnar skuli vera prentaðar, en þær eru nú jafnan vjelritaðar. Læt jeg svo þetta nægja og mun ekki taka aftur til máls, nema jeg þykist knúður til þess.