24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2936 í B-deild Alþingistíðinda. (2710)

51. mál, landhelgisgæsla

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg vildi aðeins bæta nokkrum orðum við til árjettingar því, sem hv. frsm. sagði. Sú athugasemd nefndarinnar, að skipið hefði björgunartæki, komst ekki í nál., en hinsvegar hafði jeg hreyft þessu við ýmsa hv. nefndarmenn, og vonast jeg eftir, að hæstv. stjórn taki þetta atriði til greina við byggingu skipsins. Fleiri tækja má geta, sem skipið verður að hafa, t. d. sjerstök dráttartæki, t. d. dráttartaug og útbúnað til að geta fest henni á skipinu, til þess að geta dregið skip á eftir sjer. Þetta hefir að vísu einhvern smávægilegan kostnað í för með sjer, en er alveg ómissandi. Þá þyrfti og skipið að hafa útbúnað til að geta skotið línu yfir í önnur skip, hvort heldur væri á rúmsjó eða á strandstað. Til slíkra hluta er notuð sjerstök byssa, sem nýverið er farið að nota, er kostar um 300 kr. Þau varðskip, sem nú eru, hafa lítilfjörlegan útbúnað að þessu leyti, en nauðsyn er á, að þetta væntanlega skip verði sem best úr garði gert í þessu efni. Ennfremur er nauðsyn á því, að skipið hafi björgunarbát. Bátar þessir eru nokkuð öðruvísi en venjulegir skipsbátar, en alveg ómissandi því skipi, sem að einhverju leyti fæst við björgun, og einnig við strandgæsluna, þar sem oft og einatt verður að setja bát útbyrðis til þess að fara á milli skipa, og oft í úfnum sjó. Í sambandi við sjúkraklefann, sem hv. frsm. mintist á, væri og vert að athuga, hvort ekki væri án mikils tilkostnaðar hægt að koma fyrir læknisbústað í skipinu. Landlæknir hefir bent á þetta og það um leið, að á fyrstu árum Þórs var læknir þar um borð. Geri jeg ráð fyrir, að stjórn Slysavarnafjelags Íslands skrifi hæstv. landsstjórn um þessa hlið málsins, og hefi jeg viljað láta þetta koma fram í umræðunum, svo að stj. gæti tekið afstöðu til þess við meðferð málsins.