03.02.1928
Efri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2924 í B-deild Alþingistíðinda. (2696)

51. mál, landhelgisgæsla

Jón Baldvinsson:

Jeg man, að Jón heitinn Magnússon leit jafnan svo á, að Þór væri mjög ljelegt skip, og þegar sjútvn. fjallaði um landhelgigæsluna 1921–1923, var hann mjög ófús á að láta styrkja það, af því að honum þótti það ljelegt og dýrt í rekstri. Ekki hefir það batnað með árunum, og nú er það að verða ónýtt. Það hefir verið kostað til þess nýjum og nýjum viðgerðum, og nú fer líklega að hætta að borga sig að gera meira við það. Hitt er annað mál, hvort ekki var rjett að losa Vestmannaeyinga við það. Þeir höfðu ráðist í fyrirtækið í góðu skyni og þeim var það mikið nauðsynjamál. Enda hugsa jeg, að málið hafi af þeirra hendi verið sótt nokkuð fast. (JÞ: Alls ekki). Ja, jeg hefi nú samt á tilfinningunni, að svo sje, enda væri það ekki óeðlilegt.

En annars voru það ummæli, sem hv. flm. hafði, sem aðallega komu mjer til að standa upp. Hann sagði, að næstum því samtímis og stjórnarráðið fengi vitneskju um, að verið væri að fremja landhelgibrot, væru sökudólgarnir aðvaraðir. Jeg vil minna á þær hörðu deilur, sem hjer fóru fram á Alþingi í fyrra einmitt út af þessari hlið málsins. Það var þá borið fram af einum andstæðingi þáverandi stjórnar, að foringjar varðskipanna mundu ekki altaf vera nógu strangir og ákveðnir. Íhaldsmenn ráku upp ógurlegt öskur og jeg vissi ekki, hvert þeir ætluðu að komast. Nú koma fram mjög þungar ásakanir frá hv. þm. Snæf. Samkvæmt hans skýrslu geri jeg ráð fyrir, að síminn sje notaður í Ólafsvík og stjórninni tilkynt, hvað um er að vera, en um leið eru sökudólgarnir aðvaraðir. Hvernig getur nú staðið á þessu? Við skulum athuga alla sjáanlega möguleika, Í fyrsta lagi geta sökudólgarnir átt að einhverja menn í landi, sem gefa þeim merki, þegar hætta er á ferðum. En það er mjög ólíklegt. Hugur fólks er ekki slíkur á þeim stöðum, þar sem mest er herjað á landhelginni. Í öðru lagi getur síminn lekið frjettunum til útgerðarmanna, í þriðja lagi gæti það verið stjórnarráðið, sem segði frá, og í fjórða lagi trúnaðarmenn stjórnarinnar á varðskipunum. Þetta eru þungar ásakanir, sem beinast að starfsmönnum ríkisins eða símanum, og verður ekki annað sjeð en að þær sjeu á rökum bygðar. Og þær sýna, að ástandið er óhæfilegt og að eitthvað verður að gera til þess að rannsaka það og bæta úr því.