25.01.1928
Efri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

35. mál, lokunartími sölubúða

Jón Þorláksson:

Jeg vil taka það fram, að það villir engan, þó að eitt herbergi í íbúð manns sje af honum öðrum fremur notað til þess að vinna í daglega iðju og óviðkomandi menn vilji kalla það vinnustofu. Að öðru leyti skal jeg ekki lengja umræðurnar. Það kemur engum á óvart, þó að hv. 5. landsk. þyki það lítil ástæða í einhverju máli, þegar minst er á, að borgarar landsins eigi að hafa rjett til persónulegs frelsis. Það er vitanlegt, að hann og hans flokkur vilja ganga æ lengra í því að svifta menn persónulegu frelsi þeirra. Þeir eru arftakar einvaldsherranna á miðöldunum, sem í lok miðaldanna voru búnir að setja svo ströng lög, að heita mátti, að enginn mætti hreyfa sig frá vöggu til grafar. En svo sprakk bólan, og er ekki ólíklegt, að eins fari fyrir hv. 5. landsk. og flokki hans.