10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3057 í B-deild Alþingistíðinda. (2777)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Sigurður Eggerz:

Síðan jeg kom á þing man jeg aldrei eftir að hafa heyrt eins miklu af ósannindum hrúgað saman í tveimur ræðum eins og í ræðum hv. sessunautar míns og hv. 4 þm. Reykv.

Það var það fyrsta, að jeg væri að ganga á mála hjá íhaldinu. Mjer þætti gaman að sjá, hvaða mál það væru, þar sem jeg mundi ekki halda sömu skoðun fram eins og jeg hefi áður gert, að því undanteknu, sem jeg hefi nú skýrt frá. Og jeg sýndi fram á, að í sjálfu sjer er hugsun mín ekki breytt; en það eru nýir atburðir, svo örlagaþrungnir, sem gera það að verkum, að jeg hlýt með atkvæði mínu að sýna megnustu andstygð á þeim dönsku peningum, sem hafa runnið til stjórnmálastarfsemi í landinu. Það er nefnilega munur á því, hvort peningarnir fara til þess að hjálpa mönnum í verkfalli eða einhverju þess háttar; jeg veit, að það er siður. En þegar peningarnir ganga til stjórnmálastarfsemi, þá er það tvöföld hætta í því landi, sem stendur í því sambandi við annað land eins og Ísland við Danmörku. Það sjá allir, hvaða þýðingu það mundi hafa, ef Alþýðuflokkurinn með fjárstyrk Dana stækkaði miklu meira en svaraði eðlilegri framþróun. Og á slíkri óeðlilegri framþróun Jafnaðarmannaflokksins á Íslandi, sem skapast fyrir danskt fje, hljóta menn að hafa andstygð. Það er stórfurða, að jafnmerkur maður og Stauning, foringi danska stjórnmálaflokksins, skuli vilja veita fje til stjórnmálastarfsemi hjer. Það er í raun og veru á móti anda sambandslaganna. Það er með því verið að hafa áhrif á, hvernig atkvæðagreiðsla á sínum tíma fari fram um það, hvort við eigum sjálfir að eiga. okkar land, eða hvort við eigum að eiga það með Dönum. Jeg hefi svo mikla tilfinningu fyrir þjóðinni og landinu, að það hefir sannarlega ekki nein áhrif á mig, þótt jeg heyri þær ræður, sem hv. sessunautur minn og hv. 4. þm. Reykv. flytja um mig persónulega. Því að hvað sem þeir vilja reyna að draga mig persónulega djúpt niður, þá verða þær skoðanir, sem jeg held fram í sjálfstæðismáli Íslendinga, svo sterkar, að þessir hv. þm. verða í fyllingu tímans að krjúpa á knje fyrir þeim skoðunum.

Jeg sagðist ekki muna að hafa heyrt jafnmiklu af ósannindum hrúgað saman í tveimur ræðum eins og í þessum; og það sýnir best, hvað málstaðurinn er veikur, þegar fyrst og fremst er verið að ráðast persónulega á menn og auk þess ekki hlífst við að fylkja ósannindunum fram á sjálfu fulltrúaþingi Íslendinga.

Eitt var það, sem hv. þm. sagði, og jeg hefi auk þess heyrt, að stæði í blaði jafnaðarmanna á Akureyri, að jeg ætti að vera stór hluthafi í „Morgunblaðinu“. Er það nú ekki hart að þurfa að beita slíkum ósannindum? Að öðru leyti verð jeg að segja, að þetta sýnir í raun og veru, hve mjög menn eru hræddir við mig, þó að jeg standi einn, fyrst þeir þurfa að grípa til þessara vopna til að vinna á mjer. Þeir þurfa m. ö. o. að viðhafa allar mögulegar árásir á mig, en þora ekki að standa hjer í nafni sannleikans. Svo langt gengur þessi ósannindavaðall, að hv. 4. þm. Reykv. segir, að jeg sje frímúrari! Jeg veit ekki til þess, að jeg hafi nokkurntíma verið frímúrari. Jeg spyr, hvort þetta sje prýði á þingmönnum, að umgangast sannleikann svona óvarlega hjer á þessari göfugustu samkomu þjóðarinnar.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það mætti á öllu sjá, að jeg væri orðinn gamall. Já, ekki skal deilt um það, og ellin leggur okkur alla að lokum, en svo lengi er maður ekki gamall — a. m. k. ekki í stjórnmálum — meðan maður stendur við sína skoðun, hvort sem fylgja henni fleiri eða færri. Það má hv. 4. þm. Reykv. vita, að auðvitað væri mjer það þægilegra hjer í þingsal — þótt aldurinn sje ekki nema rúm 50 ár, — að lifa í friði við alla, en að þurfa að standa hjer upp og berjast í þeim málum, sem koma hart við ýmsa menn, en sem jeg álít sem höfuðmál þjóðarinnar. Jeg álít, að maður eigi ekki lengur að vera fulltrúi sinnar þjóðar en meðan einurðin er næg til þess að halda fram því, sem rjett er. Ekki myndi hv. 4. þm. Reykv. tala um aldur minn, ef jeg væri í Jafnaðarmannaflokknum. En jeg ber ekki neinn kinnroða gagnvart alþýðu þessa bæjar og þessa lands, því að jeg hefi vissulega oft sýnt það, þegar hún hefir verið með sín örðugu mál, að jeg hefi haldið á hennar málstað. Og ekki hefi jeg altaf hlotið vinsældir fyrir það.

Það var ekki rjett skýrt frá hjá sessunaut mínum, sem hann sagði um framboð mitt. Jafnaðarmenn gerðu mjer orð og lýstu yfir því, að ef jeg byði mig fram, skyldu þeir láta mig hlutlausan. Jeg bað aldrei um fylgi hv. sessunautar míns eða neins úr miðstjórn jafnaðarmanna. En hitt vissi jeg, að þegar það frjettist í herbúðir foringjanna, að alþýðumenn í Hafnarfirði vildu láta mig hlutlausan, þá urðu þeir hræddir við það, að jeg mundi komast að, og þá fóru þeir strax að hamast. Á sama augnabliki og alþýða. þessa lands sæi, hvernig foringjar hennar eru, þá myndi hún kasta þeim frá sjer og fá sjer aðra betri. Og það verð jeg að halda, að alþýðan eigi ekki mikla framtíð fyrir höndum, nema hún skilji sinn vitjunartíma, — skilji, að hún á að kasta þessum blöðrurum, sem ekki geta einu sinni horft framan í sannleikann hjer á þingi. Hún á að kasta þessum blöðrurum frá sjer og taka sína góðu menn, sem hún getur treyst, fyrir foringja, — ekki þá, sem leiða hana út í aðrar eins ófærur og foringjar hennar eru nú að leiða hana. Því að dómur sögunnar mun áreiðanlega verða sá, að þau verk, sem alþýðuforingjarnir eru nú að vinna, þau munu ekki verða hátt skrifuð á sínum tíma í sögu þjóðarinnar.

Hv. sessunautur minn fór enn á ný að gera Íslandsbanka að umræðuefni og fór að tala um launin, 15 þús. með dýrtíðaruppbót. Það voru sömu laun sem Alþingi ákvað í Landsbankanum. Og þegar launin voru ákveðin í Íslandsbanka, þá voru aðrir menn settir inn í bankann en jeg. Annars man jeg ekki, hvernig atkvæðagreiðslan fjell í bankaráðinu, og má heldur ekki skýra frá henni, því jeg er bundinn þagnarskyldu. En hvernig ætti háttv. sessunautur minn að vita, hvað stæði í bankaprótokollunum ?

Jeg færði hinsvegar launin úr 40 þús. kr. niður í 24 þús., en sú upphæð minkar, ef dýrtíðin breytist. Er jeg viss um, að ef hv. sessunautur minn hefði gert slíkt, hefði hann haldið langa lofræðu um sig á þingi. Mundi hafa þótt muna um minni lækkun en 16 þúsundir.

Hv. sessunautur minn vildi enn halda fram, að þeir menn, sem skipaðir væru af ríkisstjórninni, sætu af danskri náð. Hverjum mundi detta í hug, að hæstv. forsrh., sem er formaður bankaráðs, sæti af danskri náð? Nei, sannleikurinn er sá, að þau áhrif sem jeg hefi haft á Íslandsbanka, koma m. a. fram í því, að nú eru allir bankastjórarnir orðnir íslenskir; hinna áhrifanna gætir ekki neitt. Hv. þm. er hvað eftir annað að ráðast á Íslandsbanka, en athugar ekki, að þessi banki er mikilsverður liður í viðskiftalífi þjóðarinnar, og ætti hann þó, sem er hagfræðingur, að geta skilið þetta.

Það er skilningur á stórmálum þjóðarinnar, sem hjer vantar. Jeg fæ ekki tækifæri til að tala oftar við þessa umræðu. En jeg vona, að fulltrúar þjóðarinnar, sem hjer eiga sæti, geri sjer ljóst, hvílík alvara er á ferðum, ef danskt fjármagn nær að hafa áhrif á ísl. þjóðmál og ef sjerstakur danskur flokkur nær að rísa upp í landinu.