04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1225 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1929

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg verð að segja nokkur orð út af gagnrýni, sem hv. 3. landsk. þm. (JÞ) kom með út af till., sem jeg flutti. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) mintist á afstöðu Þingvallanefndarinnar til vegarins, svo að jeg þarf þar minna um að segja. Jeg játa, að jeg er samdóma háttv. 3. landsk. þm. um það, að laga þarf veginn frá Þingvöllum niður í Laugardal, svo að hann verði sumarakfær. Jeg býst við, að hv. 3. landsk. þm. sje það kunnugt, að búið er að ryðja veginn frá Gjábakka til Laugardals. Það tókst með litlum kostnaði, vegna þess að melur er undir. Aftur á móti er eftir mikill kafli til Gjábakka; sá kafli er slæmur og jeg býst við, að það kosti um 15000 kr. að gera þann veg góðan. Jeg hygg, að jeg megi segja, að vegamálastjóri og Þingvallanefndin ætli að láta vinna að þeim vegi, eftir því sem fjárhagur nefndarinnar leyfir. Hitt er ekki rjett hjá hv. 3. landsk. þm., þegar hann reiknar með því, að vegurinn verði ekki tvöfaldur til Þingvalla, því að hann virðist ganga út frá því, að vegaskiftingin sje hjá Geithálsi; en þegar framlenging Mosfellsvegarins er komin, verður skiftingin hjá Elliðaánum. Og að því er snertir troðningana 1930, er rjett að minna á það, að vegurinn að Elliðaánum er breiðasti vegur landsins. Aftur á móti viðurkenni jeg, að það er rjett hjá hv. 3. landsk. þm., að talsverður kafli — um 10 km. — verður samt óskiftur vegur að austan, þótt meira verði farið eftir tillögum Þingvallanefndarinnar en till. vegamálastjóra. Hann ætlast til, að vegurinn liggi hátt uppi og komi upp á heiðarveginn mjög ofarlega, en nefndin er á móti þessu og mundi vilja teygja veginn eftir Mosfellsdal, svo að hann lægi sem mest á láglendi og væri sem mest upp úr snjó á vetrum. Jeg játa það með hv. 3. landsk. þm., að það væri freistandi að flýta Holtavörðuveginum með þessum 150 þús. kr., en það er ekki tilætlunin, að þetta tefji fyrir vegunum úti um land. Hinsvegar álítur nefndin, að þessi vegur sje óhjákvæmilegur liður í hátíðahöldunum 1930 og verði því ekki fært að komast utan um þennan kostnað. Það er bót í máli, að þessi vegur er fjölfarinn á sumrin, svo að þörfin á honum er mikil nú, og verður ekki minni í framtíðinni. Það eru allir ásáttir um það, að vegurinn verði að færast ofan í bygðina; skoðanamunurinn er aðeins um árabil, eða hvenær eigi að gera þennan veg til Þingvalla.

Hv. 3. landsk. þm. er ekki ánægður með formið á till. minni um það, að Geir T. Zo?ga rektor fái full laun, ef hann lætur af embætti. Þessi till. er í heimildarformi, og hefi jeg áður skýrt frá því, hver útgjöld verða af þessu. En jeg vil benda á það, að í fjárl. 1926 er einn liður, sem er sambærilegur þessum lið og er um það að greiða Ögmundi Sigurðssyni skólastjóra 2000 kr. með dýrtíðaruppbót, ef hann ljeti af skólastjórn. Það vildi nú svo til, að honum batnaði sú veiki, er að honum gekk, og ljet hann því ekki af embætti. Þótt rektor sje aldraður, er það ekki víst, að hann hætti, þó að þetta leyfi sje veitt. Og þess vegna kom jeg með brtt. við þennan lið, að ekki er víst, að hann verði notaður, en ef hann verður notaður er það ætlunin að setja fjárhæðina síðar inn í 18. gr. Jeg held, að jeg hafi ekki meira að segja út af þessu, en sem sagt, það er fordæmi fyrir því að hafa svona útgjöld í heimildarformi.

Út af till. um girðingu við Listasafnshúsið vil jeg segja það, að jeg hefi venjulega greitt atkv. með öllu því, sem gengið hefir til þessa húss. En jeg held, að það sje ekki rjett að hraða þessu, þótt það auðvitað væri gaman að hafa þarna smekklega girðingu. Jeg vil segja það út af ræðu hv. 1. þm. G.-K. (BK), að ef þessi tillaga fellur, þá geri jeg ráð fyrir, að sett verði snotur og ódýr bráðabirgðagirðing til nokkurra ára utan um Listasafnið, en það fyrirbyggir ekki, að betri girðing komi síðar.