08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Út af ummælum háttv. frsm. minni hl. vil jeg taka það fram, að honum á ekki að vera síður kunnugt um það en öðrum, að á síðasta þingi kom jeg fram með tillögur um miklar breytingar á kjördæmaskipuninni. Meðal annars, að landið skyldi alt vera eitt kjördæmi, en að því frágengnu, að leyfðar yrðu hlutfallskosningar í sjerstökum kjördæmum, er þá hefðu getað verið stærri en nú. En þá sýndi Íhaldsflokkurinn engan vilja í því máli, kom hvorki með till. sjálfur um breytingar á kjördæmaskipuninni eða fylgdi þeim, sem jeg bar fram. Meira að segja gekk hann svo langt, að forsrh. flokksins lýsti því yfir, að hann teldi ekki rjett að hreyfa við kjördæmaskipuninni. Og þegar því var hreyft í „Verði“ og Morgunblaðinu, að breyta þyrfti kjördæmaskipuninni, þá var því óðar lýst yfir af miðstjórn Íhaldsflokksins, að flokkurinn sem heild væri á móti öllum slíkum breytingum. Þetta sýnir, að hv. íhaldsmenn álíta kjördæmaskipunina góða, þegar þeir hafa gott af henni, en illa, þegar hún er öðrum flokkum í hag, og vilja þá fyrir hvern mun fá henni breytt. Annars er það ekki nema eðlilegt af hálfu okkar jafnaðarmanna, að við viljum fá bætt úr verstu agnúunum á kjördæmaskipuninni, úr því við fáum ekki á henni gagngerða breytingu, og þetta, sem nú er verið að reyna að bæta úr, er einmitt einhver mesti agnúinn á henni eins og nú standa sakir. Hafnarfjörður hefir mikið goldið þess að hafa ekki sjerstakan þingmann, því eins og kunnugt er, hafa mestu áhugamál meiri hluta kaupstaðarbúa verið drepin hjer á Alþingi, og það með atfylgi þingmanna kjördæmisins.

Háttv. 2. þm. G.-K. sagði, að ný gögn hefðu komið fram í þessu máli, og átti hann þar við yfirlýsingu þá, sem hann las upp í síðustu ræðu sinni frá um 300 mönnum í Hafnarfirði. En yfirlýsing þessi er þannig til komin, að hann fullyrti við síðustu umr. þessa máls hjer í deildinni, að fyrir hendi væru mótmæli frá mörg hundruð kjósendum í Hafnarfirði gegn skiftingunni. Var þá skorað á þennan háttv. þm. að láta þessar óskir kjósendanna sjást með undirskriftum þeirra, svo það sæist, að hjer væri um annað en vígorð að ræða. Maður skyldi nú ætla, að kjósendur í Hafnarfirði hefðu ótilkvaddir hafist handa með þessar undirskriftir, en svo er einmitt ekki, heldur er þeim þvert á móti smalað saman af launuðum smölum að tilhlutun hv. 2. þm. G.-K. sjálfs, og hefir þeim ekki tekist að ná nema rúmum 300 undirskriftum, þrátt fyrir það, þó að þeir fengju atvinnurekendur í Hafnarfirði í lið með sjer, sem gátu gengið milli kjósendanna með atvinnuloforðin í annari hendi, en undirskriftaskjölin í hinni. Sýna þessar undirskriftir því ljóslega, hversu nauðalítill hluti af íbúum Hafnarfjarðarkaupstaðar er á móti þessari skiftingu. Enda er það alkunna, því að hingað til hafa aldrei komið fram á opinberum fundum í Hafnarfirði mótmæli gegn skiftingu kjördæmisins. Og meira að segja þora undirskrifendur þessarar yfirlýsingar, sem hv. 2. þm. G.-K. er að veifa, ekki að mótmæla skiftingunni. Þeir segja aðeins, að þeir kjósi heldur það fyrirkomulag, sem nú er. Síðan þessar undirskriftir komu, hefi jeg átt tal við menn í Hafnarfirði, og þeir tjá mjer, að bráðlega sje von á frá þeim undirskriftum; nú þegar hafi undirskrifað full 600 kjósenda, sem skora eindregið á Alþingi að samþykkja skiftinguna.

Jeg er forviða á þeirri dæmafáu hræsni, sem háttv. 2. þm. G.-K. gerði sig sekan í, þar sem hann var að tala um, að með þessari skiftingu væri verið að skerða bændavaldið á Alþingi. Eins og nokkur maður hafi nokkurn tíma orðið var við það hjer á Alþingi eða annarsstaðar, að sá hv. þm. hafi gert nokkuð, sem mætti verða bændum til hagsmuna eða til eflingar valds þeirra í landinu.