30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2872 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Jóhann Jósefsson:

Jeg bjóst satt að segja ekki við, að jeg mundi þurfa að taka tvisvar til máls um þetta. Jeg tók áðan aðeins undir þá ósk, sem fram var komin um það, að málinu væri vísað til nefndar. Jeg hjelt ekki þá, að hæstv. forsrh. myndi gera þetta að neinu kappsmáli, en sje þó nú, að svo muni vera, eftir að hafa heyrt síðustu ræðu hans, og hið sama heyri jeg á hæstv. dómsmrh.Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta mál væri ofur einfalt. Það kann nú að vísu að vera það. En rauði þráðurinn, sem í gegnum það gengur, er þó sá, að hefta frjálsa gagnrýni á opinberum fyrirtækjum, eins og sjest á frv. Mjer finst þetta talsvert athugavert, þótt jeg hinsvegar sje þeirrar skoðunar, eins og jeg tók fram áðan, að hlutafjelög og samvinnufjelög eigi í einu og öllu að njóta sömu rjettarverndar sem einstakir menn.

Það hefir nú verið upplýst, að þetta mál kom til 1. umr. daginn, sem sjómennirnir, sem druknuðu af Jóni forseta, voru jarðaðir. Er því eðlilegt, að menn hafi verið nokkuð utan við sig og því ekki eins gætt að því, sem fór þá fram, og því hefir svona farið. En í þingsköpunum er ekkert því til fyrirstöðu, að vísa megi máli til nefndar við hverja umr. sem er. Og þótt hæstv. dómsmrh. segi að þetta mál sje einfalt. — og er það að vísu satt, að ekki er um langt mál að ræða í frv. —, þá er þó rjett að þingmenn fái að athuga það í nefnd, fyrst þess er óskað. Og þar sem í frv. liggur ákvæði um það að hefta gagnrýni á opinberum fyrirtækjum, þá er rjett að athuga alt slíkt vel einmitt nú, þegar verið er að stofna til allskonar opinberra fyrirtækja. Er rjett, að þessi stefna sje athuguð í nefnd hjer, eins og í hv. Ed.