16.04.1928
Neðri deild: 73. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2901 í B-deild Alþingistíðinda. (2651)

33. mál, vernd atvinnufyrirtækja gegn óréttmætum prentuðum ummælum

Magnús Guðmundsson:

Mjer þykir leitt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki vera hjer viðstaddur. Jeg ætlaði að ræða nokkuð við hann um málið, út af því, sem fram kom við 2. umr. Mjer er ómögulegt að sjá annað en að eftir því, hvernig hæstv. ráðh. hefir skýrt þetta frv., eigi að heimta frekari sannanir af fjelögum en einstökum mönnum fyrir skaða út af meiðandi ummælum. Það er föst „praksis“ hjer á landi fyrir því, að einstakir menn þurfa ekki að færa fylstu sannanir fyrir því, að þeir hafi orðið fyrir tjóni. En eftir því, hvernig hæstv. dómsmrh. talaði hjer við 2. umr., á nú að heimta fullar sannanir af fjelögum. Eftir hans yfirlýsingu er enginn vafi á, að afleiðingin verður sú, að samvinnufjelög og önnur fjelög verða ver sett en einstakir menn, og þykir mjer einkennilegt, ef það er meining hæstv. ráðh., að það verði svo. — Þá þykir mjer og einkennilegt, að hjer skuli aðeins tekin prentuð ummæli. Munnleg ummæli eru ekki og eiga ekki að teljast síður skaðnæm. Jeg álít því, að frv. sje til ills eins, ef það á að skiljast á þann veg, sem hæstv. ráðh. skýrir það. Mun jeg því greiða atkv. á móti því, með því að jeg vil að gildandi löggjöf um sömu rjettarvernd einstaklinga og fjelaga verði áfram óbreytt.