30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2873 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Ólafur Thors:

Hæstv. forsrh. tók ekki rjett upp orð mín, þar sem hann hafði það eftir mjer, að jeg þekti ekki þetta mál. Það sagði jeg ekki, heldur hitt, að jeg hefði ekki kynt mjer þetta mál nógu ítarlega enn til þess að vera viðbúinn að taka ákvörðun um það. Jeg er vanur að athuga málin, eftir því sem tími vinst til, en síðustu forvöð tel jeg venjulega þegar nefndarálit koma fram. En í þessu máli hefir vitanlega ekkert nefndarálit komið í þessari hv. deild, því málinu hefir, sem kunnugt er, alls ekki verið vísað til nefndar. Jeg hefi leitt rök að því, að rjett væri að vísa þessu máli hjer í nefnd til athugunar, jafnvel þótt það hefði verið athugað í nefnd í Ed., því reynslan hefði sýnt það, að ekki væri altaf vanþörf á að athuga og taka til yfirvegunar mál, sem fengið hefðu sömu afgreiðslu í Ed. Jeg benti á tvö önnur mál því til sönnunar og gat þess, að vegna þeirra, og máske fleiri mála, gæti jeg ekki borið ótakmarkað traust til hv. Ed. um þetta mál.

Hæstv. ráðh. benti á, að rjettara hefði verið fyrir okkur, sem gerum kröfu um það, að málið verði látið ganga til nefndar, að koma fram með þá kröfu við 1. umr. málsins. Jeg get nú fallist á, að svo sje, en jeg hefi máske ekki verið í deildinni, þegar það var afgreitt. Og hæstv. forsrh. ætti ekki að undra það, þótt við þingmenn sjeum ekki altaf viðstaddir á deildarfundum, þar sem þessi hæstv. ráðh. kemur varla nokkurntíma í þessa hv. deild. Og síst má hæstv. ráðh. undra það, þegar sú regla hefir verið upp tekin að ræða mikilsverð mál að næturlagi. Jeg get sagt frá því sem dæmi þess, hversu stundum er umhorfs hjer á slíkum fundum, að nú fyrir nokkru. var einn af best gefnu þingmönnum þessarar deildar að halda framsöguræðu í afarmikilsverðu máli. En auk hans voru ekki aðrir í þessari hv. deild en hæstv. forseti, sem sat í sínum stóli, og jeg, sem var frsm. minni hl. (Forsrh. TrÞ: Jeg var á gangi hjer á milli framsögumannanna!). Nei, hæstv. forsrh. lúrði á meðan inni á sófanum sínum! Hæstv. dómsmrh. sagði, að deildin hefði tekið þá afstöðu við 1. umr. málsins, að það væri svo einfalt, að óþarfi væri að láta það ganga til nefndar. En jeg vil nú benda hæstv. dómsmrh. á það, að þetta mál var til 1. umr. sama daginn og jarðarför sjómannanna, sem fórust af Jóni forseta, fór fram. Sá fundur byrjaði kl. 4, að endaðri jarðarförinni. Menn komu því hingað annars hugar og hafa því ekki verið að hugsa um að gæta fylsta rjettar síns. Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta mál hefði verið undirbúið af merkum lögfræðingum innan stjórnarráðsins og utan, en líklega hefir það þó verið gert undir handleiðslu hæstv. dómsmálaráðherra. Þá sagði hæstv. ráðh. einnig, að það hefði verið athugað gaumgæfilega í Ed. Jeg veit nú ekki, hvað jeg á að segja um þetta. En mig rekur þó minni til, að lagadeild háskólans hefir í umsögn sinni um þetta mál komist að þeirri niðurstöðu, að hjer væri um óþarfa lagasetningu að ræða, þar sem alt það, er í frv. stendur, væri áður til í lögum. Jeg finn því næstum til sársauka með þeim aumingja mönnum, er lagt hafa vinnu sína í þetta algerlega óþarfa lagasmíði. (HjV: Er ekki hægt að fella þetta?). Jú, svo ætti víst að vera, því það er hjákátlegt að samþykkja það — og það eitt — sem áður er til í lögum. En annars virðist sem hjer sje um það að ræða, hvorir rjettara hafi fyrir sjer, lögfræðingar þeir, sem stjórnarráðið hefir fengið til að vinna að þessu lagasmíði, eða lagaprófessorar háskólans. Er því rjett að fela allshn. málið til athugunar. Og komist hún við rannsókn sína að þeirri niðurstöðu, að hjer sje um nýung í lögum að ræða, þá kemur til álita, hvort rjett sje að samþykkja frv., en að öðrum kosti er sjálfsagt að fella það. — Jæja. Spaugilegt var það, að strax og hæstv. dómsmrh. var kominn hingað inn, fór hann að ávíta hv. þm. Vestm. fyrir það, að hann væri búinn að taka afstöðu til þessa máls, áður en búið væri að ræða það við 2. umr. Þetta er beinlínis hlægilegt, ef það væri í alvöru mælt, þar sem flokksmenn hv. dómsmrh. hafa hver af öðrum lýst því yfir hjer í sambandi við ýms tollamál o. fl., að búið væri fyrirfram að taka afstöðu til þeirra, og það jafnvel áður en þau komu til deildarinnar. En er það nú ekki syndsamlegt að láta þessa vesalings menn fremja það, sem dómsmrh. telur „óhæfu“, og hvað eigum við hinir að halda, sem vitum með vissu, að þeir hafa tekið þessar ótímabæru ákvarðanir fyrir forgöngu sama hæstv. dómsmrh., þessa ágæta manns, sem að því er best verður sjeð ávítar hv. þm. Vestm. í fullri einlægni fyrir að vera búinn að taka afstöðu til málsins við 2. umr. þess? — Já, fyr má nú vera! Rjett áður en hæstv. dómsmrh. kom hjer áðan inn í þessa hv. deild, var hæstv. forsrh. að ávíta mig fyrir það, að jeg væri ekki búinn að taka afstöðu til þessa frv. Þessir hæstv. ráðh. eru því ekki á sama máli um þetta. Og nú skil jeg það, hvers vegna þessir hæstv. ráðh. láta svo sjaldan sjá sig hjer, sem raun gefur vitni. Það er af því, að þeir, hæstv. ráðh., eru ekki sammála um nokkurn skapaðan hlut og forðast svo að vera hjer, til þess að sem minst beri á þessu ósamræmi, sem er í skoðunum þeirra. En undireins og þessir hæstv. ráðh. sýna þessari hv. deild þann sóma að láta sjá sig þar; þá kemur þetta fram. Þá ávítar hæstv. forsrh. mig fyrir það að hafa ekki myndað mjer skoðun á þessu máli, en hæstv. dómsmrh. ræðst á hv. þm. Vestm. fyrir að hafa myndað sjer skoðun á sama máli.

Jeg skal svo ekki ræða þetta mál frekar á þessum grundvelli. En jeg vona, að hæstv. dómsmrh. haldi sig nú hjer í þessari hv. deild, þó ekki sje nema vegna ánægjunnar af að hafa hann hjer.