25.01.1928
Efri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

35. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jón Baldvinsson):

Jeg vil spyrja hv. þm. (JÞ), sem sjálfur hefir haft verslunar- og vinnustofu í húsi sínu: Taldi hann það þá hluta af íbúð sinni? Jeg held, að hv. þm. hafi ekki getað hnekt því, að rakararnir hafi allir vinnustofur, sem hafa viðskifti við almenning. Þó að sumir þeirra sjeu í eigin húsum með vinnustofurnar, er villandi að segja, að þeir taki á móti viðskiftavinum sínum heima hjá sjer.

Hv. þm. bar mjer á brýn, að jeg vildi svifta menn frelsi. Mikil skelfing er að heyra þetta úr þessari átt. Veit hv. þm., hvað frelsi er? Það sanna frelsi felst í því að takmarka frelsi einstakra manna, svo að þeir geri ekki heildinni skaða. Hjer er verið að gera ráðstafanir til að setja reglur, er varni því, að einstakir menn geri það að verkum, að ekki sje hægt að halda reglu um lokunartíma vinnustofa, og reyna að koma í veg fyrir, að menn þurfi að hanga langt fram á kvöld eftir því að afgreiða viðskiftamenn, sem annars hefðu komið fyr, ef reglur væru um lokunartímann.

Jeg skildi niðurlag ræðu hv. þm. þannig, að ef eitthvað af þessum frelsisskerðandi frv. næði fram að ganga, mættum við eiga von á meiri háttar byltingu. Það mátti ekki seinna vera.

Háttv. þm. er nú æðilengi búinn að þruma gegn umrótsmönnunum, en hann er ekki fyr kominn í minni hluta en hann fer að hóta okkur blóðugri byltingu.