30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2862 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallason):

Mjer dettur ekki í hug að gera þetta að kappsmáli. En jeg vil benda þeim þrem hv. þm., sem er það svo mikið kappsmál, að þetta mál verði tekið til meðferðar af nefnd, á þetta: Hvers vegna komu þeir ekki með till. um það við 1. umræðu að vísa því til nefndar? Það er þó vaninn, að málum sje vísað til nefndar við lok 1. umr. Nei, það hefir átt að bíða til þess að tefja málið. Það er nú orðið alllangt síðan það var til 1. umr. og hefir ekki komist á dagskrá fyr en þetta. Það vita allir hv. þm., að það er svo margt, sem fyrir þinginu liggur, sem bíður afgreiðslu, að það nær engri átt að vera að tefja tímann með því að liggja yfir augljósum málum, sem hægt er að afgreiða orða- og umsvifalaust.

Hv. þm. Vestm. sagði, að allir væru sammála um það, að Samvinnufjelög ættu að njóta sömu rjettarverndar og einstaklingar. Hví er hann þá ekki reiðubúinn til þess að greiða atkvæði? Er nokkuð að athuga við það, þótt skilyrðislaust sje sett ákvæði um það, að þau eigi að njóta þessa rjettar?

Það er alls ekki algild regla, að málum sje skilyrðislaust altaf vísað til nefndar. Ef um augljóst mál er að ræða og það hefir fengið góða meðferð í annari deild þingsins, þykir oft forsvaranlegt að láta það sleppa við að ganga til nefndar í hinni deildinni.