10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3022 í B-deild Alþingistíðinda. (2771)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Magnús Jónsson:

Það er orðið svo langt síðan jeg kvaddi mjer hljóðs, að talsvert af því, sem jeg ætlaði þá að segja, er rokið burt.

Það var aðallega vegna ræðu hv. þm. Ísaf., sem jeg bað um orðið, en ýmsu af þeirri ræðu hefir verið svarað síðan af öðrum, svo jeg get slept þeim atriðum hjer.

Hv. jafnaðarmenn hjer í þingdeildinni eru miklir fyrir sjer, þegar þeir tala um þetta mál. Maður getur ekki varist því að minnast gamalla frásagna um það, þegar konungar voru að taka skatt af löndum sínum. Aðferð þeirra minnir á þetta, enda mega þeir vera státnir af því valdi, sem þeir hafa nú, og eru það líka.

Þegar virðuleg stjórn var sett á stofn, að afstöðnum síðustu kosningum, með stuðningi jafnaðarmanna, þá þóttust margir vita, hvað á eftir kæmi og hvað þessi stuðningur myndi kosta. Eitt af því sjálfsagðasta var þá þm. fyrir Hafnarfjörð. Menn vissu, að þeir myndu heimta að fá því máli framgengt, án tillits til allrar sanngirni eða sannsýni. Þetta er nokkurskonar pólitískt tafl, þar sem jafnaðarmenn hafa góða aðstöðu. Annað mál er það, hversu stoltir veslings framsóknarmennirnir eru af því að vera þannig krafðir um þennan skatt.

Jeg ætla ekki að fara mikið út í ræðu hv. þm. Mýr. Hann sýndi aðeins góðan hug sinn til jafnaðarmanna í gær og sagði, að þeir væru ekkert hættulegir, vegna þess að þetta væru alt ágætismenn. Þetta er nú ekki að lasta. En hitt var óþarfi af honum, að vera að sletta í sjer eldri og reyndari þingbónda, sem hefir margfalda lífsreynslu á við hann. Það er óþarfi fyrir þennan hv. þm. að miklast af sjálfum sjer eða sinni stöðu hjer, meðan ekki er nú um meira að ræða fyrir hann en að greiða þennan skatt eða húsaleigu til jafnaðarmanna. Því eiginlega er þessi skattur, sem framsóknarmenn verða að greiða jafnaðarmönnum, ekkert annað en leiga eftir stjórnarráðshúsið. Mjer finst því varla vert fyrir háttv. þm. að setja sig á mjög háan hest, meðan hann er að greiða þessa húsaleigu.

Þá var það ekki rjett af sama hv. þm. að ráðast að hv. 1. þm. G.-K. (BK), sem ekki á einu sinni sæti hjer í þessari hv. deild, nje telja hann fjandmann samvinnustefnunnar, þó hann hafi skrifað um þau mál. Það hefir hann gert af áhuga fyrir málinu. Og þó hann hafi viljað fara aðra leið en farin hefir verið, þá er hann ekki ásökunarverður fyrir það. En það er gamla sagan, að sá, sem þorir að segja til vamms, er oft nefndur fjandmannsnafninu. Jeg vildi, að hv. þm. Mýr. og aðrir þeir, er þessu halda fram, vildu benda á eitthvað það í skrifum hv. 1. þm. G.-K., sem sannaði, að hann væri fjandmaður þessarar samvinnuhreyfingar. Jeg hygg, að jeg hafi lesið öll rit þessa hv. þm., og í þeim bendir hann aðeins á, hve óheppilegar leiðir samvinnan hefir komist út á hjer á landi, að hans skoðun. Og það er þó aldrei fjandskapur við neinn, að vara hann við hættum.

Hv. þm. hefir kannske lesið Ibsen, og sjeð þar, hvað sá maður þurfti til að vinna, sem kallaður var fjandmaður þjóðfjelagsins. Hann stakk á hættulegu kýli og vildi bjarga mörgum, en var kallaður „samfundets fjende“. Vildi jeg ekki láta með öllu ómótmælt þessum tveim hnútum, er hv. þm. Mýr. varpaði að þessum hv. þm. um leið og hann færði jafnaðarmönnum þessi fögru lofsyrði í ræðu sinni.

Það er annars einkennilegt — og sýnir, hve mikill loddarabragur er á þessu öllu saman —, hvað hljóðið breyttist í strokknum, þegar háttv. 2. þm. G.-K. lýsti undirskriftum nokkur hundruð kjósenda í Hafnarfirði, þar sem þeir andmæla skiftingu kjördæmisins. Áður var því haldið mjög á lofti, að aldrei hefði hreyft sjer nokkur rödd á móti skiftingunni. Nú, þegar nokkur hundruð kjósenda í Hafnarfirði senda mótmæli gegn því, að kjördæminu verði skift, þá er sagt: Hve margir smalar hafa safnað þessum undirskriftum? Hvers vegna voru jafnaðarmenn að safna undirskriftum á móti — og hve margir ætli hafi smalað þar? Það sýnir ljósast, hve mjög þeir hafa orðið að leita að rökum í máli þessu, þegar þeir halda því fram, að hjer sje ekki um mótmæli kjósenda að ræða, einungis vegna þess, að í skjalinu stendur ekki: vjer mótmælum, heldur notuð önnur orð. En það, sem aðallega gerði það að verkum, að jeg kvaddi mjer hljóðs að þessu sinni, var það, sem hv. þm. Ísaf. sagði í hinni fyrri ræðu sinni. Hann sagði, að með frv. væri bætt úr þeim órjetti, sem jafnaðarmenn ættu við að búa, sem sje, að þeir hefðu of fá þingsæti. Þetta eitt út af fyrir sig væri næg ástæða til þess að samþykkja frv. Nú, þetta er gott og blessað. En hv. þm. Mýr. benti á það í sinni ræðu, hve sjálfsagt væri að ræða skiftingu kjördæma án þess að taka tillit til þess hagnaðar, er einstakir flokkar kynnu að hafa af skiftingunni.

Hugsum okkur nú, út í hvaða óskapnað það myndi leiða, ef hver sá flokkur, sem í það skifti er í meiri hluta í þinginu, færi að hringla með kjördæmin rjett eins og honum byði við að horfa, vegna þess, að hann hefði hagnað af því í svip! Nei, skifting kjördæma byggist á alt öðrum grundvelli en þeim, hvaða flokkur ræður mestu og hefir mestan hagnaðinn. Jeg held, að frjálslyndi flokkurinn ætti þá að fara á stúfana, því að ef nokkur flokkur er afskiftur með þingmannasæti eftir kjósendafjöldanum, þá er það hann. Mjer er ekki kunnugt um, hvar sá flokkur hefir helst fylgi, en við skulum segja, að það væri á Langanesi eða í einhverri smásveit á Vestfjörðum. Frjálslyndi flokkurinn ætti þá að skifta nokkrum bæjum út úr sveitum til þess að fá nægan atkvæðafjölda á þessum og þessum stað. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og hjá hv. þm. Ísaf., þegar hann heldur því fram, að þetta sje næg ástæða til skiftingar. Hitt skal jeg kannast við, nú eins og fyr, að jafnaðarmenn eru afskiftir um þingmannafjölda eftir kjósendatölu þeirra. En það eru íhaldsmenn líka, og Frjálslyndi flokkurinn þó mest. Framsóknarflokkurinn einn fleytir rjómann.

En þegar hv. þm. Ísaf. fer að tala um það sem rök í máli þessu, að þm. þessa kjördæmis sitji í fullri óþökk jafnaðarmanna í Hafnarfirði, þá er mjer sannarlega nóg boðið. Veit þá ekki þessi hv. þm., að þessir 3 jafnaðarmenn, sem hjer eiga sæti, sitja í fullri óþökk allra landsmanna, annara en jafnaðarmanna? Heldur hann virkilega, að hægt sje að koma slíkri skiftingu kjördæma á, að þm. sitji ekki altaf í óþökk minni hlutans? Þannig mundi að sjálfsögðu fara, þótt jafnaðarmenn fengju sinn þm. í Hafnarfirði; hann mundi sitja í óþökk allra íhaldsmanna í Hafnarfirði. Nú ætla jeg að ganga inn á það, eins og jeg sagði áðan, að jafnaðarmenn hafi of fáa þm. hjer á þingi, samanborið við kjósendafjölda. Jeg ætla líka að ganga inn á þá röksemdaleiðslu, er jeg álít rjetta, að eini grundvöllurinn fyrir skiftingu kjördæma sje höfðafjöldinn, því að hver kjósandi á að hafa jöfn mannrjettindi. Það er því alls ekki rjett að byggja kjördæmaskiftingu eftir kunnugleika manna í hjeruðunum. Bæði er það, að sum kjördæmin eru það stór, að erfitt er að þekkja þau til hlítar, og svo það, að það er alls engin skylda, að þm. sje úr kjördæminu. Ef þetta væri grundvöllurinn, væri það auðvitað brot að hafa menn hjeðan úr Reykjavík sem þm. fyrir ýms hjeruð úti um land, eins og nú á sjer stað. Eini rjetti grundvöllurinn er að fara eftir höfðafjölda kjósenda í hverju kjördæmi.

Jeg hefi mjer til gamans reiknað hjerna svolítið dæmi, sem að vísu hefir verið tekið áður, en dálítið á annan veg. Jeg tek öll atkv. við síðustu kosningar og jafna þeim á hvern þm. Jeg tek landsk. þm. líka með, og ætti þannig að vera hægt að vita, hvaða flokkar hafa of marga þm. á Alþingi og hverjir of fáa. Mjer reiknast þá, að um 800 kjósendur sjeu að meðaltali um hvern þm. Jafnaðarmenn hafa um 1200 kjósendur um hvern sinna þm. Það er því ljóst, að þeir eru mjög afskiftir. En hvaðan eiga þeir að fá þau þingsæti, er þá vantar? Ekki frá frjálslynda flokknum, því að sá flokkur hefir ca. 2000 kjósendur um þann eina þingmann, sem hann á hjer á Alþingi, og er því afskiftastur allra flokka þingsins. Við skulum nú athuga, hvort þeir eiga kröfu til þingsæta frá Íhaldsflokknum, því fram á það er nú farið. Sjest þá, að Íhaldsflokkurinn hefir liðlega 900 atkv. um hvern sinn þm. Það er því fjarri sanni, að jafnaðarmenn geti vænst þess að fá þingsæti þaðan, þar sem Íhaldsflokkurinn hefir ekki einu sinni það, sem honum ber.

Það er þá upplýst, að allir þessir 3 flokkar eru meira og minna afskiftir. En hver situr þá að þessari krás? Það er Framsóknarflokkurinn. Sá flokkur hefir 19 þm., en ekki nema ca. 10 þús. atkv. alls, eða aðeins 524 atkv. um hvern þingmann, í stað 800 atkv. Það eru þannig þeir, sem sitja að þingsætunum. Ef jafnaðarmenn vilja breyta kjördæmunum til þess að fá bætt úr þessu misrjetti, er þeir hafa fyrir orðið, ættu þeir að leita þar að fjenu, sem það er niður komið. Annars verð jeg að segja, að mjer finst það koma úr hörðustu átt, þegar jafnaðarmenn fara að kvarta yfir þessu misrjetti einmitt nú, þegar þeir hafa svo mikil völd í þinginu, að það er langt fram yfir tölu þm. Þeir ráða því, að þessi stjórn situr, og með hinni fínu aðstöðu, er þeir nú hafa, geta þeir gert mikið meira en þótt þm. þeirra væru fleiri, en aðstaðan lakari. Þeir ættu því síst að vera að kveina og kvarta nú á þessu þingi.

Dæmi þetta, er jeg tók, hefir verið dregið fram áður af hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. G.-K., en dálítið á annan veg. Jeg veit, að það hefði verið öllu betra fyrir Íhaldsflokkinn, ef jeg hefði ekki tekið landsk. þm. með í þessu dæmi, en jeg áleit, að þetta væri bæði rjettara og sanngjarnara.

Það var annars gaman að þessari yfirlýsingu hv. þm. Ísaf., að það eitt væri næg ástæða fyrir skifting kjördæmisins, að jafnaðarmenn fái þar eitt sæti á Alþingi. Þessi yfirlýsing sýnir svo ljóslega, að alt skraf um það, hve þetta væri rjettlátt vegna Hafnarfjarðar, er ekkert annað en ósannindi og yfirdrepskapur. Nei, ástæðan er aðeins að auka jafnaðarmönnum fylgi í þinginu, en þeir eru ekkert að hugsa um að miskunna Hafnfirðingum.

Mjer þótti hv. þm. Mýr. taka nokkuð af því í öðru orðinu, er hann gaf í hinu. Hann sagði nefnilega, að sjálfsagt væri að ræða um skiftingu kjördæmisins án þess að taka tillit til þess, hvaða flokkur hefði gagn af því í svipinn, en í sömu andránni segir hann, að sjálfsagt sje að sýna jafnaðarmönnum það rjettlæti að láta þá fá fleiri þm. í þinginu. Jafnaðarmenn sjeu slíkir ágætismenn og svo sanngjarnir og góðir, að þeir eigi þetta fyllilega skilið. Jeg vona, að hv. þm. Mýr. og aðrir þm. Framsóknarflokksins haldi lengi áfram að vera sammála um þetta, en jeg gæti trúað því, að ekki liði á löngu, þar til kæmi annað hljóð í strokkinn. Tölurnar, sem jeg dró fram í dæmi mínu, sýna, að Framsóknarflokkurinn býr í glerhúsi, svo að þeir ættu að hafa sem hægast um sig. Margir þm. þessa flokks sitja í trássi við þær grundvallarreglur, sem hljóta að gilda, þegar rætt er um það, hve marga þm. hver flokkur sendir á þing. Ef svo hefði hitst á, að Framsókn hefði fengið ofurlítið fleiri atkv. í nokkrum kjördæmum, þá hefði stjórnin getað setið í fullkomnum meiri hluta, án tilstyrks jafnaðarmanna, og haft þó á móti sjer afarmikinn meiri hluta allra kjósenda í landinu. Þessu ræður hin ófullkomna kjördæmaskifting, og Framsókn ætti því að fara varlega, þegar hún býr í slíku glerhúsi. Því að þótt Framsókn láti nú fagurt að jafnaðarmönnum, þá munu þeir að sjálfsögðu nota fyrsta tækifæri til þess að fá órjett sinn bættan. Og þegar sú skuld verður innheimt, þá er ekki vafi á því, hverjir verða að borga.

Þótt jafnaðarmenn og framsóknarmenn geti ef til vill beitt íhaldsmenn ranglæti nú, þá mun svo fara fyr eða síðar, að sá flokkurinn, sem nú hefir of marga þm., verður að lokum að láta þau sæti af hendi til jafnaðarmanna og annara þeirra, er eiga rjett á þeim. Frá þessari miklu vináttu framsóknarmanna og jafnaðarmanna liggur því bein lína yfir í fullan fjandskap.

Það mun svo fara, ef jafnaðarmönnum eykst fylgi á þingi, að sá styrkur verður til þess að kljúfa algerlega þessa tvo flokka hvorn frá öðrum, og mun þá sannast hið fornkveðna, að sjaldan launar kálfur ofeldið.