25.01.1928
Efri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2906 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

35. mál, lokunartími sölubúða

Jón Þorláksson:

Það er misskilningur hjá hv. 5. landsk., að jeg hafi verið að hóta byltingu. En jeg veit, að mennirnir eru eins innrættir og þeir hafa altaf verið; þegar þeir eru farnir að finna til fjötra, sem þeir hafa sjálfir lagt á sig í hugsunarleysi, vilja þeir hrista þá af sjer, og gera það oftast á löglegan hátt. Í þessu tilfelli er leiðin greiðfær. Menn bara hætta að fylgja þeim forsprökkum, sem ekki hafa svo ýkjamikið fylgi hvort sem er, svo að umskiftin verða ekki mikil.

Um vinnustofu mína er það að segja, að jeg er meðeigandi í verslunarfyrirtæki, sem ekki kemur málinu við. En auk þess stunda jeg verkfræðingsstörf og hefi í því skyni vinnustofu eða teiknistofu í íbúð minni. Og mjer hefði þótt það alveg óþolandi, ef nokkur stjórnarvöld hefðu farið að setja mjer reglur um það, hvenær jeg mætti taka á móti viðskiftavinum í þessari stofu í íbúð minni.