04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. samgmn. (Halldór Steinsson):

Samgmn. á eina brtt. á þskj. 695, þess efnis, að styrkurinn til flóabátanna sje hækkaður úr 106750 kr. upp í 106950 kr. Þetta stafar af því, að í nál. samgmn. Nd. hafði upphæðin verið skakt reiknuð, þannig að hún reyndist 200 kr. of lág samkv. þeim upphæðum, sem veittar eru til hvers einstaks flóabáts. Það er nú upplýst, að einum bátnum hafði verið ætlaður 200 kr. hærrri styrkur en vera átti. Það er styrkurinn til Rauðasandsbáts, sem var settur á 500 kr. í stað 300 kr. Þegar þetta er leiðrjett, verður heildartalan rjett, svo að brtt. er ástæðulaus og er því tekin aftur. Jeg skal geta þess í þessu sambandi, að nefndin hefir athugað till. Nd. og þótt kenna ósamræmis milli styrkveitinganna til hinna ýmsu flóabáta, sjerstaklega Eyjafjarðarbátsins og Djúpbátsins. Ennfremur vil jeg geta þess, að nefndinni þótti rjett, að þeim bátum, sem annast póstflutninga, sje borgað fyrir það úr póstsjóði, en ekki beint úr ríkissjóði, því að póstsjóður á að greiða allan þann kostnað, sem af póstmálunum leiðir. Væntir nefndin þess, að stj. lagfæri þetta. Jeg hefi heyrt, að Eyjafjarðarbáturinn hafi á síðasta ári fengið 5000 kr. beint úr ríkissjóði fyrir póstflutninga, svo að það er full ástæða til að skora á stj. að sjá um, að þessu verði hagað öðruvísi framvegis. Nefndinni barst erindi frá þm. Skaftfellinga um það, að bátur þeirra yrði tekinn út úr og hafður sjer, en nefndin sá sjer ekki fært að verða eið þeirri beiðni, af því að ganga má að því sem vísu, að sömu kröfur kæmu annarsstaðar frá. Nefndin álítur það líka eðlilegast, að þingið ákveði heildarupphæðina fyrir bátana, en láti stj. ráðstafa hverjum einstökum styrkveitingum til þeirra samkvæmt vilja þingsins.

Þá kem jeg að brtt. mínum. Sú fyrsta er um styrk til hafnarbóta í Ólafsvík. Við 2. umr. flutti jeg tillögu þess efnis, að til þeirra yrðu veittar 15 þús. kr., en sú till. var feld með 7:7 atkv. Ástæður voru litlar bornar fram við þá umr. aðrar en þær, að þetta hreppsfjelag hefði lagt lítið úr eigin vasa til þessara mannvirkja, og því væri ekki hægt að fylgja till. Þess vegna hefi jeg við þessa umr. breytt till., svo að hún verði aðgengilegri, og sett 10 þús. kr., gegn því skilyrði, að hreppsfjelagið legði fram á móti 5 þús. kr.

Hæstv. fjmrh. er ekki við, svo að það er ekki gott að tala við hann, en jeg vil geta þess, að hann tók mjög sanngjarnlega í þetta mál við síðustu umræðu. Hann skildi þörfina og jeg gat yfirleitt ekki heyrt, að hans aðstaða hvíldi á öðru en því, að hann vildi fá sannanir fyrir, að mannvirkið mundi standa og að því fje, sem þegar er búið að verja til þess, væri ekki kastað á glæ. Jeg tók þá fram, að þessi garður hefir verið í byggingu í 4 ár og allan þann tíma hefir hann ekki að neinu leyti haggast, svo að sterkar líkur eru til þess, að hann muni standa einnig í framtíðinni. Það er þegar búið að byggja garðinn svo langt, að það hvílir mestur sjógangur á þeim kafla, sem kominn er. Þetta verk hefir verið undir umsjón verkfræðings frá byrjun, þess sama og áætlaði verkið upphaflega, Benedikts Jónassonar. Jeg hefi beðið hann um umsögn hans í þessu máli, til þess að hv. dm. geti sjeð, að jeg er ekki að fara með neitt fleipur. Með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp brjef hans:

„Þjer hafið, hr. alþingismaður, beðið mig um umsögn mína viðvíkjandi hafnarbótunum í Ólafsvík, og vil jeg leyfi mjer að leggja hjer með afrit af brjefi mínu dags. 31. mars 1925, þar sem lýst er fyrirkomulagi hafnargarðsins, sem hjer um ræðir. Svo get jeg bætt því við, þar sem garðurinn hefir verið framlengdur á hverju sumri síðan og er nú orðinn 137 m. á lengd, enda kominn fram fyrir það, sem mest áreynsla verður á honum af sjávargangi, en þó aldrei haggast eða skemst að neinu leyti, þá verður það að álítast óyggjandi sönnun þess, að hann stendur til frambúðar. Jeg hefi haft aðalumsjón með verkinu og það hefir að öllu leyti verið unnið að mínu fyrirlagi og jeg má segja, að það hefir verið vel af hendi leyst, enda ber garðurinn það með sjer með því að standa svo vel á móti þeirri áreynslu, sem hann verður fyrir. Nú er eftir að byggja 50 m. af þessum garði, og er það mjög áríðandi, að haldið verði áfram að framlengja garðinn að fullu, svo að hann geti komið að tilætluðum notum, og þar sem búið er að leggja svo mikið fje í hann, þá væri það mesta óráð að hætta við svo búið.“

Jeg vil beina því til hv. dm., en þó einkum til hv. fjvn., að eftir að bæði jeg, sem kunnugur maður á þeim stað, sem um er að ræða, hefi gefið þær upplýsingar, sem jeg veit sannastar, og sá verkfræðingur, sem haft hefir umsjón með verkinu frá byrjun, staðfestir að öllu leyti mínar upplýsingar, vænti jeg þess, að hv. þd. geti fallist á að veita þetta fje.

Jeg á eina litla brtt. við 18. gr. II. f., sem er þess efnis, að Þórunni Sigurðardóttur, ekkju Halldórs Bjarnasonar pósts, verði veittar 300 krónur árlega. Maður þessarar konu, Halldór Bjarnason, var póstur þar vestra í 30 ár, og reyndist afburða duglegur og samviskusamur póstur. Jeg hefði ekki borið fram þessa tillögu, ef mjer hefði ekki verið kunnugt um, að þegar standa og hafa staðið í mörg ár í fjárlögunum svipaðir styrkir og sá, sem jeg fer hjer fram á. Góðir póstar eru einhverjir bestu starfsmenn þjóðfjelagsins, og ekkjur þeirra eiga það fyllilega skilið, að þær sjeu styrktar, þegar þær þurfa þess með, eins og hjer á sjer stað. Jeg vona því — og þykist viss um —, að þessari brtt. minni verði vel tekið.