30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Magnús Jónsson:

Það lítur helst út fyrir, að þetta mál hafi verið hespað fljótlega gegnum 1. umr., því að svo virðist, sem enginn muni eftir því, að það hafi verið fyr á dagskrá. Mjer kom það mjög á óvart, er jeg sá það á dagskrá í dag til 2. umr. Kannske það hafi verið afgreitt einhverja nóttina, því að það er nú orðinn siður að byrja á stórmálunum undir miðnættið, til þess að þm. megi sem minst um þau hugsa og tala. Hæstv. stjórn, sem þykist vilja flýta þinginu, lætur ryðja þeim ósköpum og býsnum af málum inn í þingið, að það hlýtur að verða langt, þrátt fyrir alla næturvinnu. Virðist stjórnin leggja mikið kapp á, að þm. sitji hjer nætur sem daga, þótt sjálf láti hún ekki sjá sig oft og tíðum, þótt um stórmál, sem henni við koma, sje að ræða.

Hæstv. stjórn hefði sjálf átt að sýna sínu eigin frv. þann sóma að láta vísa því í nefnd. Það er ekki einstakra þm., og allra síst andstæðinganna, að sjá til, að þeim málum, sem hæstv. stjórn ber fyrir brjósti, sje vísað til nefndar.

Kannske þetta eigi altaf svo til að ganga, þegar einhver löggjöf um samvinnufjelögin er á ferðinni. Jeg minnist þess reginhneykslis, er átti sjer stað um meðferð og afgreiðslu samvinnulaganna 1921. Þeim var hrófað upp í flýti og án undirbúnings, því að stj. hafði ekki tíma til að sinna því neitt; síðan voru þau lögð í frv.formi fyrir Alþingi, og þá tók ekki betra við. Frv. fór að vísu til nefndar í Ed. og fjekk nál. upp á fáar línur og var svo drifið til Nd. Þegar þangað kom, fjekk málið ekki einu sinni að fara til nefndar, en var hespað í gegnum allar þrjár umr. með slíku offorsi, að jeg hefi aldrei, síðan jeg kom á þing, þekt annað eins. Það má eflaust leita í þingsögunni eftir öðru eins dæmi, og jeg hygg það hafi aldrei neitt stórmál, eins og þetta mál mátti heita, verið afgreitt með slíkum ósköpum. Það sama er víst að gerast nú.

Ágreiningur var mikill í hv. Ed. um þetta mál, og hæstv. forsrh. hefir lýst því yfir, að ekki væru allir sammála um það, hvað felist í frv. Sumir segja: Þetta er þegar í lögum, en aðrir neita því. Það er harla undarlegt, ef Nd. má ekki rannsaka, hvorir hafa meira til síns máls. Það væri fíflskapur af Alþingi að fara að afgreiða lög um það, sem lög eru til um áður. Það væri heimska að setja ný lög, sem bönnuðu mönnum t. d. að stela, fiska í landhelgi o. s. frv., því að þetta er alt í lögum, sem í gildi eru. Það mundi spilla sæmd þingsins að gera sig sekt um slíka glópsku.

Þessu máli var af nefnd þeirri, er það hafði til meðferðar í Ed., vísað til umsagnar þeirra manna, sem helst er til að flýja um lögfræðileg efni, en það er lagadeild háskólans. Lagaprófessorarnir gáfu það svar, að lagasetning um þetta efni væri óþörf, með því að það mundi engin áhrif hafa á rjettarfarið, því að sama rjettarvernd gilti að lögum fyrir þá aðilja, sem teknir eru út úr í frv., og aðra, hvort heldur einstaklinga eða fjelög manna.

Annars er frv. sjálft bygt á dylgjum hæstv. dómsmrh. um hæstarjett, að hann dæmi ranga og vilhalla dóma. En hæstv. ráðh. lætur samt ekki svo lítið að vera hjer viðstaddur, er þetta heilafóstur hans á í frumvarpslíki að leggjast undir blessun hv. deildar. En ekki nóg með það, að frv. sje bygt á dylgjum um hæstarjett, heldur leyfir hæstv. dómsmrh. sjer að halda því fram, að það sje ekkert að marka umsögn þessara manna, prófessora í lögum við Háskóla Íslands. Þeir eru varadómarar í hæstarjetti og þess vegna eru þeir líka vilhallir og ranglátir, eins og sjálfir dómararnir. Þetta væri víst kallaður sleggjudómur hjá einhverjum.

1. gr. frv. er ósköp meinleysisleg, en svo tekur út yfir í greinargerðinni, því að hún er einna líkust dylgjugrein í sorpblaði. Jeg verð að segja, að um slíkt mál sem þetta eru alveg sjerstakar ástæður til þess að vísa því í nefnd. En annars ætti ekki að þurfa til þess sjerstakar ástæður, því að það er alveg sjálfsagður hlutur, þótt öðruvísi væri þetta mál tilkomið. Jeg sje, að menn eru að rannsaka, hvort þetta mál hafi nokkurntíma verið til 1. umr. Það væri þó saga til næsta bæjar, að svo væri, að það hefði gleymst að láta 1. umr. fara fram. (Forsrh. TrÞ: Hjer stendur það svart á hvítu í gerðabókinni, sem er undirskrifuð af hv. þm. (MJ) sjálfum). Já, jeg efast ekki um það. Jeg segi þetta frekar í gamni, af því að jeg sje, að verið er að rannsaká ritningarnar. En jeg efast nú samt um, að jeg hafi verið á þeim fundi.

Sem sagt, það eru ekki nema einstök smámál, helst löggildingar á höfnum (sem jeg man eftir) og annað slíkt, sem ekki er talið þurfa að láta fara í nefnd, og svo samvinnulögin hjer forðum daga. Hæstv. forsrh. getur því ómögulega komið það á óvart, að engar sjerstakar ástæður þurfi til þess, að talið sje rjett að vísa máli til nefndar; svo sjálfsagt er það talið. Jeg vona, að þetta verði ekki gert að neinu kappsmáli. Vona, að því verði veitt svo virðuleg meðferð að vísa því til nefndar. Jeg vil aðeins að endingu beina þeirri ósk til hæstv. forsrh., að hann komi þeim orðum til hæstv. dómsmrh., hvort sá hæstv. ráðherra sæi sjer ekki fært að vera hjer við, er umr. verður haldið áfram um þetta mál. Það getur verið, að einhverja hjer langi þá til að heilsa upp á hann.