30.03.1928
Neðri deild: 61. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (2639)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Jóhann Jósefsson:

Hæstv. dómsmrh. hefir nú haldið alllanga tölu, og gerir hún það að verkum, að hafi menn verið í vafa um það, hvort málið ætti að athugast í nefnd eða ekki, þá er enn meiri ástæða til þess nú, eftir að hæstv. ráðh. hefir talað. Hæstv. ráðherra sagði, að frv. þetta ætti að fyrirbyggja „Justitsmord“ og dómaraafglöp. Þegar svo mikið stórmál er á ferðinni, þá vænti jeg þess, að hæstv. ráðherra kannist við, að það sje mjög hógleg ósk, að það sje athugað í nefnd. En hæstv. ráðherra er annað betur gefið en að líta á sanngjarnar óskir annara.

Þá lagði hæstv. ráðh. mína afstöðu þannig út, að jeg vildi láta kaupfjelögin verða fyrir órjettmætum ummælum án þess þeim væru nokkrar bætur greiddar. Hvenær hefi jeg sagt slíkt, og hví ber hæstv. ráðh. mig slíkum sökum? Það er sorglegt, að hinn sami maður, sem í öðru orðinu þykist vera að leggja sig í líma til þess að rjettlætið fái að njóta sín sem best í landinu, ber á sama augnabliki saklausan mann slíkum sökum. En jeg tek mjer það ekki nærri; geðsmunir hans eru þannig, að hann kann ekki að stilla orðum sínum í hóf.

Það hefir verið leitað álits lagadeildar háskólans í þessu máli, en samt má. ekki vísa því í nefnd hjer í Nd. Finst mjer stjórnin enga afsökun hafa fyrir hví að hafa á móti því, þegar eini íhaldsmaðurinn, sem í nefndinni er, hefir lofað því að tefja ekki fyrir málinu. En hvers vegna má ekki athuga málið nánar? Hæstv. stj. hefir sagt, að skoðanir lagamanna væru skiftar í þessu máli, og þá er ekki að undra, þótt svo sje einnig meðal leikmanna.

En það er þessi einkennilega tilhneiging til þess að knýja sinn vilja í gegn, án þess að taka tillit til þess, er andstæðingarnir hafa fram að færa, sem einkennir þingsögu meiri hl. þessa þings og nú veldur því, að stj. hefir á móti því, að málinu verði vísað í nefnd.