06.02.1928
Neðri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

41. mál, sala á landi Garðakirkju í Hafnarfirði

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og sjest í nál. á þskj. 93, hefir allshn. orðið sammála um að mæla með frv. Ástæðurnar til þess, að frv. er fram komið, eru teknar fram í greinargerð, og þarf jeg ekki að fara um þær mörgum orðum.

Þess skal getið, að nefndin hefir spurt biskupinn um álit hans á þessu máli. Hefir hann lýst yfir því, að hann sæi ekkert á móti sölunni. Land það, sem Hafnarfjarðarkaupstaður nú vill fá keypt, var undanskilið, þegar aðrar eignir Garðakirkju í Hafnarfirði voru seldar. Var þá svo til ætlast, að prestur hefði þar grasnytjar, ef hann flyttist til Hafnarfjarðar. En biskup telur ekki miklar líkur til, að presturinn muni flytja sig í kaupstaðinn, og ekki heldur æskilegt. Ennfremur hefir skipulagsnefnd ákveðið, að einmitt sá blettur, sem hjer ræðir um, skuli í framtíðinni verða skemtigarður bæjarins. Því verður ekki hægt að nota hann til annars.

Mjer þykir rjett að taka það fram, áður en jeg skilst við málið, að það er yfirleitt ekki venja, að prestum í kaupstöðum sje sjeð fyrir grasnytjum. Þeim er ætlað að sjá um sig sjálfum, eins og öðrum, sem á mölinni búa. Því er það, að þó að presturinn flyttist til Hafnarfjarðar, yrði hann engu ver settur en aðrir kaupstaðaprestar, þó að búið væri að selja landið.