10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Haraldur Guðmundsson:

Mjer er skamtaður stuttur tími að þessu sinni og veit satt að segja varla, hvernig jeg á að skifta honum niður.

Jeg vildi segja hv. 1. þm. Reykv. það, að undarlega fer honum, er hann bregður okkur andstæðingum sínum um loddaraskap og hræsni í málflutningi okkar, því að hjer á þingi er enginn maður þektari að því en hann að vera óvandaður í málflutningi. Hann hefir bæði nú og endranær legið á því lúalagi að gera þeim þingmönnum, sem búnir eru að tala út, orðin upp og hrekja síðan það, sem hann sjálfur hefir lagt þeim í munn. Nú gerist hann svo brjóstheill, að hann ávítar hv. þm. Mýr. að ástæðulausu fyrir þetta sama. Hann sagði, að jeg hefði sagt, að aðeins væri ein ástæða til skiftingarinnar. Vitanlega sagði jeg það aldrei, heldur, að sú ástæða, er jeg þá nefndi, væri nægileg ástæða. Ennfremur sagði hann, að jeg hefði sagt, að á þennan hátt væri bætt úr misrjetti milli flokkanna. Jeg sagði, að þetta væri eitt spor í rjetta átt. Þá sagði hann, að jeg hefði sagt, að þm. G.-K. sætu í óþökk kjósenda sinna. Jeg sagði, að þeir sætu í óþökk mikils meiri hluta kjósenda í stærsta kaupstaðnum í kjördæminu. Annars býst jeg við, að við sitjum báðir í óþökk einhverra kjósenda. Hv. 1. þm. Reykv. situr t. d. í óþökk fleiri kjósenda en nokkur þjóðkjörinn þm. annar. En reykvískum kjósendum má vera það til huggunar, að þeir hafa fleiri fulltrúum á að skipa en honum einum. En báðir þm. G.-K. Sitja í fullri óþökk Hafnfirðinga, og því er þar brýnust þörf umbóta.

Hv. þm. spurði mig, hvort jeg treysti mjer til að koma á þannig lagaðri kjördæmaskipun, að þingmenn sætu ekki í óþökk neinna kjósenda. Hvorki jeg nje aðrir hafa búist við eða ætlast til, að svo yrði, en hins krefjast allir rjettsýnir menn, að þingmenn sitji í hlutfallslega jafnmikilli óþökk kjósenda. Til þess hefir verið bent á tvær leiðir, hlutbundnar kosningar og skiftingu landsins í einmenningskjördæmi, ásamt uppbótarþingsætum.

Þá verð jeg að minnast lítið eitt á síðasta neyðaróp hv. þm. Dal. um að verja föðurlandið fyrir jafnaðarmönnum. Þetta síðasta harmakvein deyjandi stjórnmálamanns minti mig á „svanasönginn“. Þótt hann setti hljóðan, er hann heyrði talað um „danska gullið“, þá bar ræða hans þess ljósan vott, að hann hefir nú fengið málið aftur. Annars mega það heita brjóstheilindi í mesta lagi, að þessi hv. þm., sem lifir, andar og hrærist í dönsku gulli, skuli leyfa sjer að telja þjóðerninu og sjálfstæði þjóðarinnar stefnt í voða, er íslenskir jafnaðarmenn fá styrk frá flokksbræðrum sínum erlendis. Reyndi hann að sýna fram á það með miklum fjálgleik, hve ógurleg hætta væri á ferðum, og taldi, að Danir væru að koma sjer upp stjórnmálaflokki fyrir 1943. Þetta var meiningin hjá honum, ef nokkur meining var í hinni skáldlegu ræðu hans. Jeg skal engu spá um úrslit málanna 1943. En ekki þætti mjer ólíklegt, að þessi langt leiddi stjórnmálamaður fengi að sjá, að aðrir gengju þá eins langt í rjettarkröfum vorum eins og hann, ef hann verður þá uppi.

Hv. þm. fór að tala um holdafar hv. 2. þm. Reykv. Það hefir nú áður verið talað um holdafar hans sjálfs, en hvort það var andlegt eða líkamlegt holdafar, veit jeg ekki. En annars á hún hjer við sagan um feitu og mögru kýrnar hans Faraós. A. m. k. verður ekki annað sjeð en að hv. þm. Dal. rúmist prýðilega innan í hv. 2. þm. G.-K. án þess þó, að sá hv. þm. verði þar fyrir nokkru bústnari en hann áður var.