04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1210 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

1. mál, fjárlög 1929

Jónas Kristjánsson:

Jeg á 2 brtt. á þskj. 695 og ætla mjer að gera nokkra grein fyrir þeim. Það er þá fyrst töluliður XVIII: Til að lengja öldubrjótinn á Sauðárkróki, gegn jafnmiklu tillagi annarsstaðar að, alt að 2000 kr. Vegna þeirra, sem ókunnugir eru staðháttum þarna, verð jeg að lýsa nokkuð aðstöðunni og því verki, sem þarna hefir verið unnið.

Rjett utan við kaupstaðinn rennur á til sjávar. Er hún stundum allmikil í rigningum og leysingum á vorin. Ber hún þá fram mikið af aur og grjóti og hefir sá framburður myndað eyri, sem er skjólgarður fyrir höfnina. Þegar kaupstaðurinn var reistur þarna fyrir rúmum 50 árum, var þar stór eyri og voru mörg hús bygð á henni. Nú hefir brotið svo af þessari eyri, að einungis eitt hús stendur eftir, og skjólið, sem eyrin veitti höfninni, hefir farið síminkandi. Einnig hefir brotið af lóð kauptúnsins. Hjer var því nauðsyn að hefjast handa til að ráða bót á þessu, og árið 1917 hófust fyrst framkvæmdir í þessa átt. Var það gert á þann hátt, að samskot voru hafin meðal hreppsbúa um byrjun verksins. Þessi öldubrjótur var settur fram af „Eyrinni“, utanvert við kauptúnið. Var hann gerður þannig, að smíðaðar voru grindur, sem líktust helst sperrurisi á húsi, með sterkum plankabotni, þiljað að utan með sterkum borðum og síðan fylt með grjóti. Var gert ráð fyrir, að þessi garður myndi veita mótstöðu grjóti og aur, er áin ber fram, og svo hefir líka reynst. Hefir svo smámsaman verið bætt við þennan garð með 5–6 metra stúfum í hvert sinn, og er nú mannvirki þetta orðið um 90 metra langt. Þarna hefir svo myndast landtangi og er nú eyrin á þeirri leið að komast í svipað horf og hún var í áður en fór að brjóta af henni. En þar sem sperrubygging þessi þarf að vera stærri, sterkari og dýrari, eftir því sem lengra kemur, þá er kauptúninu nauðsyn að fá til þess opinbera hjálp. Á þessum 10 árum hefir verið kostað til fyrirtækisins um 23 þús. kr. Þar af frá ríkissjóði 5 þús. kr., sýslusjóði Skagafjarðarsýslu um 4 þús. og frá Sauðárkrókshreppi um 14 þús. kr. Þetta sýnir, hver áhugi hefir verið fyrir þessu máli. En verkið má ekki stöðvast, því ennþá berst árlega aur og leir af framburði árinnar inn yfir höfnina í norðanbrimum og grynnir hana. Dýpið hefir verið mælt, og á síðastliðnum 30 árum hefir höfnin grynst um einn faðm. Nú á landið þá lóð, sem Sauðárkrókskauptún er á bygt, svo því er það ekki óviðkomandi, að þarna geti haldist bygð. Þarna hefir verið bygð góð bryggja, sem mest hefir verið kostuð af kaupstaðnum síðan hún var bygð, hefir gengið allvel að skipa upp vörum á Sauðárkróki og að lenda bátum, þó nokkur sjógangur sje; þó hefir grynst við bryggjuna síðan hún var bygð. Ef það heldur áfram, verður að lengja bryggjuna, en verði öldubrjóturinn lengdur, þá er von um, að þess þurfi ekki. Jeg vona nú, að þingið sjái svo um, að þessi framkvæmd þurfi ekki að stöðvast. Sýslufundur Skagfirðinga hefir nýlega veitt til framlengingar öldubrjótsins 400 kr. Og jeg get fullyrt, að kaupstaðurinn mun bæta við það svo miklu, er nema þarf á móti þeim 2000 kr., sem hjer er farið fram á, að ríkissjóður veiti. Hjer stendur ekki ólíkt á og á Norðfirði, nema hjer mun þörfin vera meira aðkallandi. Jeg vona, að hv. þdm. líti á nauðsyn þessa máls og samþykki þessa till. Krabbe vitamálastjóri hefir litið á þetta mannvirki, og tel jeg rjett, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp umsögn hans, er hann sendi hreppsnefndinni á Sauðárkróki í símskeyti 24. maí 1927. Það hljóðar svo:

„Að gefnu tilefni lýsi jeg því yfir, að jeg tel tvímælalaust, að garðurinn fram af eyrinni við Sauðárkrók hafi þegar gert mikið gagn, sjerstaklega með því að hindra landbrot á eyrinni og verja höfnina fyrir grynkun og líka með því að veita nokkurt skjól fyrir höfnina. Jeg . . . tel mjög æskilegt, að garðurinn verði framlengdur á líkan hátt og áður, því meira, hví betur“ .

Það, sem jeg hefi sagt, er því í samræmi við álit vitamálastjórans. Vænti jeg því góðvildar háttv. deildar um þetta.

Þá er XXIV. till. á sama þskj., sem jeg er flm. að sú till. fer fram á, að til Valgerðar Arnljótsdóttur komi 600 kr. í stað 300 kr. Það má geta þess, að hún er búin að fá styrk þennan í 10–12 ár. Var það Pjetur heit. Jónsson frá Gautlöndum, sem bar hann fyrst fram. Valgerður er dóttir sjera Arnljóts sál. frá Sauðanesi, og þegar þess er minst, að hann var upphafsmaður samvinnuhreyfingarinnar, eða frumhefjandi fjelagslegra samtaka í verslunarmálum, þá ætti það ekki að spilla fyrir því, að dóttur hans væri veitt þessi litla upphæð. Af þessari konu er mikla sorgarsögu að segja. Hún hefir verið lömuð frá unglingsárum, eða frá um 18 ára aldri, og hefir mestan hluta þess tíma legið rúmföst og máttvana. Nú er hún 60 ára. Fyrir nokkrum árum versnaði henni þó enn. Vegna þessa sjúkdóms flutti hún til Reykjavíkur. Hefir hún verið upp á hjálp annara komin um langa hríð. Voru það fyrst ættmenn hennar, sem stunduðu hana á heimili sínu, en nú í seinni tíð hefir hún orðið að hafa hjúkrunarkonu. Svo hafi verið þörf á að veita henni styrk áður, þá er ekki minni þörf að bæta nokkru við hana nú. Hún er nú orðin eldri og fyrirhafnarmeiri en áður var, auk þess sem hún er stór og þung. Þarf því valda hjúkrunarkonu til að stunda hana. Jeg hygg, að Pjetur heit. Jónsson hafi ekki gert það út í bláinn, er hann gekst fyrir því, að hún, fengi 300 kr. styrk, og má þá öllum ljóst vera, að henni mun ekki af veita nú, þótt upphæð þessi sje færð fram um helming. Enda má segja, að það muni ríkissjóðinn litlu, þegar litið er á heildarútgjöld hans.

Jeg vil þá minnast á fyrri lið XVI. brtt. á þskj. 695. Hún er frá hv. þm. Ak. (EF), þar sem hann ætlast til þess, að prentsmiðjunni Gutenberg verði greiddar 2500 kr. af þeim 4000 kr., sem veittar eru til orðabókarsjóðsins móti 8000 kr. tillagi frá ríkissjóði Dana. Jeg veit nú ekki betur en það sje bindandi loforð að veita þessa upphæð til endurprentunar hinnar íslensk-dönsku orðabókar Sigfúsar Blöndals móti 8000 kr. frá ríkissjóði Dana. Þar sem jeg býst við, að hv. þm. (EF) muni ekki mæla það eftir Dönum að veita þessa upphæð, þá ættum við að veita umtalslaust á móti þá fjárhæð, er um getur í 46. lið 15. gr. fjárlagafrv., eða 4000 kr. Því ef við gerum það ekki, þá er líka víst, að Danir kippa að sjer hendinni um sitt tillag, svo háttv. þm. Ak. er hjer aðallega að spara fyrir Dani meira en okkur. Jeg held því, að misráðið sje að vera að veita af þessu fje til prentsmiðjunnar Gutenbergs. Þótt það sje að vísu vel gert að bæta henni upp þann halla, er hún hefir orðið fyrir, þá er ekki örvænt um, að það megi gera síðar, þegar hagur ríkissjóðs stendur betur. En þetta, ef samþykt verður, er ekki til annars en ljetta undir með ríkissjóði Dana.

Þá er 2. liður sömu till. um það að fella niður orðin „fyrsta greiðsla af fjórum“ aftan af liðnum til Jóns kennara Ófeigssonar. Mjer finst þetta dálítið ómaklegt. Þessi maður hefir lagt fram afarmikið starf til orðabókarinnar. Hann lagði sumarfrí sín öll í þetta fleiri ár og auk þess allar þær stundir, er hann mátti missa frá starfi sínu. Hygg jeg, að ef þær stundir allar væru lagðar saman, þá hefði hann ekki fengið hátt tímakaup, miðað við það, sem greitt er fyrir aðra vinnu. Annars hafa komið glöggar upplýsingar um þetta frá frú Björgu Þorláksson.

Þá er jeg flm., ásamt hv. 5. landsk. (JBald), að III. brtt. á þskj. 706, þar sem lagt er til, að ríkið taki ábyrgð á 200 þús. kr. láni handa Byggingarfjelagi starfsmanna ríkisins, þó ekki yfir 20 þús. kr. fyrir hverja íbúð, gegn 1. veðrjetti í húsunum, auk frekari trygginga, ef stjórnin telur þær nauðsynlegar. Þetta er flutt eftir ósk starfsmanna ríkisins, og skýra þeir nákvæmlega frá því, hver kjör þeir eigi við að búa um húsnæði. Þeir tala um í þessu erindi, er þeir hafa sent þinginu, að dýrara sje að lifa hjer en annarsstaðar, sem einkum stafi af því, hve húsaleiga sje hjer há, og því erfitt að láta launin hrökkva fyrir lífsnauðsynjum. Húsaleigan er dýrari hjer en í flestum borgum öðrum á Norðurlöndum. Hjer þurfa menn að borga 1/3–½ af launum sínum fyrir húsnæði. Erlendis er talið hæfilegt, að 1/5 launanna gangi til þess. Þessum starfsmönnum ríkisins veitir erfitt að láta laun sín endast fyrir óhjákvæmilegar lífsnauðsynjar, jafnvel þó þeir kosti kapps um að leggja á sig svo mikla aukavinnu, sem kostur er á, og verji til þess öllum stundum, sem af ganga starfi þeirra, og þeim hefir gengið æ erfiðara að komast af og láta laun sín duga fyrir nauðsynjum. Þeir hafa orðið að sætta sig við ljeleg húsakynni, margir hverjir, og þegar þeir þurfa að verja 1/3–2/3 af launum sínum fyrir húsaleigu, þá segir sig sjálft, að lítið er eftir til annara nauðsynja, svo að sæmileg afkoma megi teljast. Nú eru margir þessara manna fjölskyldumenn og er afkoma þeirra því erfiðari. Nú er svo komið, að margir þeirra manna, sem hjer eru búsettir, sjá sjer ekki fært að greiða svo háa húsaleigu, en afleiðingin er sú, að þeim er þar með meinað að búa í sæmilegum bústöðum, og hin lágu laun gera þeim það ókleift að byggja sjálfir, svo erfiðlega sem gengur að fá lán. Þeim hefir því hugkvæmst sú aðferð, að nokkrir menn mynduðu með sjer fjelagsskap, og fara fram á, að ríkið ábyrgist lán fyrir þá, er þeir reyna að útvega sjálfir. Takist það ekki, fara þeir fram á, að ríkið útvegi og ábyrgist lánið. Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að þörfin sje mjög aðkallandi, og hinsvegar eru líkur fyrir því, að þessi ábyrgð þurfi ekki að baka ríkinu nokkurn halla. Vilja starfsmennirnir veðsetja húsin með fyrsta veðrjetti fyrir ábyrgðinni, og ef stendur á greiðslu, má halda eftir af launum þeirra. Ríkið þarf því einskis í að missa, en með þessari ábyrgð er þessum mönnum veittur mikill styrkur, svo að launin endist þeim til sæmilegs framfæris. Mætti t. d. halda svo miklu eftir af mánaðarlaununum, að engin hætta gæti af því stafað fyrir ríkið að takast þessa ábyrgð á hendur. Það er því meiri ástæða til þess, að ríkið gangi í ábyrgð fyrir starfsmenn sína, þar sem þeir hafa hvað eftir annað farið fram á launahækkun og sýnt fram á, að þeir geta ekki komist af. Það væru því köld svör frá þinginu, ef þeim væri neitað um ábyrgðina, einkum þar sem Alþingi hefir svarað beiðni þeirra um launahækkun með því að hækka um ¼, þann skatt, er á þeim hvílir.

Jeg vona, að Alþingi sjái sóma sinn í því að vera ekki verri húsbóndi starfsmönnum sínum en aðrir húsbændur eru hjúum sínum. Allir góðir húsbændur reyna að gera svo vel við hjú sín, að afkoma þeirra og líðan verði sem best, enda mun ætíð sannast hið fornkveðna, að hagur hjúsins er hagur húsbóndans. Lýk jeg svo máli mínu.