08.02.1928
Neðri deild: 17. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2760)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Guðmundsson:

Þetta mál hefir verið hjer til meðferðar á nokkrum undanförnum þingum, án þess að jeg hafi fundið ástæðu til að láta uppi álit mitt um það á annan veg en með atkv. mínu, sem jafnan hefir fallið á móti skiftingu kjördæmisins, og mun svo enn verða. En í þetta skifti vil jeg gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna jeg hefi þessa afstöðu til málsins. Jeg vil þá byrja með því að lýsa yfir því, að það er óbifanleg sannfæring mín, að mál þetta sje til þess flutt hjer að útvega jafnaðarmönnum eitt þingsæti í viðbót við þau, sem þeir nú hafa. Það er þess vegna frá mínu sjónarmiði eðlilegt að athuga það fyrst og fremst, hvort sanngirni mæli með þessu vegna þess, að jafnaðarmenn hafi of fá þingsæti í hlutfalli við kjósendafjölda sinn.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í kaupstöðum landsins hafa jafnaðarmenn aðalstyrk sinn. Má heita, að á þessum stöðum standi aðalrimman milli þeirra og íhaldsmanna. Það er því fróðlegt að athuga, hvernig atkvæðin skiftust milli þessara tveggja flokka í kaupstöðunum við síðustu kosningar.

Mjer telst svo til, að við þessar kosningar hafi alls í þeim 5 kaupstöðum, sem eru sjerstök kjördæmi, verið greidd 10785 atkv. Af þeim fjellu á frambjóðendur íhaldsmanna 5570 atkv., en á frambjóðendur jafnaðarmanna 4057, og á einn frambjóðanda frjálslynda flokksins 1158 atkv.

Í þessum 5 kaupstöðum eru kosnir og eiga að vera kosnir 8 þingmenn. Og við athugun kemur það í ljós, að af þessum 8 þm. tileyra 4 Íhaldsflokknum (2 í Reykjavík, 1 á Seyðisfirði, 1 í Vestmannaeyjum) og 4 Jafnaðarmannaflokknum (2 í Reykjavík, 1 á Akureyri, 1 á Ísafirði). Með öðrum orðum: Þingmannafjöldi úr þeim kaupstöðum, sem eru sjerstök kjördæmi, skiftist jafnt milli Íhaldsflokksins og Jafnaðarmannaflokksins. Og með enn öðrum orðum: Fyrir sín 5570 atkv. fær Íhaldsflokkurinn jafnmarga þingmenn og jafnaðarmenn fá fyrir sín 4057 atkv. Það er því langt frá, að jafnaðarmenn beri ekki fyllilega úr býtum, eftir kjósendafjölda í kaupstöðum þessum, það, sem þeim ber. Þvert á móti er auðsætt, að hjer hallast til muna á Íhaldsmönnum í óhag. Þrátt fyrir rúmlega 1500 atkv. meiri hl. í þessum kjördæmum, fá þeir jafnmarga þm. kosna.

Þetta, sem jeg hjer hefi sagt, nægir væntanlega. til þess að sýna það, að framgangur þessa máls getur ekki rjettlætst af því, að kjördæmaskipuniín, eins og hún nú er, veiti ekki jafnaðarmönnum þingsæti í kaupstöðunum í fullu hlutfalli við atkvæðatölu þeirra. Og þótt öll atkv. jafnaðarmanna úr Gullbringu- og Kjósarsýslu, tæp 700 atkv., og á Siglufirði sjeu talin með atkvæðafjölda jafnaðarmanna í öðrum kaupstöðum, þá standa þó enn mun fleiri atkvæði á bak við hvern kosinn þingmann Íhaldsflokksins á þessum stöðum en á bak við hvern þingmann jafnaðarmanna.

Nái samþ. þessa frv. áðurnefndum tilgangi sínum, þeim, að jafnaðarmenn bæti við sig einu þingsæti, þá er, eftir því sem jeg hefi þegar sýnt fram á, auðsætt, að það verður, ef miðað er við atkvæðatölur síðustu kosninga — og annað rjettara er ekki hægt að miða við — misrjetti, og það misrjetti kemur niður á Íhaldsflokknum.

Nú vil jeg mega ganga út frá því sem gefnu, að hv. deildarmenn, hverjum flokki sem þeir tilheyra, vilji ekki með atkvæði sínu í þessum sal gera kjósendum landsins rangt til, en sú mundi afleiðingin ótvírætt verða, ef frv. þetta yrði samþykt. Í ræðu minni hjer á undan hefi jeg eingöngu rætt um kaupstaðina, og jeg hefi þar gengið út frá því, að jafnaðarmenn hafi átt öll atkvæði þar, sem á þeirra frambjóðanda hafa fallið. Hefi jeg gert þetta til þess að halla ekki á jafnaðarmenn í reikningum mínum. En rjett er þó að benda á það, að vitanlegt er, að í hópi þessara kjósenda þeirra eru allmörg atkvæði framsóknarmanna, sjerstaklega á Akureyri, eitthvað á Seyðisfirði og ef til vill eitthvað í Vestmannaeyjum. Þetta gerir samanburðinn ennþá óhagstæðari fyrir þá jafnaðarmenn.

Í því, sem jeg nú hefi sagt, hefi jeg miðað við kjósendafjöldann eingöngu, en jeg viðurkenni, að sá mælikvarði er ekki einhlítur, þegar litið er á landið í heild. En að því er kaupstaðina snertir mun ekki vera neinn mælikvarði, að minsta kosti enginn einn mælikvarði, sem er rjettari, þegar gert er upp á milli kaupstaðanna innbyrðis, því að atvinnuvegir þeirra eru mjög svipaðir — sjávarútvegur, verslun, iðnaður. Samþykt frumvarps þessa verður því ekki til að minka, heldur til þess að auka ranglæti kjördæmaskipunar hjer á landi. Og það verður ekki annað sjeð en að það ranglæti komi niður á Íhaldsflokknum.

Það mætti nú athuga, hvort þetta geti ekki rjettlætst með því, að sá flokkur hefði hlutfallslega of marga þingmenn til sveita, miðað við kjósendatölu og aðrar aðstæður. En það hygg jeg, að ekki verði sagt með rökum, því að bak við hvern kosinn íhaldsmann í sveitum stendur, samkv. atkvæðatölum síðustu kosninga, nærri 100 atkv. fleira en bak við hvern kosinn framsóknarmann. Jeg tel að sönnu ekki, að atkvæðafjöldinn sje einhlítur mælikvarði, en jeg lít svo á, að ekki sje heldur hægt að sýna fram á það með öðrum mælikvarða, að íhaldsmenn sjeu hlutfallslega of margir í sveitum. Mjer virðist því, að samþykt þessa frv. geti ekki bygst á öðru en því, að meirihluti þessarar hv. deildar álíti þetta þingsæti betur komið í höndum jafnaðarmanna en íhaldsmanna. En án þess að jeg ætli að kveða upp neinn dóm um það, vil jeg benda á það, að slíkur hugsanagangur færi alveg í bága við þá hugsun, sem liggur til grundvallar þingræðinu, en sú hugsun er, að þingið sje spegilmynd af vilja kjósenda, eftir þeim reglum, sem rjettlátastar þykja um kjördæmaskipun. Og hefi jeg reynt að sýna fram á, hverjar þær reglur væru að því er kaupstaðina snertir.

Að síðustu vil jeg benda á það, að ef það er vilji og ætlun meiri hluta þessarar hv. deildar að rýra á órjettmætan hátt rjettmæta þingmannatölu stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, þótt ekki hafi hann nú flest þingsæti, þá hlýtur sú spurning að vakna fyr eða síðar, hvort ekki sje óhjákvæmilegt að taka til gagngerðrar endurskoðunar alla kjördæmaskipun landsins. Jeg skal fúslega viðurkenna, að jeg óska þess ekki eins og stendur, en eins og jeg drap á, getur að því rekið, að hjá því verði ekki komist.

Að atvinnuvegir Hafnfirðinga sjeu svo gerólíkir atvinnuvegum annara manna í kjördæminu, eru ekki rök, sem eru frambærileg, meðan Siglfirðingar kjósa með bændum í Eyjafirði, Akranesmenn með Borgfirðingum og Norðfirðingar með bændum af Hjeraði. Slík röksemdaleiðsla leiðir í raun rjettri til hlutfallskosninga í einu lagi um land alt, því að með þeirri kosningaaðferð einni verður kjósendum landsins skift svo, að atvinnuvegirnir ráði. Hitt er annað mál, hversu aðgengilegt það mundi þykja. En hver, sem greiðir atkvæði með þessu frv., hlýtur að athuga það, hvort þá er ekki betra að stíga skrefið til fulls og lögleiða þegar hlutfallskosningu um land alt.