25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2970 í B-deild Alþingistíðinda. (2751)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Það er aðeins í tilefni af því, að hæstv. dómsmrh. telur það ósvífni og fáfræði af mjer að halda því fram, að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu væri mótfallin skiftingunni og að hún væri líka aðili í málinu. Það er meira en lítið skilningsleysi, að skilja ekki þetta, að sýslan er einmitt annar aðilinn. „Ósvífni“ og „fáfræði“ lýsa betur framkomu og rökum ráðh. en mínum í þessu máli.

Hæstv. dómsmrh. ljet sjer sæma að kalla mig og hv. 1. þm. Reykv. hunda, en vildi þó sjálfur slást í hópinn með okkur. Mjer þótti samlíkingin óheppileg um hann jafnt og okkur, en eftir síðustu ræðu hans læt jeg hann einráðan um að velja sjer heiti. Hæstv. ráðh. sagði ennfremur, að allur Framsóknarflokkurinn hefði altaf staðið með málinu á þingi. Jeg vil nú benda honum á, að á þinginu 1926 talaði háttv. 2. þm. Eyf. (BSt) á móti málinu, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hjer upp nokkuð af ummælum hans. Hann segir þar meðal annars:

„Mjer finst það sanngirnismál, úr því að ekki liggur fyrir gagngerð breyting á kjördæmaskipun landsins. En það er annað, sem ekki er sanngjarnt, ef frv. er samþ. óbreytt, nefnilega það, að Gullbringu- og Kjósarsýsla hefði þá aðeins einn þingmann eftir — —“.

Þessi háttv. Framsóknarflokksmaður talaði þannig á móti málinu, og annar þm., hv. 1. þm. N.-M. (HStef), vildi fella málið við 2. umr. þess þá. Jeg læt svo staðar numið og skal nú viðurkenna, að jeg sje dauður, en jeg örvænti þó ekki um sigur í málinu að heldur, og má þá segja um mig og minn góða málstað: „Brjánn fjell, en hjelt velli“.