03.02.1928
Efri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

51. mál, landhelgisgæsla

Flm. (Halldór Steinsson):

Eitt af allra þýðingarmestu málum þjóðarinnar er landhelgigæslumálið. Örugg og trygg landhelgigæsla er lífsskilyrði mikils hluta þjóðarinnar, eða allra þeirra, sem stunda sjó á öðrum skipum en botnvörpuskipum, og jafnvel þeim líka í framtíðinni, því að því hefir verið haldið fram af fiskifræðingum, og sjálfsagt með rjettu, að togaraflotinn hjer við land væri að grafa sína eigin gröf með veiðum innan landhelgi, þar sem hann með þeim bæði spilti fiskigöngunum og eyðilegði að meira og minna leyti ungviði fiskanna. Það er þess vegna orðið eitt af aðaláhugamálum þjóðarinnar, að landhelgigæslunni sje komið í sæmilegt horf, og mönnm er orðið það ljóst fyrir löngu, að það verður ekki með öðru móti en því, að vörninni verði haldið uppi á ríkisins kostnað, með íslenskum varðskipum og íslenskum skipshöfnum, því að þótt við samkvæmt Sambandslögum við Dani eigum rjett til, að 1–2 varðskipanna sje haldið úti hjer við land á þeirra kostnað, og þótt það hafi verið gert undanfarin ár, þá hefir reynslan sýnt, að sú vörn hefir verið fremur ljeleg og ekki komið að neinum verulegum notum. Því verður nú ekki neitað, að landhelgigæslan hefir batnað nokkuð síðustu árin, sjérstaklega eftir að Óðinn var bygður. En þó er langt frá því, að hún sje komin í viðunanlegt horf, enda er ekki von til þess, að 2 skip geti leyst af hendi gæslu, svo í nokkru lagi sje, á jafnstóru svæði eins og þau þurfa að hafa undir, eða umhverfis alt landið. Það munu nú sjálfsagt vera fáir firðir og flóar á landinu, sem ekki þurfa einhverja landhelgivörn einhvern tíma ársins. En hitt er engum vafa undirorpið, að þörfin fyrir góða vörn er afarmismunandi fyrir ýmsa staði á landinu. Það er nú svo, að hver er sínum hnútum kunnugastur, og þess vegna þekki jeg sjálfsagt flestum þingmönnum betur, hve aðkallandi þörfin er á aukinni gæslu á vestanverðum Faxaflóa og í Breiðafirði. Á þessum stöðum eru einhver allra bestu fiskimið landsins, sannkölluð gullkista, en niður í þessa gullkistu vaða útlendar og innlendar ránskindur og ausa upp auði frá íbúum þeirra hjeraða, sem þarna liggja að sjó, og öðrum landsmönnum, sem vilja stunda þaðan veiðar á löglegan hátt. Það er nú ef til vill ekki að búast við því, að menn, sem ekkert þekkja, hvernig þarna til hagar, geti hugsað sjer ástandið eins og það er, en jeg, sem hefi dvalið þarna tugi ára, get satt að segja ekki varist gremju yfir að líta á þessar aðfarir afskiftalausar ár eftir ár.

Hv. þm. í þessari deild eru í fersku minni umr. um þetta mál í fyrra hjer í deildinni og blöðunum, og tilefnið til þeirra umræðna var þá ránskapur togara í landhelgi við Snæfellsnes. En þetta var ekkert nýtt. Það hefir endurtekið sig ótal sinnum og endurtekur sig ennþá svo að segja daglega, vissa árstíma. Landhelgigæslan hefir altaf verið ónóg og ófullkomin á þessum stöðum, en þó held jeg, að hún hafi aldrei verið ljelegri en síðastl. haust og það fram til 25. jan. síðastl. Fyrri hluta haustsins, framundir hátíðir, bar lítið á togurum á þessum stöðum, ekki af því, að þar væri um nokkra vörn að ræða, heldur af því, að þeir voru þá á öðrum. fiskisælum stöðum, en frá 20. des. og það þangað til seint í janúar má segja, að floti af útlendum og innlendum togurum hafi svo að segja að staðaldri verið að veiðum á þessum slóðum og mikið oftar innan en utan landhelgilínunnar. Jeg vil nú ekki kenna ríkisstjórninni eingöngu um þetta varnarleysi, því að varðskipin hafa oft verið forfölluð á víxl. En jeg vil leggja áherslu á það, að hversu góð og gegn stjórn, sem sæti að völdum, og hversu mikinn áhuga, sem hún hefði á góðri landhelgigæslu, þá kæmi áhugi hennar ekki að tilætluðum notum, meðan haft er þetta fyrirkomulag á gæslunni, sem hingað til hefir átt sjer stað, að skipin aðallega eða eingöngu komi til eftirlits, þegar kærur eru sendar frá viðkomandi stöðum. Það er sem sje staðreynd, að þegar símað hefir verið í stjórnarráðið frá Ólafsvík, Sandi, Stykkishólmi eða öðrum stöðum þar vestra og beðið um gæslu, þá hafa skipstjórar togaranna frjett það næstum því samtímis, eða að minsta kosti löngu áður en varðskipið hefir komið á vettvang, og hafa því átt hægt með að fara í tíma út fyrir landhelgilínuna. Þess vegna hefir það varla komið fyrir, að togarar hafi verið teknir á ólöglegum veiðum þar vestra, þrátt fyrir öll lögbrotin. Allir íslenskir togarar hafa loftskeytaáhöld og vita vel um hreyfingar varðskipanna. Þess vegna geta þeir í ró og næði farið inn fyrir línuna, og í kjölfar þeirra fara svo þeir útlendu, sem engin loftskeytaáhöld hafa, og nota því íslensku togarana sem áttavita, bæði inn fyrir línuna og út fyrir hana, þegar hætta er á ferðum af varðskipanna hálfu. Því er það, eins og jeg fyrri hefi tekið fram, að þetta vandræðaástand verður ekki bætt með öðru móti en því, að sjerstöku varðskipi sje ætlað að hafa þetta afmarkaða svæði til gæslu vissan hluta árs. Á Breiðafirði og vestanverðum Faxaflóa er mest þörf á góðri gæslu mánuðina septembermars, og gæti því það skip, er annaðist gæsluna þennan tíma árs, á öðrum tíma árs verið fyrir Vestfjörðum eða annarsstaðar þar, sem þörfin er meiri. Jeg hefi hugsað mjer, að ef bygt væri skip með líkri gerð og Óðinn, þá gæti Þór að minsta kosti fyrst um sinn að haustinu varið Faxaflóa og Breiðafjörð. Þegar hann svo um áramót færi til Vestmannaeyja yfir vetrarvertíðina, yrði annað skip látið annast gæslu á þessum stöðum janúar-mars. Eins og kunnugt er, er landhelgisjóður eingöngu ætlaður til landhelgivarna. — Þessi sjóður hefir vaxið mjög hröðum fetum og er nú um 1200000 kr. Og þar sem nú má slá því föstu, að landhelgivarnirnar sjeu enn í allmiklu ólagi og þurfi endurbóta við, en hinsvegar nægilegt fje fyrir hendi til að koma þeim umbótum á, þá verð jeg að segja, að mjer finst Alþingi hljóti að sinna slíku velferðarmáli sem þessu og fallast á frv. það, er hjer liggur fyrir. Jeg geri ráð fyrir, að háttv. deild taki málinu vel og að því, að lokinni umr., verði vísað til sjútvn.