10.02.1928
Neðri deild: 19. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3074 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg viðurkenni, að umræðurnar um þetta mál eru þegar orðnar langar, og skal því ekki tefja þær lengi.

Jeg vil þá fyrst snúa mjer að hv. þm. Ísaf. og taka það fram, að hafi jeg viðhaft óþingleg orð í hans garð, þá var það ekki ætlun mín. Hafi jeg t. d. talað um strákskap, þá var það í alt öðru sambandi en hann hjelt, og því alls ekki meint til hans, öðruvísi en á þann hátt, að framkoma hans með orðum þeim, er hann víkur til mín og annara andstæðinga sinna, bendi óþægilega mikið á, að ummæli mín sjeu fullkomlega rjettmæt. Annars er það galli, en ekki löstur, þó að menn komi klaufalega fyrir sig orði. Jeg vænti því, að hann taki það ekki illa upp fyrir mjer, þó að jeg segi honum það, að það er betra að vera grunnhygginn heldur en að vera vitur, eins og hv. þm. heldur sig vera, og nota hyggindi sín til þess, er miður má fara. En því miður held jeg, að það hendi þennan hv. þm. oftar en ætti að vera. Þá var þessi hv. þm. að tala um fótaferð og leti. Jeg skildi hreint og beint ekkert, hvað hann meinti með því; a. m. k. mintist jeg ekki á neitt í þá átt, sem ekki var heldur von, því að um slíka hluti varðar mig ekki neitt, enda þótt jeg hafi heyrt svo sagt frá vinnubrögðum hinnar sælu sparnaðarnefndar, að þegar Haraldur Guðmundsson kæmi á fætur, væri heiðursmaðurinn Björn í Grafarholti sofnaður.

Jeg þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir það, að hann vildi bera hönd fyrir höfuð mjer, sem jeg þó álít, að ekki þyrfti, gagnvart hv. þm. Mýr. Hv. þm. Mýr. var að tala um ósjálfstæði annara. Út af þeim ummælum vildi jeg benda honum á sína eigin nekt hvað sjálfstæðið snertir. Hann sagði meðal annars, að Framsóknarflokkurinn vildi ganga að hverju máli með sanngirni og kurteisi. Út af þessum fögru orðum vil jeg spyrja háttv. þm.: Var framkoma þessa flokks samkvæmt þessu, þegar kosningin í Norður-Ísafjarðarsýslu var til umræðu? Þá vorum við íhaldsmenn bornir þeim brigslum, að við vildum vinna hvert mál með svikum og undirferli, ef við gætum það ekki á annan hátt. Jeg vildi, að hv. þm. Mýr. vildi svara þessu, og þá sjerstaklega þar sem hann var að hrósa sjer af því áðan, að hann væri svo grandvar, að hann rjeðist ekki á menn að fyrrabragði. Hvað sjálfstæðið snertir, þá verð jeg að segja það, að ekki er útlit fyrir, að hann hafi of mikið af því, þar sem hann hafði ekki þrek til þess að greiða atkv. um það, hvort taka skyldi gilda kosningu eins þm. eða ekki. Jeg býst við, að honum hefði þótt slíkt vöntun á sjálfstæði, ef jeg eða einhver samflokksmaður minn hefði átt í hlut.

Það er nú svo, að margt getur komið fyrir á langri lífsleið, og einnig það, að jeg lendi í tjóðurbandi einhvers manns eða flokks, eins og hv. þm. var að giska á; en þá vænti jeg þess, að það verði ekki sökum þess, að jeg mæni svo mjög til einhverrar sneiðar, sem kynni að vera á borðum tjóðraranna. Annars þótti mjer leiðinlegt, að þessi myndarlegi og mjer sagt góði maður skyldi viðhafa þau orð, að jeg færi hjer með hrottaskap, því að slíkt var alls ekki. En jeg vona, að hv. þm. reiðist mjer ekki, þó að jeg segi, að hann hafi þá ekki farið með hógværð.

Því, sem hv. þm. Mýr. beindi til hv. 1. þm. G.-K., sem ekki á sæti hjer í deildinni, hefir þegar verið svarað af öðrum, og þarf jeg því ekki um það að fjölyrða. En jeg vænti, að við hv. þm. Mýr. getum verið sammála um, að það kemur oft fyrir, að orð manna eru dæmd dauð og ómerk, og að sá, sem skrifað hefir, er ekkert í minna áliti eftir en áður.

Að sjálfsögðu óska jeg hv. þm. Mýr. allrar sæmdar. En jeg er ekki viss um, að dómur sögunnar verði sá, þegar samanburður verður gerður á honum og hv. 1. þm. G.-K., að hann verði talinn mikilmenni, en hinn lítilmenni.

Jeg er alls ekki að ásaka þennan hv. þm. fyrir það, þó að hann rjetti jafnaðarmönnum höndina. Hví skyldi hann ekki gera það, ef hann telur það rjett? En það finst mjer óviðkunnanlegt af honum, að vera að brigsla andstæðingunum, sem hafa aðra skoðun en hann, um ofríki og yfirgang. Slíkar ákúrur finnast mjer óviðeigandi og ósæmilegar, og það því fremur, þegar þær koma frá myndarlegum og greindum manni.

Jeg vænti nú, að jeg hafi ekki beitt þeim hrottaskap, að hv. þm. finni ástæðu til þess að finna að framkomu minni gagnvart sjer.