09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3008 í B-deild Alþingistíðinda. (2768)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Ef jeg ætti að hrekja allar mestu bábiljurnar, er fram hafa komið hjá hv. andstæðingum mínum í þessum umræðum, mundi mjer varla endast sá klukkutími, sem eftir er af fundartímanum. Jeg tek því þann kostinn að fara fljótt yfir sögu.

Jeg ætla að byrja á því að svara hv. þm. Mýr. En jeg mun leiða hjá mjer að gera hinar heimspekilegu hugleiðingar hans að umtalsefni, en láta mjer nægja að tala um það, sem átti að vera rök í ræðu hans.

Hv. þm. sagði, að kröfurnar um skiftingu Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi væru sanngjarnar, af því að þær væru gamlar og af því að þær væru fram bornar samkv. ósk meiri hl. Hafnfirðinga. Sannleikurinn er þó sá, að frá meiri hl. Hafnfirðinga hafa engar óskir borist um þetta. En það er segin saga, að þegar við íhaldsmenn berum fram rök, en fylgismenn hv. þm. Mýr., jafnaðarmennirnir, önnur, þá trúir hann þeim, en ekki okkur. Það mun að vísu vera rjett, að jafnaðarmenn eigi meiri hluta í Hafnarfirði, en hversu mikill hann er, veit jeg ekki.

Hv. þm. vill vera ákaflega rjettlátur og sanngjarn. Hann sagði, að sjer þætti það smánarlegt, að heill stjórnmálaflokkur skyldi ræða málið á þeim grundvelli, að annar flokkur mundi vinna þingsæti, ef það næði fram að ganga. Með þetta getur hann snúið sjer til hæstv. forsrh., því að hann hefir ótæpt gefið í skyn, að hann mundi þjóna hagsmunum síns flokks í þessu máli. Mín tillaga er því, að háttv. þm. haldi næstu siðferðisprjedikun sína yfir hæstv. forsrh. einum saman.

Jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að jeg roðna alls ekki, þó að jeg tali um flokkshagsmuni í þessu sambandi. Á því er engin launung, og hefir ekki verið, að þetta er hagsmunamál jafnaðarmanna. Þeir leyna því ekki sjálfir. Þess vegna er fyllilega rjettmætt að ræða um, hvort það sje sanngjarnt, að þeir fái þingsæti í Hafnarfirði.

Við síðustu kosningar í Gullbringu- og Kjósarsýslu fengu jafnaðarmenn tæplega þriðjung atkvæða, ef tekið er meðaltal af atkvæðatölu jafnaðarmannanna beggja, sem í kjöri voru, — eða 680 atkv. Ef svo hefði verið sem hv. þm. vill og hlutfallskosning hefði farið fram, hefði þurft 726 atkv. til þess að koma að manni. Nú vill hann láta jafnaðarmenn fá einn þm. Þá ættu 726 kjósendur að fá annan þm. Alls voru yfir 2200 gild atkv. greidd. 800 íhaldskjósendur fengju þá engan þm. Svona ætlast hann til, að rjettlætinu sje fullnægt.

Því síður er ástæða til að gefa jafnaðarmönnum annað þingsætið í Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem telja má einsætt, að fylgi þeirra í kjördæminu fari þverrandi. Það sjest best við samanburð kosninganna 1926 og '27. Á því eina ári, sem leið milli þessara kosninga, hefir atkv. jafnaðarmanna fækkað um 280. Á sama tíma hefir fylgi Íhaldsflokksins vaxið um 150 atkv. Það getur því varla verið um rjettlæti og sanngirni að ræða hjá hv. þm., heldur samúð með jafnaðarmönnum og andúð á Íhaldsflokknum.

Jeg virði orð hv. þm., þegar hann segist vilja sýna sanngirni, og jeg efast ekki um, að hann langi til að gera það. En í þessu máli er hann ekki sanngjarn. Nú verður hann að taka afleiðingum orða sinna, og því vil jeg beina því til hans, að það er frá framsóknarmönnum, sem jafnaðarmenn eiga að fá þingsæti, en ekki frá íhaldsmönnum. Það er rjett, að jafnaðarmenn telja til skuldar — en ekki hjá íhaldsmönnum. Ef hv. þm. vill forða jafnaðarmönnum frá því að hverfa í faðm æsinga- og byltingamanna, þá hefir hann ráð þeirra í hendi sjer. En hann þarf ekki að láta sjer detta í hug, að Íhaldsflokkurinn muni greiða skuld Framsóknarflokksins. Framsóknarmenn verða að taka afleiðingunum af breyttri kjördæmaskipun.

Við síðustu kjördæmakosningar fjekk Framsóknarflokkurinn 10 þús. atkv. og 17 þm. Íhaldsflokkurinn fjekk 14 þús. atkv., en ekki nema 13 þingsæti. En því ber ekki að neita, að verst urðu jafnaðarmenn úti. Á bak við hvern jafnaðarmann í þinginu eru til jafnaðar 1500 atkv., hvern íhaldsmann 1100 atkv., en hvern framsóknarmann aðeins 600 atkv. Það er drengilegt að greiða jafnaðarmönnum skuldina, en það er ofbeldi, að ætla að láta þá greiða hana, sem ekki eru skuldugir.

Jeg ætla ekki að fjölyrða um það, sem háttv. þm. Mýr. segir um hug bænda í Gullbringu- og Kjósarsýslu til mín. Þó held jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að jeg hafi átt nærri óskift fylgi í þeim sveitum, þar sem bændavaldið er mest, og það jafnvel þó að tveir mætir bændur væru í boði á móti mjer. Það er vanhugsað hjá honum, ef hann heldur, að málum bænda geti ekki verið vel borgið, nema þeir kjósi bændur á þing. Jeg man eftir því, að hv. þm. sagði við mig fyrir nokkrum dögum, að sig langaði til að komast í sjútvn. Það er ekki af því, að hann sje sjerstaklega kunnugur sjávarútvegi. En hann ber hag hans fyrir brjósti og vill kynnast honum. Jeg hefi svipaða sögu að segja um sjálfan mig. Jeg bauð mig fram með fremur litla þekkingu á landbúnaði. Nú hefi jeg setið tvö ár á þingi og aflað mjer talsverðrar reynslu.

Jeg vil að endingu segja hv. þm. það, að mjer sýnist ástæða til að óttast, að jafnaðarmenn sjeu að bregða þeirri snöru um háls framsóknarmanna, sem þeim muni veitast erfitt að losa sig úr. Þarf jeg ekki annað en að nefna gerðir stjórnarinnar í varðskipamálinu — og svo þetta mál, sem nú er til umræðu í þessari. hv. deild. En jeg vil reyna að byrgja brunninn í tíma og aðvara þennan hv. þm. Af því að mjer er persónulega hlýtt til hans, vildi jeg gjarnan bregða hníf á snöruna á hans hálsi og bjarga honum frá hengingu.

Nú skal jeg stuttlega víkja að öðrum hv. þm. Um hv. 2. þm. Eyf. get jeg verið fáorður. Hann var að reyna að losa sig við snöru, sem jeg hefi smeygt á hann. En nú ætla jeg að gera honum þann ógreiða að herða á henni. Jeg get sannað það um þennan hv. þm., að framkoma hans bendir á óhreinskilni. Hann vill nú láta líta svo út, að hann vilji að vísu ógjarnan svifta Gullbringu- og Kjósarsýslu þm., en þó þyki sjer enn meira ranglæti að neita Hafnarfirði um þm. En þetta er í ósamræmi við það, sem þessi hv. þm. hefir áður sagt. Á þinginu 1926 fórust honum svo orð (með leyfi hæstv. forseta):

„Ef hv. flm. (JBald) hefði flutt málið á þeim grundvelli að gera Hafnarfjörð að sjerstöku kjördæmi, án þess að taka með því annan þingmanninn af Gullbringu- og Kjósarsýslu, þá hefði jeg hiklaust rjett honum hönd“.

Um það er naumast hægt að deila, hvað felst í þessum orðum. Hv. þm. vill unna Hafnfirðingum þingsætis, ef það verður ekki á kostnað sýslunnar. En af því að taka á annað þingsætið af Gullbringu- og Kjósarsýslu, rjettir hv. 2. þm. Eyf. ekki hönd. Er þetta ekki rökrjett ályktun af orðum hans? Hv. þm. er kominn í andstöðu við sjálfan sig, þegar hann nú rjettir fram höndina til þess að taka annan þm. af Gullbringu- og Kjósarsýslu og gefa hann Hafnarfirði.

Þá vil jeg snúa máli mínu að hv. jafnaðarmönnum. Jeg er raunar ekki svo vel að mjer í þingsköpunum, að jeg viti, hvort á að segja hv. jafnaðarmenn. En einn hv. þm. nefndi áðan hv. Hvalfjarðarbát, og var þó naumast meiri ástæða til þess að nota „háttvirtur“ í því sambandi. Háttv. 2. þm. Reykv. talaði um frv. sitt um breytta kjördæmaskipun, sem hann bar fram á síðasta þingi, og að Íhaldsflokkurinn hefði verið á móti því. En um þetta frv. hans er það að segja, að það var svo gallað, að ómögulegt var að fylgja því. Annars hefir miðstjórn Íhaldsflokksins enn enga afstöðu tekið til breytinga á kjördæmaskipuninni. Það er rjett, sem hv. þm. Mýr, sagði, að Íhaldsflokkurinn er skiftur í því máli.

Hv. 2. þm. Reykv. vildi leiða rök að því, að jeg væri ekki bændavinur, og nefndi það til, að jeg hefði ekki beitt mjer fyrir hagsmunamálum bænda á þingi. En þar er því að svara, að í mínum flokki eru ýmsir menn, sem miklu færari eru til þess en jeg. Hefi jeg hlítt þeirra forsjá. Íhaldsflokkurinn hefir jafnan stutt framgang góðra og gagnlegra bændamála. Má þar nefna ræktunarsjóðinn og kæliskipið. Jeg hefi ekki talið mig færan til að bera fram nýmæli um landbúnað, en jafnan fylgt þar að málum þeim flokksmönnum mínum, er best vissu. Og jeg vil benda á það, að dómur bænda í kjördæmi mínu um framkomu mína á þingi hefir verið mjer hagstæður.

Nú vil jeg víkja nokkrum orðum sameiginlega að þeim háttv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Ísaf. Jeg hefi áður minst á það, að kjósendur í Hafnarfirði mundu ekki kæra sig um skiftingu. Nú hafa þinginu borist áskoranir frá mörgum hundruðum hafnfirskra kjósenda um að samþykkja ekki frv. Þessir hv. þm. hafa haldið því fram, að jeg muni eiga hlut að máli um söfnun undirskriftanna. Jeg hefi sagt þeim, að þetta sje ósatt. Nú skal jeg skýra frá öllum þeim afskiftum, sem jeg hefi haft af þessum undirskriftum: Þrír menn úr Hafnarfirði komu til mín fyrir nokkrum dögum og spurðu mig, hvort það væri satt, að það hefði verið sagt á Alþ., að allir kjósendur í Hafnarfirði væru með skiftingunni. Jeg játti því. Kváðust þeir þá ætla að leita upplýsinga hjá kjósendum um það, hvort þetta væri satt. Hefði jeg ætlað að skifta mjer af þessu, mundi jeg hafa kallað saman kjósendafund í Hafnarfirði. Hv. þm. þykir hafa orðið lítil uppskeran eftir undirskriftasöfnunina. Áskorunin er þó undirrituð af á fjórða hundrað mönnum. Annars skiftir fjöldinn ekki öllu máli í þessu sambandi, því að hjer hefir því verið haldið fram, að allir kjósendur í Hafnarfirði væru með skiftingunni.

Þeir segja, þessir hv. þm., að Hafnfirðingar eigi í rauninni engan fulltrúa á þingi. Ja, jeg verð að segja það, að jeg skil þetta varla. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skipa nú 6 jafnaðarmenn og 3 íhaldsmenn. Við núv. þm. kjördæmisins höfum því ekki pólitískar ástæður til þess að hafa samúð með henni. Þó verð jeg að segja það, að við höfum aldrei, hvorki hv. samþm. minn nje jeg, synjað málaleitunum hennar. Nýlega höfum við átt hlut að mjög mikilsverðu máli í Hafnarfirði, og væri kaupstaðurinn áreiðanlega illa staddur, ef okkar hefði ekki notið þar við.

Þá kem jeg að ræðu háttv. 4. þm. Reykv. Hún var löng, en þarf fárra andmæla.

Hv. þm. ætlaði að hlaupa undir bagga með sínum flokksmönnum og sanna, hvað íhaldsmenn hefðu miklu minna fylgi í kjördæminu en jeg vildi vera láta. En öll rök hv. þm. hnigu að því einu — og jeg vil hjer sjerstaklega vekja athygli hv. þm. Mýr. — að sanna, að skifting kjördæmisins væri sanngjörn, af því að jafnaðarmenn mundu ná þingsæti, ef hún færi fram. Rök. hv. þm. voru þau, að í Hafnarfirði væru 2/3 hlutar kjósenda jafnaðarmenn. Auk þess nefndi hv. þm., að jafnaðarmenn ættu mikið fylgi í Höfnum, Garðinum, Grindavík og „einkum í Mosfellssveit“. Við síðustu kosningar, 9. júlí 1927, voru greidd í Hafnarfirði 1050 atkv. 2/3 hlutar af 1050 eru 700. Nú skulum við fara út úr Hafnarfirði og sækja viðbótaratkvæði. Við skulum fara suður í Hafnir, Garð, Grindavík og upp í Mosfellssveit. Við sækjum þangað ekki færri en = 20 atkv. 680 atkv. fengu jafnaðarmenn, svo stuðningsmennirnir utan Hafnarfjarðar eru þá 20 færri en enginn.

Svo kem jeg að undirskriftunum í Hafnarfirði. Hv. þm. sagði, að launaðir smalar hefðu safnað þeim. Þessi háttv. þm. veit alls engar sönnur á því, sem gerist í herbúðum andstæðinganna. En af orðum hans má álykta um það, sem gerist í hans eigin herbúðum. Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að von væri á 620 undirskriftum í þessu máli. Jeg hugsa þá, að þær hafi kostað eitthvað. En hitt tel jeg meiru skifta, að með þessu hefir hann gefið upplýsingar um það, af hverju áskoranir hafa borist í öðrum áhugamálum hv. þm., sbr. vökulögin. Mig skal ekki undra, þó að margar fáist undirskriftirnar, ef ríkulega er launað, og því betur, sem undirskriftirnar eru fleiri. En þetta má hv. þm. vera best kunnugt um sjálfum, þar sem það var hann, sem safnaði þeim.

Jeg skal játa, að orð mín í garð hv. þm. hafa verið hörð, en jeg gat ekki komist hjá að draga ályktanir af fullyrðingum hans sjálfs.