08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2982 í B-deild Alþingistíðinda. (2759)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bernharð Stefánsson:

Mjer kom það undarlega fyrir sjónir, að háttv. 2. þm. G.-K. Skyldi vera að láta í ljós vonbrigði um framkomu mína í þessu máli. Hann las upp ræðu, sem jeg hafði haldið á fyrra kjörtímabili, en jeg fann ekki annað en sú ræða sýni einmitt, að jeg hefði haldið því sama fram þá sem jeg held fram enn, að sanngjarnt sje, að Hafnarfjörður fái sjerstakan þingmann.

Jeg man það glögt, að á sama þingi og jeg hjelt þessa ræðu bauð jeg honum að flytja með honum till. um, að Hafnarfjörður og Siglufjörður yrðu sjerstök kjördæmi. Jeg er yfirleitt ekki vanur því að tala um það, sem gerist „privat“ milli manna, en jeg vona, að hv. þm. misvirði ekki við mig, þó að jeg geti þess, að jeg hefi oftar en einu sinni, bæði á því þingi og síðar, farið fram á það við hv. 2. þm. G.-K. að flytja slíka till. með mjer. En hann hefir verið ófáanlegur til þess. Og það er einungis fyrir algert vonleysi mitt um framgang þess máls, að jeg hefi ekki á þessu þingi komið með till. í þá átt.

Annars er ástæða til að geta þess, að síðan 1924 hefir aðstaðan í þessu máli ofurlítið breytst, þannig að kjósendatala Hafnarfjarðar og sýslunnar hefir jafnast. Fólki hefir fjölgað í Hafnarfirði. Straumurinn virðist því liggja þannig, að kjördæmin verði jafnari að kjósendatölu með ári hverju.

En boð mitt skal standa; ef hv. 2. þm. G.-K. vill vinna að því, að sýslurnar haldi sínum 2 þm. og Hafnarfjörður losni út úr, þá skal ekki standa á mínu atkv. með því, því að eins og áður álít jeg það langsanngjörnustu leiðina í málinu, þó jeg hinsvegar telji Hafnarfjörð hafa rjett til að fá þingmann, jafnvel þó það fáist ekki á annan hátt en frv. gerir ráð fyrir.