04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það hafa verið gerðar heldur fáar og vægar aths. við þær till., sem fjvn. hefir lagt fyrir deildina, svo að það er lítil ástæða fyrir mig að fara að minnast verulega á þær. Þó vil jeg fara nokkrum orðum um aths. 2–3 þm.

Í fyrsta lagi vil jeg víkja að því, sem hæstv. fjmrh. sagði um störf og till. fjvn. Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að þær till., sem nefndin hefði borið fram og miðuðu til hækkunar á tekjuliðnum, væru að mestu gerðar í samráði við hæstv. fjmrh. Jeg gat þess ennfremur, að yfirleitt liti nefndin svo á, að frv., eins og það nú liggur fyrir eftir till. nefndarinnar, mundi ekki þola viðbót við útgjaldaliðina frá því, sem orðið er. Jeg álít, að hæstv. fjmrh. sje þessu sammála. En hæstv. ráðherra gat þess, að till. nefndarinnar um að hækka tekjurnar af víneinkasölunni um 75 þús. kr. væri ekki gerð í samráði við sig. Þetta er rjett. Nefndin rjeðist sjálf í þetta, með hliðsjón af ástæðum, sem jeg gat um í dag, og nefndin hjelt, að þessi liður væri ekki óvarlegar áætlaður en margt annað. Hitt er rjett, að meiri hluta nefndarinnar er það ljóst, að tekjurnar eru áætlaðar svo hátt, sem frekast má telja varlegt.

Hv. 3. landsk. þm. mintist á tvær brtt. nefndarinnar, sem miða til hækkunar. Ummæli hans voru á þá leið, að jeg neyðist til að minnast nokkuð frekar á þetta atriði. Jeg vil geta þess í sambandi við það, sem hann sagði um risnufje ráðh., að í lögum er það ákveðið 4000 kr., svo að þessu þarf að breyta með lögum. Nefndinni var þetta ljóst, en gerði þetta til bráðabirgða og ætlast til, að þessu verði breytt á næsta þingi, svo sem þarf, til þess að það verði löglegt. Hinsvegar er nú ekki tími til að koma þessari breytingu í kring.

Út af þeim ummælum, sem hv. 3. landsk. þm. hafði um hitun og lýsingu ráðherrabústaðarins, er rjett að geta þess, að nefndin fjekk vitneskju um, að svo hefir verið litið á af fyrv. ráðh., að þetta væri heimilt, þó að ekki stæði það í lögum. Þannig stóð á þessu, að fyrv. atvmrh. var beðinn að koma á fund nefndarinnar og gefa upplýsingar um þetta atriði, og hann sagði, að fyrv. ráðh. hefðu litið svo á, að þetta væri heimilt, og rökstuddi hann það með því, að þar sem forsrh. væri ætlað að búa í svona stóru húsi, væri alls ekki ætlast til, að hann hitaði húsið upp á eiginn kostnað, heldur kostnað ríkisins. Hann var svo viss í þessu, að hann vildi halda því fram, að fyrv. forsrh., núverandi háttv. 3. landsk. þm. (JÞ), mundi hafa látið ríkið borga þennan lið. (IHB: Hann sagði þetta ekki). Nefndinni þótti betra að vita þetta með vissu og bað því háttv. 1. þm. Skagf. að spyrja hv. 3. landsk. þm. sjálfan að þessu í síma, og þá kom í ljós, að hv. 3. landsk. hafði ekki notað þetta í sinni ráðherratíð og leit svo á, að það væri ekki heimilt. Þetta er rjett sögð sagan.

Hv. 3. landsk. þm. lagði á móti því, að samþ. yrði till. mín um það, sem hann kallaði „póstprest“. Jeg hefi ekkert út á það að setja, þótt hann líti svo á, en jeg get ekki neitað því, að mjer þótti hálfkynlegt það, sem hann sagði um byrjun þessara tilrauna. Sú byrjun var fyrst gerð 1927, að því er jeg hygg, því að mjer er ekki kunnugt um, að fyrr hafi verið veitt fje í þessu skyni. Þá höfðu þetta starf með höndum ágætir menn, þeir Sigurður prófessor Sivertsen og Ásmundur Guðmundsson, og jeg hygg, að allir ljúki upp einum munni um það, að þeir hafi leyst það starf prýðilega af hendi. (JÞ: Það voru aðrir, sem áttu byrjunina). Það er þá eitthvað annað, sem hv. þm. á við, sem mjer er ekki kunnugt um. En hvað um það, jeg álít þetta í alla staði þarft og vona, að það verði samþ.

Það, sem sagt hefir verið út af Þingvallaveginum, læt jeg óátalið. Jeg er þessu ekki persónulega kunnugur, og læt það því nægja, sem hæstv. dómsmrh. og hv. þm. Seyðf. hafa um þetta atriði sagt.

Fyrir hönd nefndarinnar hefi jeg ekkert að segja út af brtt. einstakra þm. Nefndin hefir ekki gert neinar ályktanir um þær, og hefir því hver nefndarmaður óbundnar hendur hvað þær snertir. En sem frsm. fjvn. og þdm. vil jeg segja það, að mjer þætti eðlilegt, að deildin legðist sem fastast á móti þessum till, því að þær eru til hækkunar á útgjaldahlið frv., sem þolir enga hækkun frá því, sem nefndin skildi við frv. Um till. um persónulega styrki býst jeg við að mega segja fyrir nefndarinnar hönd, að hún muni ganga á móti þeim flestum.

Það er ein brtt. frá hv. þm. Ak. (EF), sem jeg vil sjerstaklega minnast á. Það er XXVI till. á þskj. 695, þess efnis, að ríkisstj. heimilist að ábyrgjast alt að 100 þús. kr. lán til barnaskólabyggingar á Akureyri. Hv. flm. mintist á, að þessi ábyrgð mætti teljast hliðstæð þeim ábyrgðum um togaraútgerð, er þingið hefði gefið heimild til nokkru áður. Jeg álít þetta ekki sambærilegt. Jeg býst við, að þær ábyrgðir sjeu gerðar vegna atvinnuvegarins og til þess að fyrirbyggja atvinnuleysi, svo að þessir tveir liðir eru í eðli sínu óskyldir og því ekki sambærilegir. Hinsvegar sagði þessi hv. þm., að við 2. umr. fjárl. hefðu þm. verið í þeim vígahug, að þeir hefðu drepið fleira en vera átti. (EF: Það var hans skoðun). Jeg er þessu ósammála. Jeg álít, að færra hafi verið drepið en drepa átti. Hinsvegar vil jeg lýsa yfir því, að ef um það væri að ræða, að Akureyrarkaupstaður fengi ekki hagkvæmt lán án ríkisábyrgðar, gæti það verið álitamál — eftir atvikum —, hvort ekki yrði að ganga að því að veita þessa heimild, þar sem Akureyri er eitthvert heilbrigðasta og best stæða bæjarfjelagið á landinu. Ábyrgð ríkissjóðs yrði varla til nokkurs kostnaðarauka í þessu tilfelli, þótt öðruvísi gæti farið á öðrum stöðum, ef gengið yrði langt inn á þá braut að láta ríkið ábyrgjast fje til byggingar barnaskóla í kauptúnum.

Að síðustu skal jeg geta þess, að að því er snertir þær brtt., sem hjer eru bornar fram í öðru formi en um sama efni og við 2. umr., að um þær hefi jeg ekkert að segja nú, en vísa til þess, sem jeg sagði, er þær voru til 2. umr. hjer í deildinni.