09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3000 í B-deild Alþingistíðinda. (2766)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bjarni Ásgeirsson:

Vegna þess að svo einkennilega stendur á, að jeg mun vera eini kjósandinn úr Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem sæti á á Alþingi, þá finst mjer, að jeg geti tæplega leitt hjá mjer umr. þessa máls, er hjer liggur fyrir. Þó vil jeg þegar taka það fram, að jeg fer ekki hjer með neitt umboð samsýslunga minna; það, sem jeg segi, verður því að koma á mitt bak, enda tala jeg aðallega sem þm., og þó um leið sem maður, sem kunnugri ætti að vera þessum málavöxtum en sumir, sem hjer eiga sæti.

Því verður ekki með rökum neitað, að á síðari árum hafa kröfurnar um að breyta núverandi kjördæmakipun landsins orðið sterkari og háværari. Það er kunnugt, að jafnaðarmenn hafa tekið það mál á stefnuskrá sína og fylgja fast eftir. Um Íhaldsflokkinn er vitanlegt, að hann er tvískiftur í málinu; sumir vilja, að alt sje í sömu skorðum í þessu efni, en aðrir munu vera því fylgjandi, að kjördæmaskipunin sje endurskoðuð með það fyrir augum að breyta henni allverulega. Aftur á móti er mjer ekki kunnugt um, að Framsóknarflokkurinn hafi enn sem komið er tekið neina afstöðu til málsins. Jeg vil þá lýsa því yfir sem minni persónulegri skoðun, að þó að jeg sje að ýmsu leyti íhaldssamur í þessum efnum, þá geri jeg ekki ráð fyrir, að sú kjördæmaskipun, sem nú er, haldist um aldur og æfi.

Þegar því fram koma kröfur um að laga stærstu ágalla núverandi kjördæmaskipunar og sýnt er, að það er auðvelt án þess að gera öðrum rangt til, þá tel jeg sjálfsagt, að Alþingi verði við þeim kröfum. Jeg efast líka um, að nokkur krafa hafi komið fram um breytingu á kjördæmaskipun, sem bygð hafi verið á meiri rökum og sanngirni en sú krafa, sem felst í þessu frv. um skiftingu G.-K. í tvö kjördæmi. Og þessi krafa er ekki ný; hún er gömul og hefir þrásinnis verið endurtekin hjer á Alþingi og átt hjer formælendur, áður en jafnaðarmenn koma við sögu. Jeg hefi að vísu ekki kynt mjer þetta mál frá upphafi. Held samt, að jeg fari ekki með neitt fleipur, þó jeg segi, að tveir fyrv. þm. kjördæmisins, Hafnfirðingarnir Ágúst Flygenring og Einar Þorgilsson, hafi verið þessu máli fylgjandi, og vita þó allir, að þeir hafa aldrei verið jafnaðarmenn.

En þessari kröfu Hafnfirðinga um sjerstakan þm. hefir aukist fylgi ár frá ári, eftir því sem fólkinu fjölgar, enda er Hafnarfjörður nú stærsti kaupstaðurinn utan Reykjavíkur, og á því sanngirnikröfu til þess að fá sinn þm. eins og þeir kaupstaðir, sem nú eru sjerstakt kjördæmi.

Jeg skal þá nefna eina ástæðu, sem mælir með skiftingunni og ekki verður hrakin með rökum, og það eru hinir ólíku hagsmunir, sem togast á milli Hafnarfjarðarkaupstaðar annarsvegar og sýslunnar eða sveitanna hinsvegar. Og þegar þannig hagsmunalínur myndast í tvímenningskjördæmum, þá er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að kljúfa kjördæmið um þær línur, einkum þegar svo hagar til, að þeir tveir hlutar, sem þá myndast, eru ekki ólíkari að stærð og fólksfjölda en kjördæmi landsins yfirleitt.

Auk þess lít jeg svo á, að tvímenningskjördæmaskipunin sje órjettlát með því fyrirkomulagi, sem haft er um kosningarnar, Með eins atkvæðis mun getur sami flokkur náð í bæði þingsætin, en hinn flokkurinn, sem er því nær jafnstór, fær engan þm. Þó að ranglætið sje nú, sem betur fer, ekki svo himinhrópandi þarna, þá er það þó allstór hluti kjósenda, sem engin áhrif hefir á málin, þegar á þing kemur, og hefir því engin not af kosningarrjetti sínum. Þegar því slík till. sem þessi kemur fram, þá er sjálfsagt að samþ. hana. Jeg gæti mjög vel hugsað mjer, að breyting á kjördæmaskipuninni, þegar til kemur, yrði í þá átt, að t. d. sveitunum yrði skift í einmenningskjördæmi, en kaupstaðirnir aftur á móti sameinaðir að einhverju leyti með hlutfallskosningum.

Sumir hafa nefnt Siglufjörð sem einn af kaupstöðunum, er fá ætti sinn sjerstaka þingmann, og mælir ýmislegt með því, en miðað við íbúatöluna, er það ekki sambærilegt við Hafnarfjörð.

Aðalástæðan, sem hv. íhaldsmenn hafa fram að bera gegn frv. þessu, er sú, að bætt sje einu þingsæti við jafnaðarmenn. Jeg skal engu um það spá, hver þingflokkurinn verður giftudrjúgastur, þegar á hólminn kemur, en mjer þykir leiðinlegt, að svo stór flokkur, sem hv. íhaldsmenn eru, skuli nær eingöngu miða við flokkshagsmuni sína, þegar um jafnmikið sanngirnismál er að ræða og það, að Hafnarfjörður fái að velja sjer þingmann. Ef þetta er aðalvopn íhaldsmanna gegn skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi, þá er það að minsta kosti mjög varhugavert af þeim að nota það.

Eins og kunnugt er, þá eru úti um heim uppi tvær stefnur innan jafnaðarmannaflokksins. Önnur þessi stefna er kend við hægfara jafnaðarmenn, sem vilja vinna að málum sínum og hugsjónum á grundvelli þingræðisins. Hin stefnan er þessu gagnstæð. Þeir, sem henni fylgja, vilja brjóta niður þingræðið, láta hnefarjettinn ráða og ryðjast til valda með byltingu. Nú hefir mjer skilist, að íhaldsmenn — og enda fleiri — teldu bardagaaðferð hinna fyrnefndu á meiri rökum bygða og viðurkendu á ýmsan hátt baráttu þeirra, sem hægar fara. En ef íhaldsmenn beita valdi sínu til þess að hindra rjettmætar breytingar á kjördæmaskipuninni í þeim eina tilgangi að varna jafnaðarmönnum að ná þingsæti, þá eru þeir þar með að reka jafnaðarstefnuna út úr þingsalnum og hasla henni völl í „kommúnismanum“. Við þurfum ekki að halda, að svo sterk stefna verði kúguð eða drepin með skilningsleysi. Hún harðnar við mótstöðuna, færist í aukana, og þá getur orðið næsta skamt til öfga og örþrifaráða.

Okkur framsóknarmönnum er núið því um nasir, að við sjeum í tjóðurbandi jafnaðarmanna hjer á Alþingi og þeir skipi okkur fyrir verkum. Jeg hjelt, að hv. þingmenn Íhaldsflokksins væru of skýrir menn til að halda því fram í alvöru, að slík fjarstæða mundi hræða okkur frá að fylgja sannfæringu okkar. Við framsóknarmenn munum telja skyldu okkar að fylgja hverju því máli, sem er á rökum bygt og er til hagsbóta landi og lýð, hvort sem það er borið fram af jafnaðarmönnum eða íhaldsmönnum. Og þær þúsundir manna, sem standa á bak við jafnaðarmenn, þó að það sje fátækari hluti þjóðarinnar, eiga engu síður heimtingu á að ná með kröfur sínar að eyra löggjafans, enda er það engu síður nauðsynlegt, ef menn vilja ekki. verða þess valdandi að skapa hjer stjettahatur og óslökkvandi byltingarloga.

Þó að jeg sje á margan hátt andvígur ýmsum höfuðstefnum jafnaðarmanna, þá er mjer þó fullljóst, að starf þeirra er á margan hátt lofsvert og að þeir berjast fyrir ýmsu, sem á fult erindi til þjóðarinnar. Og þegar slík mál koma inn í þingsalinn, þá á að ræða þau rólega og af skynsamlegu viti. Ef ekki tekst að vinna að umbótum þjóðfjelagsins með samhug og lipurð, þá mun það því síður takast með ofbeldi og gerræði.

Það hefir verið látið óspart klingja nú um hríð hjer í hv. deild, að með þessu frv. væri verið að ráðast á bændavaldið í landinu. Jeg held, að þeim hv. þm., sem vita, að hjer er um eitt höfuðvígi Íhaldsflokksins að ræða, detti fremur í hug vísupartur Þorsteins: „Þessu var aldrei um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar“ — heldur en að leggja mikið upp úr bændavaldi þessa kjördæmis. Því hvernig hefir það farið að því að velja sjer þingmenn? (ÓTh: Það kýs son stærsta bóndans í sýslunni). Þetta kjördæmi velur sjer fyrir þingmenn einhvern stærsta útgerðarmanninn úr Reykjavík ásamt einum stærsta kaupmanninum á Íslandi. Jeg hugsa því, að enginn þurfi að gera sjer neinar sjerstaklega háar vonir um, að bændavald sýslunnar njóti sín betur við kosningar með því fyrirkomulagi, sem er, heldur en þó að Hafnarfjörður fái að velja annan þm.

Í þessu sambandi vil jeg benda á, að þegar Ágúst Flygenring ljet af þingmensku 1925, þá benti hann á einn fyrverandi stærsta bónda sýslunnar sem eftirmann sinn; og þó að mjer hafi síðar lent saman við þennan mann, þá vil jeg þó láta hann njóta sannmælis og viðurkenni hann í fremstu bænda röð og að öllu leyti frambærilegan þingmann fyrir þá, er fylgdu honum að málum. En hvernig fór? Bændavaldið hafnaði þessum alkunna dugnaðarbónda, sem fráfarandi þm. benti á, og sá sjer meiri hag í að kjósa útgerðarmann úr Reykjavík.

Björn í Grafarholti, gamall þm. og merkur bóndi, hefir hvað eftir annað boðið sig fram í þessu kjördæmi, en hann hefir aldrei verið svo hátt skrifaður hjá bændavaldi sýslunnar, að hann næði kosningu.

Fyrir síðustu kosningar var mjer kunnugt um, að allmikill áhugi var um það að fá einn víðsýnasta, áhugamesta og ötulasta bónda kjördæmisins til að verða þar í kjöri. Við þessu gat þó bændavaldið ekki orðið, heldur þvingaði það hinn aldraða mann, núverandi 1. þm. kjördæmisins, til að bjóða sig fram á ný, þó að hann þá væri staðráðinn í að hætta og búinn að kveðja kjósendur sína — að því er búist var við — í síðasta sinn. Þó er þetta maður, er á síðari árum hefir höggvið harðast og óvægilegast í þá grein, sem þroskamest og vænlegust hefir vaxið upp úr íslensku bændavaldi — samvinnufjelagsskapinn íslenska. — En bændavaldið í kjördæminu mátti ekki án hans vera.

Jeg skal engu um það spá, hvernig fara muni, ef skiftingin kemst á, hvort það verður jafnaðarmaður eða íhaldsmaður, sem kosningu nær í þessu nýja kjördæmi, og hvor þeirra muni reynast íslensku bændavaldi þarfari. En hitt er vitanlegt um Gullbringu- og Kjósarsýslu, að miklar líkur eru til, að bændur geti ráðið meiru um kjörið en verið hefir, því að hingað til er það kaupstaðavaldið, sem öllu hefir ráðið.

Annars vil jeg benda þeim hv. þdm., sem álasa okkur framsóknarmönnum fyrir fylgi við jafnaðarmenn, á það, að þegar þeir geta sannað með óhrekjandi rökum, að við brjótum okkar stefnu og göngum á móti okkar málum fyrir fylgi við jafnaðarmenn, þá skal jeg taka við ákúrum frá þeim, en fyr ekki.

Jeg held, að það hafi verið sá mæti maður háttv. þm. Barð., sem kvað svo að orði, að við framsóknarmenn værum í því tjóðurbandi, að jafnaðarmenn gætu leitt okkur út í allan voða. (HK: Það er ekki langt síðan það sýndi sig!). Það er nú kannske ekki svo undarlegt, þó að þessari andlegu sjálfstæðishetju renni til rifja vesaldómur okkar stjettarbræðra sinna í Framsóknarflokknum. En jeg vildi þó mega óska honum þess, að hann lendi aldrei sjálfur í því tjóðurbandi, er dragi hann lengra frá sönnum hagsmunum bændanna og bændavaldsins í landinu en við framsóknarmenn förum í því tjóðurbandi, sem hann álítur okkur vera í.