04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1929

Jóhannes Jóhannesson:

Það mun öllum hv. deildarmönnum í fersku minni, að við síðustu umr. þessa fjárlagafrv. voru feldar tvær brtt., sem fóru í þá átt að leggja fje úr ríkissjóði til akvegar yfir Fjarðarheiði. Sú seinni, sem fór fram á lægri upphæð, var feld með jöfnum atkvæðum. Jeg hefi nú leyft mjer, og talið skyldu mína, að koma fram með brtt. um fjárframlag úr ríkissjóði til þessa vegar, en hefi nú haft upphæðina helmingi lægri en sú upphæð var, sem fjell með jöfnum atkvæðum við 2. umr., og vona, að enginn geti nú sett fyrir sig fjárhæðina. Jeg ætla ekki að eyða mörgum orðum til að færa sönnur á rjettmæti og þörfina á þessum vegi. Hv. 5. landsk. (JBald) hefir gert það svo greinilega við 2. umr., og það hefir alls ekki verið hrakið, og heldur ekki hitt, að ríkissjóði beri skylda til að gera þennan veg.

Jeg á, satt að segja, bágt með að trúa því, að þing, sem leggur miljón kr. nýja skatta á þjóðina og veitir 100 þús. kr. styrk til sundhallar í Reykjavík, sjái sjer ekki fært að leggja 25 þús. kr. til þessa bráðnauðsynlega og sárþráða vegar. Jeg á mjög bágt með að trúa því, segi jeg, og skal svo ekki fara fleiri orðum um þennan lið.

Jeg hefi leyft mjer að bera fram aðra brtt., á þskj. 695,XI, um styrk til Kristjáns Kristjánssonar, til ársdvalar á Ítalíu til að ljúka söngnámi, 3000 kr. Þessi ungi listamaður, sem hjer á hlut að máli, er nú 23 ára að aldri og sonur Kristjáns Kristjánssonar, hjeraðslæknis á Seyðisfirði. Hann sigldi til Kaupmannahafnar vorið 1924, til söngnáms, því að hann þótti afskaplega söngvinn, og hann var svo heppinn að komast þegar til ágæts söngkennara, sem heitir Hans E. Hey. Kristján hefir nú stundað nám hjá honum, tvö ár í Kaupmannahöfn og þriðja árið í Vínarborg. Sumarið 1927 kom hann til Íslands og söng opinberlega á Austfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi. Hygg jeg, að enginn ungur söngvari hafi fengið aðrar eins viðtökur, þar sem hann hefir látið til sín heyra, eins og þessi ungi maður. Þótt hann hafi stundað nám í þrjú ár, er hann þó ekki búinn að ljúka námi, og hefir hann talið sjer nauðsynlegt að dvelja að minsta kosti árlangt suður á Ítalíu, til að ljúka þar námi. Bæði hann og kennari hans og aðrir, sem vit hafa á, gera sjer bestu vonir um góðan árangur af þeirri ferð.

Faðir þessa unga manns var fátækur og ljet ekkert eftir sig, svo að hann hefir ekki getað kostað hann til náms. En tveir vinir föður hans styrktu hann til náms, en nú er svo komið, að minsta kosti fyrir öðrum þeirra, að hann mun eiga mjög erfitt með að halda því áfram, og listamaðurinn segir, að þessir menn sjeu búnir að gera svo mikið fyrir sig, að hann geti ekki vænst meira af þeim, en hann á engan ættingja, sem sje þess megnugur að kosta hann. Eftir þeim upplýsingum, sem hann hefir fengið ítarlegastar, telur hann, að ársdvöl á Ítalíu muni kosta um 8000 kr. í okkar peningum, og hefir hann sótt um, að Alþingi veiti honum helming af þeirri upphæð. Jeg hefi nú samt ekki sjeð mjer fært að fara svo hátt, og hefi leyft mjer að fara fram á 3000 kr. í þessu skyni. Hann hefir þá von um að geta fengið annarsstaðar það, sem á vantar, og að vera fullnuma, þegar hann hefir verið eitt ár á Ítalíu. Hann hefir látið fylgja umsókn sinni til þingsins meðmæli frá kennara sínum, þeim, sem jeg nefndi áðan, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta lesa þau upp. Meðmælin eru á þessa leið :

„Herr Kristian Kristiansson, som har sunget hos mig i tre Aar, har i den korte Læretid gjort saa udmærkede Fremskridt, at jeg ikke tvivler paa hans sikre Fremtid som sanger, hvis hans smukke Tenorstemme faar Lov til at udvikles videre i Italien, hvorhen jeg med mine bedste Önsker har anbefalet ham at rejse“.

Árni Thorsteinsson tónskáld hjer í bænum hefir látið uppi álit sitt á hæfileikum þessa manns. Eru ummæli hans á þessa leið (með leyfi hæstv. forseta):

„Eftir að hafa átt kost á að heyra söng hr. Kristjáns Kristjánssonar frá Seyðisfirði á sönghljómleikum hans í Reykjavík á þessum vetri, dylst mjer ekki, að þessi ungi og efnilegi söngvari hefir flesta þá hæfileika til að bera, sem frekara nám og þroski í listinni kunna að gera að einum hinum besta söngvara vorum.

Söngvari þessi er nú þegar, eftir tiltölulega stutt nám, kominn það langt á leið í listfengum söng, að jeg tel hann nú vera fremri í þeirri grein en flestir hinna yngri söngmanna vorra. Á jeg þar við hvorttveggja, tamningu raddarinnar og meðferð hans alla á efni ljóða þeirra, sem hann fer með.

Jeg tel því víst, að frekara nám hans muni bera hinn besta árangur og verða landi voru og þjóð til hins mesta sóma“.

Sigfúsi Einarssyni tónskáldi og organleikara farast svo orð um söng þessa unga manns (með leyfi hæstv. forseta):

„Samkvæmt tilmælum endurtek jeg nú það, sem jeg hefi áður sagt um hr. Kristján Kristjánsson frá Seyðisfirði, opinberlega: Hann hefir óvenjufagra rödd og er bæði söngvinn („musikalskur“) og afar sönglaginn. Jeg hygg, að allir, sem til þekkja, óski þess, að honum gefist kostur á að bæta við kunnáttu sína því, sem á vantar til þess, að gáfur hans og söngmannshæfileikar njóti sín fullkomlega. Hann er, að mínu viti, efni í ágætan listamann og þegar vel á veg kominn“.

Ummæli Emils Thoroddsens fara í sömu átt. Hann segist hafa betri skilyrði til að dæma í þessu máli heldur en flestir aðrir, vegna þess að hann hafi leikið undir, þegar listamaðurinn söng. Hann segir svo (með leyfi hæstv. forseta):

„... Röddin er mjög há og blæfögur tenorrödd og er bæði að hreim og meðferð lík bestu ítölskum háröddum. Jeg get óhikað sagt, að af ungum söngvurum hjerlendum, er jeg hefi heyrt, tel jeg Kr. Kr. langefnilegastan og líklegastan til frama, og þegar tekið er tillit til þess, að hann hefir aðeins tvo um tvítugt og hefir einungis stundað nám um stutt skeið, þá má búast við framúrskarandi árangri af frekara námi, og tel jeg þá víst, að framkoma hans hvar sem er muni verða landi voru til stórsóma“.

Jeg leyfi mjer að vænta þess, að hv. deild fallist á að styrkja þennan unga og efnilega listamann í eitt skifti fyrir öll. Sumum kann nú ef til vill að þykja þessi upphæð of há, en þegar þess er gætt, að skilyrðið fyrir styrknum er það, að maðurinn dvelji á Ítalíu í eitt ár, er þetta ekki mjög hátt. Jeg vil benda á það, að þeir, sem fóru til Ítalíu fyrir stríð, fengu 2000 kr. í styrk, og er þetta í samræmi við það. Jeg vil ekki þreyta hv. þdm. með því að fjölyrða frekar um þetta, en vona, að það verði samþykt.

Jeg vil leyfa mjer að drepa með nokkrum orðum á till. hv. 3. landsk. þm. á þskj. 700. Jeg er hræddur um, að ekki verði nægilega miklir flutningar milli Reykjavíkur og Þingvalla hátíðadaginn, þótt þessi till. verði samþ. og eystri leiðin gerð akfær. Jeg tel nauðsynlegt, að þessi leið, sem talað hefir verið um, verði gerð bílfær, af sömu ástæðum og háttv. 3. landsk. þm. tók fram, og líka með tilliti til hátíðahaldanna 1930, og jeg vildi, að hann breytti till. sinni í viðaukatill. við brtt. fjvn. Jeg býst við, að hæstv. forseti geti litið svo á, að það sje hægt. Það er rjett, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að jeg treysti mjer ekki til að hafa afskifti af hátíðahöldunum, ef ekki er nema einn vegur fram og aftur, af því að þá er mikil hætta á voveiflegum slysum, sem jeg vil ekki bera ábyrgð á.