10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3068 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Sigurður Eggerz:

Jeg vildi aðeins slá því föstu, að enginn af hv. þm. jafnaðarmanna hefir haft þrek til að segja, hve mikið þeim hafi fallið í skaut af danska gullinu. En ef þær sögur eru sannar, sem af því ganga, þá er ástæða til, að þjóðinni blöskri. Hv. þm. Ísaf. var að tala um, að jeg lifði, andaði og hrærðist í dönsku gulli. En hann gleymir að geta þess, að hann, æskumaðurinn með allar hugsjónirnar, hóf einmitt starfsferil sinn í deild þess sama banka, sem jeg veiti forstöðu, og var víst ósköp ánægður með að vera þar.

Jeg þarf ekki að virða þau ummæli svars, að jeg sje genginn inn í Íhaldsflokkinn. Allir vita, að jeg hefi frá upphafi verið stefnumálum mínum trúr og að Sjálfstæðismálið er mitt fyrsta og mesta stefnumál. En þegar ungir og efnilegir menn komast á slíkan klafa sem hv. þm. Ísaf., þá er von, að honum verði þungt um andardráttinn.