30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2871 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg heyrði ekki upphaf þessara umr. hjer í hv. deild. En jeg heyrði þó svo mikið af ræðu hv. þm. Barð., að jeg veit, um hvað er deilt. Er þá fyrst að geta þess, að úr þessu hefir þegar verið skorið, því við 1. umr. frv. í þessari hv. deild var það ákveðið, að málið skyldi fara, nefndarlaust í gegnum þessa deild. Þá vil jeg benda mínum ágæta vini, hv. þm. Barð., á það, að þetta mál er svo einfalt, að menn hljóta á svipstundu að geta áttað sig á því, hvort rjett er að samþykkja það eða ekki. Undirbúningur þessa máls er líka svo góður, að ekki er ástæða til að ætla, að neinu þurfi þar að breyta. Það er undirbúið af tveimur glöggum lögfræðingum, öðrum í stjórnarráðinu, en hinum utan þess. Þá hefir það og verið rækilega athugað í Ed. og farið í gegnum þrjár umr. þar. En hitt tel jeg óhæfu, að fara að setja það til nefndar nú, eftir að búið var að ákveða það við 1. umr., að málið gengi nefndarlaust í gegnum deildina. Jeg vil því skora á hv. þm. Barð. að hefja nú umræður um frv. sjálft.