25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2950 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Það er ekki rjett, sem hv. flm. sagði, að slík skifting hefði farið fram án þess að aðiljar samþyktu. Jeg hefi reynt að rannsaka það og hvergi rekið mig á annað en að samþykki aðilja hafi komið til áður en skifting var framkvæmd.

Hitt er líka rangt hjá honum, að stuðningsmenn mínir í Hafnarfirði sjeu þessu samþ. Það er að vísu svo, eins og jeg hefi áður skýrt frá, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar sýnist hafa sent slíkt einróma álit. Hitt er vitanlegt, að einstakir meðlimir bæjarstjórnar voru á móti. (HjV: Einróma samþykt!). — Mjer væri ánægja að útvega og fá senda þinginu yfirlýsingu frá mörgum hundruðum kjósenda í Hafnarfirði um það, að þeir sjeu mótfallnir þessari skiftingu kjördæmisins, ef hv. þm. vill lofa mjer, að slík yfirlýsing skuli hafa þau áhrif, að hann falli frá frv.

Það er náttúrlega ákaflega meinleg hugsunarvilla hjá hv. flm., þegar hann ruglar því saman annarsvegar, að bæjarbúum sje afhent þingsæti, og hinsvegar því, að bændur hafi gerst til þess að kjósa einstakan mann, sem búsettur er í öðrum bæ. Vitanlega er eðlilegast, að hver kjósandi, hvort sem bóndi er eða annar, velji þann, sem hann treystir til að fara með umboð sitt svo sem best má verða. Hitt skiftir ekki máli, hvort maðurinn er utanbæjar eða ekki. Við erum hjer að tala um þær skoðanir og stefnur, sem ríkja í þjóðmálum, en ekki búsetu þingmanna. Vona jeg, að svo glögg skýring sannfæri jafnvel hv. flm.

Það er rjett, sem jeg sagði, að flokkur jafnaðarmanna í þessu kjördæmi er minkandi. Um það tala síðustu kosningar. Þær tölur eru miklu óhagstæðari jafnaðarmönnum en áður. Jeg vil geta þess, að annar frambjóðandi jafnaðarmanna var sjerlega frambærilegur maður og vel máli farinn, — en það voru skoðanir hans, sem menn gátu ekki aðhylst. Menn eru þar að fjarlægjast jafnaðarmenn meir og meir.

Mjer er það ljóst, að þau úrslit voru jafnaðarmönnum sjálfum mikil vonbrigði. Og með leyfi hæstv. forseta vildi jeg því til sönnunar lesa upp kafla úr ræðu, sem hv. 2. þm. Reykv. hjelt í þessu máli hjer í deildinni í fyrra:

„Það mun koma í ljós næst, þegar kosið verður, hvort jafnaðarmenn eru 1/3 hluti kjósenda í Gullbr.- og Kjósarsýslu eða meira. Það sýndi sig, þegar þessi hv. þm. (ÓTh) var kosinn í fyrra, að hann fjekk þó ekki nema 1318 atkv. á móti 958, sem frambjóðandi jafnaðarmanna fjekk. Vona jeg, að hann kunni svo mikið í reikningi, að hann geti sjeð, að jafnaðarmenn hafi þá fengið meira en 1/3 hluta greiddra atkvæða, og vissulega er fylgi jafnaðarmanna þar í kjördæminu vaxandi“.

Jeg leyfi mjer nú að gera mjer sömu von um reikningsvit þessa háttv. þm. eins og hann um mitt í fyrra, og vona, að hann játi, að það urðu honum vonbrigði, að jafnaðarmenn fengu ekki 1/3 hluta greiddra atkvæða, því af 2175 gildum atkvæðum er meðaltals atkvæðatala jafnaðarmanna aðeins 683. Fjekk annar frambjóðandi þeirra 651 atkv., en hinn 715. Þar með eru fallin þau rök, sem í fyrra var teflt fram. En nú á að reyna að tína ný rök og sjá, hvort þau ganga að greind háttv. þingmanna.

Um atvinnureksturinn í kjördæminu vil jeg ekki mikið ræða, vegna þess að svo mikið er búið að ræða um hann á undanförnum þingum. Þó að hann sje ekki hjá öllum eins, mun víða óskyldari atvinnurekstur í einu kjördæmi.

Annars þykir mjer óþarfi, að háttv. flutningsmenn gangi grímuklæddir í þessu máli. Einasta ástæða þeirra, sem flytja þetta mál, er sú, að þeir gera sjer von um að ná þingsæti úr höndum bænda til jafnaðarmanna. Væri það annað, sem þeir berðust fyrir, hvers vegna bera þeir þá ekki niður annarsstaðar, þar sem má sameina kjördæmi eða leggja niður kjördæmi? Þetta er sem sje alt eiginhagsmunapólitík. Jeg þarf ekki að skýra þetta betur en gert hefir verið hjer í þinginu, en mjer væri mikill fengur í því, ef jafnaðarmenn sýndu hreinskilni og viðurkendu þetta.