10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Sigurjón Á. Ólafsson:

Jeg býst ekki við að verða eins hávær og sá hv. þm., sem nú var að setjast niður.

Það mun nú líða að lokaþætti þessarar umr. og um leið varnar íhaldsmanna hjer í deildinni gegn skiftingu þess kjördæmis, sem hjer er um að ræða. Og engan skyldi undra, þótt dauðastríðið yrði nokkuð hart, því að svo uggir mig, að aldrei framar skipi íhaldsmaður sæti hjer á Alþingi fyrir Gullbringu- og Kjósarsýslu, þegar því umboði núverandi fulltrúa er lokið, er þeir nú hafa.

Það hafa þegar verið færð rök að því af hv. þm., sem með málinu hafa talað, að Hafnarfjörður, sem mun vera þriðji kaupstaður landsins að mannfjölda, á fylsta rjett til þess að vera kjördæmi út af fyrir sig. Til þess liggja margar ástæður, og ætla jeg að draga hjer saman fimm þeirra:

1. Að á bak við þingmann kaupstaðarins eins og nú er eru 1300 kjósendur.

2. Tveir þriðju hlutar þessara kjósenda óska skiftingarinnar, og þar með talin stjórn kaupstaðarins, að einum undanskildum.

3. Kaupstaðinn byggir fólk, sem á afkomu sína undir rekstri stórútgerðar, algerlega gagnstætt atvinnuháttum annara sýslubúa.

4. Málefnum kaupstaðarins stýra verkamenn, og því meiri trygging fyrir því, að þeirra kröfum yrði betur framfylgt á Alþingi, ef maður með sömu skoðanir færi með umboð þeirra.

5. Engin áberandi andúð gegn skiftingunni hefir komið frá kjósendum kjördæmisins utan Hafnarfjarðar. Jafnvel eru meiri líkur til, að allmikill hluti landbúnaðarbænda kjördæmisins sje skiftingunni fylgjandi.

Eftir því, sem marka má af umræðunum, er þetta aðalþungamiðjan í þeim rökum, sem fram hafa verið færð fyrir frv., og er málið þrautrætt að því leyti. En jeg er tilneyddur að víkja örfáum orðum að háttv. 2. þm. G.-K. Hann talar hjer um þetta mál með því yfirlæti og stórmenskubrag, sem oft einkennir þá menn, sem heimurinn hefir látið vera sólskinsmegin í lífinu, og hefir gert þá fulla af ofmetnaði, stórmensku og hroka. Umráð þeirra yfir peningum og ímyndun þeirra um, að þeir sjeu voldugir og stórir, er orsök þessa. Alt á að brjóta undir járnhæl auðs og drotnunar. Oftast vantar þessa menn andlegt göfgi og víðsýni til að sýna hinn sanna manndóm. Hvort hv. 2. þm. G.-K. finnur hjá sjer eitthvað af þessum skapgerðarbrestum, ætla jeg honum sjálfum að rannsaka.

Í ræðu háttv. þm. um þetta mál virtist helst koma fram, að hann ætti alt dautt og lifandi í kjördæminu, að undanteknum þeim kjósendum, sem þegar hafa risið á móti honum. Hann talar um bændavaldið, sem alt sje með honum. Því hefir þegar verið svarað af hv. þm. Mýr. og sýnt, á hve miklum rökum sú staðhæfing er bygð.

Hann vitnar í atkvæðamagn síðustu kosninga. Já, mjer er nú nokkuð kunnugt um, hvernig hægt er fyrir jafnpeningasterkan mann og hv. þm. að ná upp atkvæðamagni við kosningar í kjördæmi, sem vill ekki ennþá fallast á skoðanir okkar jafnaðarmanna og telur vonlaust til sigurs að greiða bændafulltrúum atkv., þótt fram sjeu boðnir. En jeg skal ekki fara lengra út í það mál nú.

Sami hv. þm. vitnar í lægri atkv.tölu jafnaðarmanna í Hafnarfirði síðastl. sumar en 1926, við aukakosninguna, er þá fór fram. En hann getur ekki þess, að allmikill hluti kjósenda, og þá sjerstaklega sjómenn, verkamenn og verkakonur, var kominn út um alt land til atvinnu, þegar kosningar fóru fram, 9. júlí, og mestur hluti þess hafði ekki notað kosningarrjett sinn, þegar það fór. Þetta fólk er undantekningarlítið Alþýðuflokksfólk. Sama er að segja um verkamenn, sjómenn og verkakonur í Garði, Miðnesi, Höfnum og Grindavík, að það fer einnig upp í sveitir og norður og austur á land í atvinnuleit, og notaði því ekki kosningarrjett sinn. En einmitt þetta fólk er þegar búið að fá opin augun fyrir því, að hv. 2. þm. G.-K., og jafnvel hv. 1. þm. G.-K., eru ekki þess fulltrúar.

Á kosningadaginn 9. júlí í sumar var gott veður og því ekkert til sparað af hálfu Íhaldsflokksins að koma öllu gömlu fólki á kjörstað, til að fylla atkvæðatölu sína. Aftur á móti dró vonleysi minni hlutans um sigur úr þátttökunni þeim megin á kjördegi. En þetta breytist á annan veg, þegar kjósendur sjá, að til sigurs er að vinna.

Jeg ætla ekki langt út í umræður um atkvæðasmalanir eða undirskriftir við hv. þm. Eftir mikið og örðugt strit hafa íhaldsmenn náð undir skjöl sín einum þriðja hluta þeirra, er látið hafa uppi skoðun sína um málið. Því að Alþýðuflokkurinn hefir nú skilað helmingi fleiri undirskriftum úr Hafnarfirði, þar sem þess er krafist, að skifting kjördæmisins fari fram. Og meginhluti bæjarstjórnarinnar hefir krafist hins sama. — Jeg ætla ekki að þrátta um það, hvort undirskriftasmalar íhaldsmanna hafa verið launaðir eða ekki, og ekki heldur um það, hve mikið af þeim launum kynni að hafa verið úr rassvasa hv. þm. sjálfs. En hitt get jeg sagt honum, að til þessa hefir það ekki verið regla hjá Alþýðuflokknum að launa slíkar undirskriftasafnanir. Það eru áhugamenn flokksins, sem vinna það verk án þess að krefjast launa fyrir. Svo var það um undirskriftalistana út af togaravökulögunum. Fyrir þá greiddi Sjómannafjelagið ekki einn einasta eyri fram yfir það, sem pappírinn í áskriftarskjölin kostaði.

En eitt langar mig til að spyrja hv. þm. um. Hvaða stóra mál er það, sem hann og háttv. samþingismaður hans hafa unnið fyrir Hafnarfjörð? Mjer er ekki kunnugt um nokkurt mál, þar sem þeir hafi lagt sig í líma fyrir kaupstaðinn. Öllum mannúðarmálum jafnaðarmanna hafa þeir verið öndverðir á móti, eins og þeirra eigin flokkshagsmunir kröfðust, og þar með hafa þeir verið á móti meiri hl. hafnfirskra kjósenda. Hv. þm. mun sennilega vitna í mál í sambandi við útgerð Hellyers í Hafnarfirði. Hv. þm. Dal. var nú að breiða sig út yfir það mál. Ef jeg man rjett, var hv. þm. sjálfur í stjórn, þegar það mál var leitt til farsælla lykta. (SE: Jeg var altaf á móti undanþágunni). Mig minnir líka, að fulltrúi stórútgerðarinnar, núverandi hv. 2. þm. G.-K., væri eindregið móti því að hleypa Hellyer inn í landið. (ÓTh: Laukrjett). Ástæðan var ekki sú, að hann óttaðist, að of mikill fiskur verkaður á Íslandi kæmi á markaðinn. Nei, það var hræðslan við of mikla eftirspurn eftir vinnukraftinum, sem þá rjeði gerðum hv. þm. En það er annað hljóð komið í strokkinn nú. Nú er þessi hv. þm. orðinn aðalumboðsmaður Stórútgerðarinnar í Hafnarfirði. Fyrst hafði Hellyer lögfræðinga til að gæta hagsmuna sinna, en nú er það helsti útgerðarmaður landsins, sem tekið hefir það starf að sjer. Og mjer er sagt, að fyrir þetta muni hann fá allgóðan lífeyri. (ÓTh: „Ólyginn sagði mjer“). Í þessu hefir ekki komið fram nein umhyggja fyrir hafnfirskum kjósendum, því að hv. þm. hefir ekki verið annað en umboðsmaður erlends útgerðarmanns í samningum milli hans og Hafnarfjarðarbæjar um útsvar o. fl. Nei, Hafnfirðingar vita, að úr þessari átt eiga þeir ekki fylgis að vænta við sín áhugamál. Aðstöðu sinnar vegna hefir hv. þm. jafnan gengið á móti málefnum þeirra. Skal jeg ekki lasta hann fyrir það. Hann hefir þar verið trúr sínum flokki.

Þá verð jeg að segja nokkur orð við hv. þm. Dal. sem gamall sjálfstæðismaður roðnaði jeg undir ræðu hans í gær. (SE: Það skil jeg vel!). Jeg roðnaði út af því, að þessi gamla kempa skyldi nú ganga á móti máli, sem hann hefir á undanförnum árum mælt með af sannfæringu. Og hver var ástæðan, sem hann skapaði sjer fyrir þessum snúningi? Það var óttinn við þessa hræðilegu dönsku peninga! (SE: Hvað voru þeir miklir? — ÓTh: Er satt, að þeir hafi verið 140 þús. kr.? — HG: Haugalygi!). — Hv. þm. getur fengið að sjá það hvenær sem er, að þessum fundi loknum. (SE: Ágætt). Það er sárt, að sjálfstæðiskempan skuli nú vera bundin við tjóðurhæl íhaldsins og gengin á mála hjá því. Gengin á mála hjá þessu sótsvarta íhaldi, sem sjálfur hann hefir manna mest úthrópað um landið á síðustu árum. Eftir þetta eru sjálfstæðisorð hans ekki annað en hvellandi bjalla í mínum eyrum. Nú vitnar hann í dagblað íhaldsins eins og biblíuna sína, þetta blað, sem hann trúði ekki einu orði úr áður. Nú var þar helst sannleikans að leita, enda gengur sú saga um bæinn, að hann sje orðinn einn af aðalstyrktarmönnum þessa blaðs, og blandi þar blóði við stór-Danina. (SE: Hrein ósannindi !). Þetta er nú altalað í bænum. (SE: Er þetta þingmaður bæjarslúðursins?). Hin háværa ræða þessa hv. þm. var ekki annað en hvellandi bjalla í eyrum þingsins. Og dómur þjóðarinnar segir, að orð hans sjeu ekki annað en hvellandi bjalla í hennar eyrum.

Jeg skal nú rifja upp nokkur atvik í sambandi við þennan óttalega styrk danskra verkamanna til stjettarbræðra sinna hjer á landi: Samskonar styrktarstarfsemi á sjer stað meðal jafnaðarmanna í öllum löndum, og hefir víst hvergi bólað á ótta eða æsingu út af henni, nema hjer. Þjóðverjar styrktu á sínum tíma aðalblöð franskra jafnaðarmanna. Það voru aldrei álitin nein föðurlandssvik, enda þótt sambúðin væri þá ekki sem best milli þeirra þjóða. Og þessi ógurlega þjóð, Danir, tóku á móti stórkostlegum styrk frá Þjóðverjum á meðan jafnaðarstefnan var að ryðja sjer til rúms í Danmörku. Jeg hefi aldrei heyrt dönskum jafnaðarmönnum borna á brýna neina óeinlægni út af því. Svona gæti jeg talið endalaust. Enda er þetta eðlilegt, að fátækustu menn þjóðanna styrki hverjir aðra í baráttunni, alveg eins og Oddfellowar gera og frímúrarar, sem hv. þm. sjálfur tilheyrir. (SE: Algerð ósannindi). Jeg veit ekki betur en að hv. þm. sje í þeim fjelagsskap. (SE: Jeg mótmæli þeim áburði, að jeg sje frímúrari, og leyfi mjer að spyrja hæstv. forseta, hvort heimilt sje að fara með ósannindi í þingsalnum! — Forseti hringir). Jeg hjelt ekki, að það væri neitt ljótt að vera frímúrari.

Jeg ætla ekki að fara að minnast á aðstöðu hv. þm. við Íslandsbanka.

Hann hefir fengið harða ádeilu út af því máli, og sennilega harðasta frá núverandi samherjum sínum, þessum flokki, sem hann er að tengja sig órjúfandi böndum við. En meðan hann var frjálslyndur, kom fyrir atvik, sem íhaldsmenn deildu mjög á jafnaðarmenn fyrir. Það var þegar þeir sendu einn af flokksbræðrum sínum til að leita styrktar hjá verkamönnum í Englandi. Þá belgdu íhaldsmenn sig ógurlega út af þessu og töldu það föðurlandssvik og landráð. En hv. þm. Dal., sem þá var forsrh., var svo frjálslyndur, að hann sagði, að ekkert væri út á þetta að setja. (SE: Jeg man ekki til að hafa sagt eitt einasta orð um þetta). En það sjest nú, hvað hv. þm. er tekinn að eldast í hugsunarhætti, því að það eru ellimörk sýnileg á því, með því að snúast frá sinni frjálslyndu stefnu yfir í íhaldið, sem sjá má á stefnubreytingu hans í þessu máli.