25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2947 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Af ræðu hv. 2. þm. G.-K. virðist helst mega ráða það, að hann hafi annað frv. fyrir sjer en það, sem hjer er um að ræða, og að í því frv. standi, að kjósa skuli jafnaðarmann í Hafnarfirði, en íhaldsmann í sýslunni. En vitanlega er með mínu frv. ekki átt við annað en að allir flokkar hafi sömu aðstöðu til þess að ná í þingsæti.

Hann talaði líka um andúð sýslunefndanna gegn skiftingunni, og er það ekki nýtt nje á neinn hátt undarlegt, þó að sýslunefndirnar vilji una við það skipulag, sem er. En úr því hann gerir svo mikið úr áliti sýslunefndanna, finst mjer, að hann geti þó tæplega gengið framhjá kröfum bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði í þessu efni.

Hv. 2. þm. G.-K. á þó tvo fylgismenn í bæjarstjórninni, og þeir hafa báðir samþ. þetta, og öll bæjarstjórnin hefir samþykt hvern fundinn eftir annan áskoranir til Alþingis um að bæta úr þessu misrjetti á hann eina hátt, að annar þingmaður sýslunnar verði framvegis kosinn af hafnfirskum kjósendum einum. Og það hefir aldrei heyrst, eftir því sem jeg best veit, að neinn hafnfirskur kjósandi hafi á opinberum fundi talað á móti skiftingunni nje greitt atkvæði á móti henni.

Hv. sami þm. gat þess, að með því að Hafnarfjörður sje einn um að velja sjer þingmann, þá flytjist þungamiðja þjóðlífsins úr sveitunum í kaupstaðina. Jeg veit ekki, hvort hann ætlar sjer að telja hv. deild trú um, að meiri hætta sje á því, að þungamiðja þjóðlífsins flytjist úr sveitunum við það, að Hafnfirðingum gefist kostur á að velja sjer þingmann úr sínum hópi, heldur en t. d. eins og nú á sjer stað um kjördæmið, sem hefir nú og hefir lengi haft fyrir fulltrúa uppgjafakaupmann eða atvinnurekanda hjeðan úr Reykjavík. Jeg sje ekki muninn á því, að þessi þungamiðja haldist fremur í sveitunum við það, að einn af framkvæmdarstjórum Kveldúlfs fari með umboð kjósenda heldur en t. d. einhver Hafnfirðingur.

Annars er ekki úr vegi í þessu sambandi að athuga nánar íbúa- og kjósendatölu sýslnanna og Hafnarfjarðar. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu munu nú vera um 4000 íbúar, en í Hafnarfirði um 3000 íbúar. Alþingiskjósendur í sýslunni munu taldir 1700, en í Hafnarfirði 1300.

Þegar þessa er gætt, þá mun mega álykta, að Hafnarfjörður og Keflavík, ásamt sjávarþorpunum suður með sjó, geti ráðið kosningunum nú, ef þessir hreppar standa saman um hagsmuni sína, og hvar er þá komið þungamiðju þjóðlífsins?

Á það hefir verið bent, að nauðsynlegt sje, að kjördæmin hafi líkra hagsmuna að gæta, eða m. ö. o., að í sama kjördæmi sje ekki ólíkum hagsmunum blandað saman. Nú er það svo um þetta kjördæmi, að annarsvegar eru smáatvinnurekendur til sveita og sjávar, en hinsvegar er Hafnarfjörður, sem nú er að verða allstór bær með annarsvegar stóran togaraútveg og hinsvegar fjölmenna verkalýðsstjett. Er því auðsætt, að hjer er um mjög ólíka hagsmuni að ræða, og skifting kjördæmisins því rjettmæt.

Annars mætti benda á, að ef það er rjett, sem háttv. 2. þm. G.-K. heldur fram, að Jafnaðarmannaflokkurinn í kjördæminu sje „lítill og minkandi“, en Íhaldsflokkurinn vaxandi, þá ætti ekki að vera nein hætta fyrir þann flokk að skifta kjördæminu. En sannleikurinn er annar, og það mun sjást á sínum tíma, ef kjördæminu verður skift, að skoðanir manna í Hafnarfirði á stjórnmálum eru á alt aðra leið heldur en þessi hv. þm. þeirra heldur fram á þingi. Og það er náttúrlega mikil ástæða fyrir því, að menn óska eftir skiftingu.