10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg skal reyna að lengja ekki mikið þessar umr., sem þegar eru orðnar alt of langar. En jeg kemst þó ekki hjá að svara nokkrum hv. þdm., sem hafa beint orðum til mín.

Fyrst skal jeg snúa mjer að hv. 2. þm. G.-K. Jeg segi honum það enn, að jeg mun ekki ræða þetta mál á þeim grundvelli, er hann og ýmsir fleiri hafa lagt í umr., sem sje hvaða flokkur hefði mestan hag af skiftingu kjördæmisins. Jeg álít það ekki aðeins rangan grundvöll undir lausn málsins, heldur beinlínis hættulegan. Jeg vil dæma um málið eingöngu eftir þeim venjum, sem á Alþingi hafa tíðkast áður, og eftir því, í hverju mjer virðist mest sanngirni. Er það sanngjarnt, að sá kaupstaður, sem stærstur er utan Reykjavíkur, fái ekki sjerstakan þingmann, þrátt fyrir langvarandi kröfur, og þrátt fyrir það, að aðrar minni kaupstaðir hafa fengið þingmann fyrir löngu? Þetta virðist mjer vera sú spurning, er mestu máli skiftir. Og þegar hjer stendur svo á, að hægt er að veita kaupstaðnum þessi rjettindi án þess að gera nokkrum öðrum rangt til, þá virðist mjer sjálfsagt að gera það. Með skiftingunni er ekki framið neitt ranglæti gagnvart hinum hluta kjördæmisins, með því að nú eru til einmenningskjördæmi, sem eru fjölmennari en þetta kemur til með að verða. Þótt kaupstaðurinn sje nú fámennari en sýslan, þá er hann í hröðum vexti, en það er sýslan ekki.

Annars vil jeg benda hv. 2. þm. G.-K. á útreikninga sjálfs hans um það, hvaða flokkur mundi vinna á við skiftinguna. Hann sagði, að eftir nýjustu upplýsingum hefðu jafnaðarmenn 680 atkv. í Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfirði. Jeg get fullyrt, að mörg þessara atkv. hafa verið greidd utan kaupstaðarins. Það er áreiðanlega lágt í lagt að áætla það 80 atkv. Eftir því ættu að vera 600 jafnaðarmenn í Hafnarfirði, en þar eru 1300 kjósendur, svo að íhaldsmenn ættu þá að vera þar í meiri hluta. (ÓTh: Jeg talaði um greidd atkv.!). Eftir þennan útreikning vonast jeg til, að hv. 2. þm. G.-K. geti fallist á að skifta kjördæminu.

Þá taldi hv. þm. mig hafa farið með ásakanir í sinn garð í nafni bændanna. En jeg var eingöngu að benda á, hvílík fjarstæða það er að bera það fram gegn þessu frv., að það sje árás á bændavaldið í landinu. Jeg benti á það, að kröfur bænda í hjeraðinu um að íhaldsmenn hefðu a. m. k. einn bónda í kjöri hefðu allar verið fyrir borð bornar. En hitt dettur mjer ekki í hug að segja, að hv. þm. vilji bændum illa. Þar fyrir er það engin niðrun í hans garð, þótt sú skoðun sje í ljós látin, að málefnum bænda væri betur borgið í höndum t. d. Magnúsar Þorlákssonar á Blikastöðum. Auðvitað gerir hv. þm. það, sem hann getur, fyrir bændur, en þess er ekki að vænta, að hann skilji eins vel kröfur þeirra og þarfir og þeir, sem sjálfir eru hold af þeirra holdi og blóð af þeirra blóði. — Hv. þm. nefndi það sem dæmi, hvað jeg hefði gert, ef jeg hefði verið kosinn í sjútvn. Jeg hefði vitanlega orðið þar álíka og hann er sem bændafulltrúi. Jeg hefði reynt að kynna mjer málin eftir föngum og unnið að þeim með samviskusemi af veikum kröftum, en vitanlega hefði jeg aldrei komist þar í hálfkvisti við t. d. hv. 2. þm. G.K. — En á þetta benti jeg aðeins til að sýna, hve fjarri það er öllu lagi að tala um þetta kjördæmi sem höfuðvígi bændavaldsins í landinu. Háttv. þm. kvaðst vera kosinn með atkv. flestra bænda í kjördæminu. Það er alveg rjett, og jeg geri ráð fyrir, að hann mundi hljóta kosningu þar aftur, þótt kjördæminu verði skift. Og jeg vænti, að eftir skiftinguna verði hann ekki minni bændavaldsmaður en hann er nú. Eins hygg jeg, að sá þm., sem Hafnarfjörður kysi, yrði bændavaldinu ekki lakari en hv. 1. þm. G.-K. (BK) er nú. Það er ekki af því, að mig langi nokkuð til að ráðast á þennan gamla og að mörgu leyti góða mann. Jeg skal geta þess um leið, að fyrstu tíu árin, sem jeg reyndi að gera mjer grein fyrir stjórnmálum þessa lands, þá fylgdi jeg eindregið að málum þessum manni. En jeg get ekki gengið framhjá því, þar sem þetta er til umræðu hjer og hv. 1. þm. Reykv. hefir álasað mjer fyrir þau orð, sem jeg ljet falla í garð þessa hv. þm. (BK), — að minna á það, að hans skrif um samvinnufjelögin í landinu, sem eru mesta. og merkilegasta verk íslensks bændavalds, hafa verið þannig, að fjelögin sáu sig tilneydd að höfða meiðyrðamál móti þessum mæta manni. Var fjöldi ummæla hans dæmdur dauður og ómerkur. Þannig skrifar ekki sá, sem ber hlýjan hug til manna og málefna. Og jeg held, að þetta sýni, að þarna á ekki íslenskt bændavald fulltrúa, sem það geti treyst.

Þá verð jeg að svara háttv. 1. þm. Reykv. nokkrum orðum. Hann var að tala um það, hv. þm., að mjer hefðu fallið þannig orð, að jafnaðarmenn væru þeir ágætismenn, að enginn skaði væri, þótt þeir kæmu inn í salinn. Þetta er ekki rjett. Jeg er heldur ekki svo guðfróður maður, að jeg treysti mjer til að dæma um drengskap manna eftir afstöðu þeirra til stjórnarinnar. Það hefir enginn hv. þm. leyft sjer annar en þessi hjartnanna og nýrnanna rannsakari, háttv. 1. þm. Reykv. Það var hann, sem skar okkur alla andstæðinga sína, fylgismenn stj., hjerna um daginn við sama trogið með sama hnífsbragðinu, þegar hann sagði, að við værum allir ódrengir fyrir fylgi okkar við núverandi stjórn. Jeg ætla að lofa hv. þm. að vera einum um þann sóma að dæma andstæðinga sína þannig. En jeg álít um jafnaðarmenn, að þeir sjeu hvorki verri eða betri en aðrir menn, — Svona yfirleitt eins og fólk gerist, og þoli að minsta kosti fyllilega samanburð við hv. 1. þm. Reykv.

Þá endurtók hv. þm. sömu árás og áður á þinginu í garð Framsóknarflokksins, að hjer væri um ekkert annað að ræða en verslunarbrask milli okkar og jafnaðarmanna, að þar sem við viljum í einstökum atriðum ljá málum jafnaðarmanna liðsinni, þá þýði það ekkert annað en það, að við höfum selt okkur með húð og hári. Mjer dettur í sambandi við þetta í hug atvik, sem einu sinni kom fyrir mig. Jeg var á ferð úti í Danmörku með dönskum „agent“. Við komum víða og litum í kringum okkur. Mig undraði, hvernig hann talaði um það, sem fyrir augu bar. Hann sagði, að kornið stæði sig 50% betur hjer en þarna, svínin væru 50% feitari og kýrnar 30–40% fallegri en annarsstaðar. Jeg hafði aldrei heyrt svona til orða tekið, en varð þetta skiljanlegt, er jeg hugleiddi, við hvað þessi maður hafði eytt sinni löngu æfi. Hann var orðinn svo leikinn í að nota prósentur, að hann gat ekki hugsað eða talað nema í prósentum. — Þessi hv. þm. (MJ) getur nú aldrei minst á viðskifti jafnaðarmanna og framsóknarmanna öðruvísi en nefna verslun. Þá vil jeg benda á, að af góðri samvisku geta ekki aðrir talað þannig en þeir, sem hafa árum saman haft sál og samvisku í lausakaupum.

Þá var hv. þm. að taka upp hanskann fyrir hv. þm. Barð. út af orðum, sem fjellu hjá mjer í hans garð. Áleit hann óviðurkvæmilegt af mjer, ungum og óreyndum manni, að ráðast á roskna og reynda þingmenn, er stæðu mjer framar. Jeg vil segja þessum hv. þm. það í eitt skifti fyrir öll, að jeg mun fylgja þeirri venju innan þings eins og utan, að ráðast ekki að fyrra bragði á menn; en jeg lofa engu, ef á mig er ráðist með óbilgirni og hrottaskap, eins og þessi hv. þm. gerði við mig og aðra. Jeg mun því svara á þann hátt, sem mjer þykir sæma, hvort sem í hlut á hv. þm. Barð. eða einhver, sem er svo mentaður, að hann hefir lesið Ibsen.